Laxveiðin er hafin og fyrstu veiðitölur sumarsins eru komnar á vef Landssambandsins. Nýr veiðitöluvefur er kominn í loftið þar sem tölfræði fyrri ára er aðgengileg. Hægt er að sjá vikuveiði á fjölmörgum veiðisvæðum aftur til ársins 2006 og lokatölur aftur til ársins 1974.
Þar sem vefurinn er nýr er hann enn í prófun og verður nýjum möguleikum bætt við á næstunni. Listi með öllum veiðisvæðum verður aðgengilegur fljótlega en nú er hægt að velja lokatölur fyrri ára í lista efst til hægri og er þar hægt að velja ýmis veiðisvæði og nálgast upplýsingar um þau.
Allar ábendingar um virkni vefsins eru vel þegnar og má senda þær á gunnar@angling.is.
Ólafur Ragnar Garðarsson, fjármálaverkfræðingur, vann vefinn fyrir Landssambandið og kunnum við honum bestu þakkir fyrir virkilega góða vinnu. Ólafur er stangveiðimönnum góðkunnur en hann er leiðsögumaður til margra ára og maðurinn á bakvið Angling iQ veiðiforritið.
Veiðinni er nokkuð misskipt þessa fyrstu daga en byrjunin í Urriðafossi í Þjórsá hefur verið frábær og talsvert betri en í fyrra. Í gærkvöldi voru komnir 160 laxar á land þar.
Norðurá í Borgarfirði byrjar nokkuð vel en þar eru komnir 67 laxar á land eftir níu daga veiði. Nokkurn tíma tók að ná fyrsta laxinum í Blöndu en hann kom á land í gær. Þá eru fimm laxar komnir á land í Þverá í Borgarfirði.
Allar tölur vikunnar má finna á nýjum veiðitöluvef Landssambands veiðifélaga á https://veiditolur.angling.is/