Ályktanir 2009

  • Post category:Ályktanir

Ályktanir samþykktar á aðalfundi LV 2009  

I

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní 2009, leggur áherslu á, að vegna þeirrar alheimskreppu sem nú gengur yfir, er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um þau verðmæti sem felast í íslenskum veiðiám og vötnum.

Þar sem þetta efnahagsástand virðist ætla að leika okkur Íslendinga verr en flestar, ef ekki allar aðrar þjóðir, er nokkuð ljóst að markaðstækifærin eru nú um stundir frekar erlendis en innanlands sem mun skapa dýrmætar gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. 

Veiðiréttareigendur og veiðileyfasalar  eru hvattir til þess að kynna sér margvíslega þjónustu í sölu veiðileyfa sem í boði eru m.a. á söluvefum á netinu.

Allsherjarnefnd.  Samþykkt samhljóða. 

II

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní 2009, leggur áherslu á að ekki sé slakað á sótthreinsun og eftirliti með búnaði þeirra veiðimanna sem koma til landsins til veiða á veiðisvæðum Íslands.

Allsherjarnefnd.  Samþykkt samhljóða.

III

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní 2009, tekur undir framkomna ábendingu þess efnis að kostnaður við arðskrármat geti reynst tekjulitlum félögum þungur fjárhagslegur baggi. Jafnframt er ljóst að slíkt mat, samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, hlýtur ávallt að vera nokkuð kostnaðarsamt. Fundurinn felur stjórn LV að kynna vel fyrir aðildarfélögum þær leiðir sem færar eru til að vinna arðskrár sínar heimafyrir án hefðbundinnar matsgerðar. Stjórn LV kanni einnig hvort og hvernig er hægt að koma til móts við minni veiðifélög við að greiða kostnað við matsgerð.

Allsherjarnefnd.  Samþykkt samhljóða.

IV

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní 2009, hvetur ríki og sveitarfélög  að standa vörð um þau verðmæti sem veiðihlunnindi í ám og vötnum skapa. Mikilvægt er að veiðum á flugvargi, mink og ref, verði sinnt af fullri alvöru og þær stundaðar af krafti þannig að lífríki landsins skaðist sem minnst af völdum þessara dýra.

Allsherjarnefnd.  Samþykkt samhljóða.

V

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní, varar við stórfelldum áformum um sjókvíaeldi á norskættuðum laxi í Dýrafirði.

Fundurinn átelur ákvörðun Skipulagsstofnunar um að eldið skuli undanþegið umhverfismati, þar sem um erlendan, innfluttan laxastofn er að ræða. Fundurinn felur stjórn LV að kæra fyrrgreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. 

Málefnanefnd.  Samþykkt samhljóða.

VI

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. -13. júní, lýsir áhyggjum sínum yfir því að stórlaxastofninn sé enn í sögulegu lágmarki. Verði þessari þróun ekki snúið við er hætta á að stórlax hverfi alfarið úr þeim ám þar sem honum er ekki hlíft við veiði. 

Fundurinn beinir þeim eindregnum tilmælum til veiðifélaga og leigutaka að sameinast um átak til að veiðimenn sleppi stórlaxi í ríkara mæli en gert hefur verið til þessa. 

LV hvetur veiðifélög til að setja fortakslausar reglur um sleppingar stórlaxa. 

Málefnanefnd. Samþykkt samhljóða.  

VII

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní 2009, leggur áherslu á að Veiðimálastofnun verði, með fjárveitingum, gert kleyft að vinna áfram að því verkefni að kortleggja far laxaseiða eftir að þau ganga til sjávar og uppeldisstöðvar þeirra. Könnunin þarf að ná til fleiri landshluta. 

Málefnanefnd.  Samþykkt samhljóða.

VIII

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12.- 13. júní 2009, hvetur stjórnvöld til að standa vörð um starfsemi Veiðimálastofnunar í ljósi mikilvægi rannsókna stofnunarinnar á laxfiskum.

Málefnanefnd.  Samþykkt samhljóða.

IX

Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12.- 13. júní 2009, hvetur veiðifélög til að beita sér fyrir fegrun umhverfis, til dæmis með því að hvetja félagsmenn til að fjarlægja plast, gamla bíla og ónýtar girðingar og annað það sem spillir umhverfi veiðivatna. 

Málefnanefnd.  Samþykkt samhljóða.