Nýtt frumvarp um lagareldi – Ályktun fundar Landssambands veiðifélaga

Fundur formanna og meðlima veiðifélaga, haldinn á vegum Landssambands veiðifélaga (LV) þann 16. janúar 2026 í Reykjavík, lýsir yfir miklum vonbrigðum með frumvarp atvinnuvegaráðherra til laga um lagareldi sem nú liggur fyrir í samráðsgátt. Vonir stóðu til þess að nýtt frumvarp yrði raunveruleg framför frá fyrri frumvörpum og myndi draga úr áhættu fyrir villta laxastofna og önnur vistkerfi landsins. Þær vonir hafa brostið. Frumvarpið festir að mati fundarins sjókvíaeldi í opnum kvíum á frjóum laxi í sessi til framtíðar, með alvarlegri áhættu fyrir villta stofna og veiðirétt.
Fundurinn áréttar að villtir laxastofnar, lífríki ferskvatns og verðmæti veiðiréttar eru hluti af náttúruauðlindum þjóðarinnar og grundvöllur atvinnu og byggða víða um land. Lagarammi um lagareldi verður að byggja á raunverulegri varúðarnálgun og vistkerfisnálgun í verki, ekki aðeins í orði.

Fundurinn ályktar eftirfarandi:

A. Stöðva stækkun opins sjókvíaeldis á frjóum laxi og setja skýra, tímasetta áætlun um tækniskipti.
LV krefst þess að ekki verði heimiluð frekari aukning á opnu sjókvíaeldi frjóum laxi og að sett verði skýr, tímasett áætlun um að sjókvíaeldi færist yfir í lokuð kerfi og noti ófrjóan fisk. Frumvarpið gerir slíkt einungis að reglugerðarheimild ráðherra, en ekki skýru lagaákvæði.
Sömuleiðis áréttarfundurinn að markmiðsgrein frumvarpsins verði aðlöguð þannig að hún samræmist því sem er að vinna í núverandi löggjöf um að hagsmunir eldisfyrirtækja megi ekki vera teknir fram yfir hagsmunum náttúrunnar.
B. Áhættumat erfðablöndunar verði bindandi – og megi aldrei verða framleiðsluaukandi bakdyraleið.
Fundurinn mótmælir því að áhættumat erfðablöndunar verði í reynd bitlaust ef ráðherra getur vikið frá ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og stillt heildarlaxamagni eftir öðrum þáttum. Áhættumatið ætti einungis að horfa til áhrifa laxeldis á villta laxastofna en ekki horfa til annarra þátta.
Fundurinn áréttar jafnframt að aðgerðir í ám skulu aldrei teljast mótvægisaðgerðir við áhættumat erfðablöndunar.
C. Friðunarsvæði verði lögfest og stækkuð; reglugerðarheimildir duga ekki.
Fundurinn krefst þess að núverandi friðunarsvæði, þar sem eldi á laxfiskum er óheimilt, verði skýrð og lögfest í lögum. Jafnframt verði friðunarsvæði stækkuð þannig að Eyjafjörður, Seyðisfjörður og Öxarfjörður bætist við þau svæði sem njóta slíkrar verndar.
D. Fella brott undanþáguheimildir sem opna á eldi innan friðunarsvæða.
Fundurinn hafnar sérstaklega 3. mgr. 8. gr. (heimild til lokaðs eða hálflokaðs eldis innan svæða sem ella sættu banni eða friðun). Áratuga rekstrarreynsla í íslenskum aðstæðum þyrfti að liggja fyrir sem sýndi með óyggjandi hætti að slík kerfi bæru enga áhættu fyrir villta laxastofna.
Fundurinn telur að slíka reynslu megi aðeins afla á svæðum þar sem sjókvíaeldi er þegar stundað – en ekki með því að opna friðuð og viðkvæm svæði fyrir nýrri starfsemi.
