Þegar þetta er skrifað er laxveiðin hafin í Urriðafossi í Þjórsá, Norðurá í Borgarfirði og Blöndu. Fyrsti nýrenningur sumarsins veiddist þó 25. maí síðastliðinn þegar veiðimenn voru við sjóbirtingsveiðar við Skugga í Hvítá í Borgarfirði.
Veiði í Norðurá hófst í gær, 4. júní, og komu 17 laxar á land. Verður það að teljast ansi öflug byrjun í mjög krefjandi aðstæðum en kuldi og mikið rok voru í Borgarfirðinum í gær.
Urriðafoss fer vel af stað og þar voru komnir 33 laxar á land í gærkvöldi.
Veiði hófst í Blöndu í morgun og klukkan 10:30 höfðu veiðimenn ekki náð laxi enda aðstæður mjög krefjandi – norðangarri og tveggja stiga hiti. Áin er nokkuð lituð enda allir lækir litaðir eftir snjókomu síðustu daga.
Eins og áður verða veiðitölur birtar á vef Landssambands veiðifélaga á fimmtudögum í allt sumar og miðað er við stöðu í lok dags á miðvikudögum.
Veiðitölurnar eru aðgengilegar á veiðitöluvefnum með því að smella hér og einnig er hnappur á vef Landssambandsins. Nú er hægt að skoða veiði eftir landshlutum og einnig hægt að sjá sérstaka lista eftir því hvort veiði byggir á gönguseiðasleppingum eða ekki.
