Ályktanir 2008

  • Post category:Ályktanir

Aðalfundur LV 

haldinn í Borgarnesi 13. – 14. júní 2008

Ályktanir samþykktar á fundinum

I

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga,  haldinn í Borgarnesi 13 og 14 júní 2008, lýsir þungum áhyggjum vegna hnignunar stórlaxa í íslenskum ám. Mörg veiðifélög hafa nú þegar sett reglur um sleppingu á veiddum stórlaxi. Fundurinn  beinir því til þeirra veiðifélaga sem slíkt hafa ekki gert að grípa nú þegar til aðgerða til að minnka  veiðiálag á stórlaxi. Fundurinn vekur athygli á að Veiðimálastofnun hefur lagt til við Matvælastofnun, í anda varúðarreglunnar, að komið verði á banni við drápi á stórlaxi. Þá beinir aðalfundurinn því til stjórna veiðifélaga að sjá til þess að veggspjald með framangreindum tilmælum verði hengd upp í veiðihúsum.     

II

Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi 13. og 14. júní 2008, fagnar nýrri löggjöf um Fiskræktarsjóð.  Hlutverk sjóðsins í stuðningi við fiskrækt í ám og vötnum, sem og rannsóknir á laxfiskum, er mjög þýðingarmikið.  Fundurinn fagnar því að með 270 miljón króna framlagi úr ríkissjóði virðist geta sjóðsins til styrkveitinga tryggð til frambúðar og felur stjórn samtakanna að gæta vel hagsmuna veiðiréttareigenda við væntanlega reglugerðasmíð eftir hinum nýju lögum. 

III

Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi 13. og 14. júní 2008, leggur áherslu á nauðsyn ýtarlegra rannsókna á lífsferli laxins meðan á sjávardvöl hans stendur.  Slíkar rannsóknir eru mjög kostnaðarsamar og vart framkvæmanlegar án sérstaks framlags úr ríkissjóði.  Fundurinn hvetur eindregið til myndarlegs átaks í þessum efnum og bendir á nána samvinnu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar að verkefninu sem vænlega leið til árangurs.  Brýnt er að leita upplýsinga um hvort breytt lífsskilyrði í hafinu kunni að eiga þátt í þeirri fækkun stórlaxa, sem orðið hefur undanfarna áratugi.      

IV

Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi 13. og 14. júní 2008, telur að stórfelldar sleppingar gönguseiða í vatnsföll, þar sem sjálfbærir stofnar laxfiska eru fyrir, kunni að orka tvímælis.  Því beinir fundurinn því til stjórnar landssambandsins að kanna hvort ekki sé rétt að setja nánari reglur um sleppingar af þessu tagi, þar sem krafist verði úttektar sérfræðinga á líklegum áhrifum á það lífríki sem fyrir er, áður en framkvæmdir af þessu tagi verði leyfðar.