E. Laxahlutur: draga úr réttaróvissu um eignarrétt og koma í veg fyrir framleiðsluaukandi undanþágur.
Fundurinn krefst þess að löggjöfin festi ekki í sessi atvinnuréttindi sem skapa framtíðartregðu til nauðsynlegra breytinga. Fjölmörg álit og umsagnir hafa bent á að hugtakið laxahlutur beri mörg einkenni eignarréttinda, sem geti leitt til skaðabótaskyldu þegar íslensk stjórnvöld setja strangari takmarkanir eða banna eldi í opnum kvíum með frjóum laxi.
Fundurinn hafnar jafnframt ákvæðum sem geta gert ráðherra kleift að auka eldi frjós lax umfram heildarlaxamagn með því að heimila skertan eða engan laxahlut í lokuðum eða hálflokuðum kerfum (3. mgr. 39. gr.). Verði stjórnvöld að skapa hvata til tækniskipta skal það gert með skýru, gagnsæju kerfi þar sem aukin heimild til framleiðslu í öruggari kerfum er bundin við að rekstraraðilar leggi inn og felli niður samsvarandi heimildir til eldis í opnum kvíum.
F. Strok: viðurlög verði raunverulega letjandi.
Fundurinn telur að ákvæði um strok verði að hafa skýrar, fyrirsjáanlegar afleiðingar sem bíta á rekstrargrundvelli, m.a. með skerðingu framleiðsluheimilda og raunverulega letjandi sektum. Slík úrræði voru í ríkara mæli í fyrri frumvörpum en vantar að mati fundarins í nýja frumvarpið.
G. Vöktun og aðgerðir í ám: engin óheft aðgengi skylda án samráðs og skýrra skilyrða.
Fundurinn mótmælir almennri skyldu landeigenda til að veita aðgang að ám og veiðistöðum, bæði vegna vöktunar (7. gr.) og vegna aðgerða í kjölfar strokviðburða (45. gr.). Krafist er að framkvæmd verði byggð á skýru samráði, samningum, meðalhófi og skýrum reglum um ábyrgð, öryggi og kostnað.
H. Skaðabætur: létta sönnunarbyrði og tryggja raunhæfa bótaleið.
Fundurinn telur óásættanlegt að bótaleið byggi á því að „ef sannað þykir“, þar sem sönnunarbyrðin er í reynd gríðarlega þung fyrir veiðifélög, sérstaklega vegna langtímaáhrifa og ímyndartjóns. Krafist er endurskoðunar 118. gr. til að tryggja raunhæfa, skilvirka og sanngjarna bótaleið. Þar að auki, að tryggt verði að rekstrarleyfishöfum sé skylt að kaupa sér umhverfistryggingu vegna þess tjóns sem þeir valda.
I. Burðarþolsmat aflagt og fyrirtæki látin fara eftir lögum um varnir gegn mengun.
Burðarþolsmat í núverandi mynd er óþarfi. Gera ætti rekstrarleyfishöfum skylt að fara í einu og öllu eftir lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda nr. 33/2004, líkt og önnur atvinnustarfsemi þarf að undirgangast.
J. Samráð og jafnræði: halda uppi formlegum vettvangi hagsmunaaðila.
Fundurinn leggst gegn því að veikja samráðsvettvang hagsmunaaðila og telur að efla eigi slíkt samráð fremur en að leggja það niður.
K. Umhverfisgjöld og rannsóknir: tryggja fjármögnun aðgerða veiðifélaga og verndar.
Fundurinn telur óheppilegt að fjármögnun vegna vöktunar og rannsókna verði án skýrrar ráðstöfunar og krefst þess að veiðifélög og veiðiréttarhafar hafi raunhæfan aðgang að fjármagni til vöktunar, rannsókna og nauðsynlegra aðgerða til verndar villtum laxastofnum og lífríki ferskvatns.

97dc5d16 b116 4ece 9b50 ef98b509d3f7
C2701560 b0e7 467b 855c 65f0c86f78a6