Aðalfundur LV haldinn að Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007
Ályktanir samþykktar á fundinum
1) Um Veiðimálastofnun
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007, fagnar auknu fjárframlagi til Veiðimálastofnunar á fjárlögum og leggur áherslu á að svo verði áfram á komandi árum.
Fundurinn telur mjög mikilvægt að starfrækt sé öflug rannsóknar- og leiðbeiningarstofnun veiðimála.
2) Stjórnsýsla veiðimála
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007, leggur áherslu á að standa vörð um þá skilvirku stjórnsýslu veiðimála, sem mótuð hefur verið með embætti Veiðimálastjóra um áratuga skeið.
Þegar stjórnsýsla veiðimála var flutt til Landbúnaðarstofnunar voru gefin fyrirheit um að starfrækt yrði sjálfstætt veiðimálasvið innan stofnunarinnar. Nú er ljóst af skipuriti að slíkt gengur ekki eftir.
Aðalfundur LV leggur áherslu á endurskoðun þessara mála með fyrrgreind markmið að leiðarljósi.
3) Um Fiskræktarsjóð
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007, skorar á stjórnvöld að standa vörð um Fiskræktarsjóð. Aðalfundurinn mótmælir harðlega hugmyndum um að fella niður gjaldskyldu af raforkusölu frá vatnsaflsvirkjunum. Fundurinn bendir á að sjóðurinn ver stórum hluta ráðstöfunarfjárins til rannsóknarverkefna sem snúa að vistkerfi vatnasviðs landsins. Það er eðlileg krafa að þeir sem fá með lögum heimild til nýtingar vatnsfalla til virkjunar, leggi eitthvað af mörkum til grunnrannsókna á vatnasviði.
4) Rannsóknir á sjávardvöl laxa
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007, beinir því til stjórnvalda að stuðla að áframhaldandi rannsóknum á sjávardvöl laxa. Hnignun stórlaxastofna kallar á frekari upplýsingar um mögulega orsakavalda. Þær rannsóknir sem fram hafa farið á sl. árum, með endurheimtum mælimerktra laxa úr sjó, hafa gefið tímamótaupplýsingar um far laxa sem dvelja 1 ár í sjó frá Suðvesturlandi. Brýnt er að hliðstæðar rannsóknir verði gerðar með sleppingum mælimerktra laxaseiða frá öðrum landshlutum. Ljóst er að þessar rannsóknir eru mjög kostnaðarsamar og verður ekki framhaldið án sérstaks stuðnings hins opinbera. Nýting laxastofna til stangveiði er mikilvæg og vaxandi atvinnugrein sem leggur fé til sameiginlegra sjóða landsmanna. Landssamband veiðifélaga skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til rannsókna á sjávardvöl laxa.
5) Verndun stórlaxastofnsins
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007, beinir þeim tilmælum til veiðifélaga að setja reglur til verndar stórlaxi í veiðiám þar sem því verður við komið. Ljóst er að stórlax á mjög undir högg að sækja. Fundurinn bendir á mikilvægi þess að sem flestum stórlöxum sé sleppt svo þeir nái að hrygna að hausti. Þá minnir fundurinn á mikilvægi stórlaxa í vorveiðinni og þar með þátt þeirra í verðmætasköpun á fyrstu vikum veiðitíma. Fundurinn brýnir fyrir veiðifélögum skyldu þeirra til að sporna gegn því að stórlaxinn hverfi úr íslenskum ám.
6) Sóttvarnir og eftirlit
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Egilsstöðum 8. – 9. júní 2007, leggur áherslu á að stjórnvöld viðhaldi öflugu eftirliti með sótthreinsun alls búnaðar veiðimanna sem til landsins koma.
Bent skal á að aðgengi veiðimanna að landinu hefur batnað verulega á undanförnum árum og aðkomuleiðum fjölgað. Þá vekur fundurinn athygli á innflutningi framandi lagardýra (skrautfiska) sem fólk er jafnvel farið að hafa í tjörnum við hýbýli sín. Óbætanlegt tjón getur hlotist af, ef dýr þessi berast í vatnakerfi landsins. Fundurinn brýnir fyrir veiðifélögum að vera á varðbergi gagnvart ósótthreinsuðum búnaði veiðimanna hvert á sínu svæði.