Laxveiðin fer vel af stað í þeim ám sem þegar hafa opnað. Norðurá er komin í 47 laxa eftir mjög góða byrjun og er það fimm löxum meira en á sama tíma í fyrra.
Þverá í Borgarfirði var komin í 18 laxa í gær eftir tveggja daga veiði og þegar þetta er skrifað eru 22 laxar komnir á land. Veiðimenn hafa orðið varir við lax á öllum svæðum. Þessi opnun er ein af betri opnunum síðari ára í ánni og er hún t.d. talsvert betri en í fyrra þegar 10 laxar komu á land.
Rólegt er í Blöndu en þar komu tveir laxar í opnun. Þar hafa veiðimenn sett í fleiri laxa sem ekki hafa náðst á land.
Urriðafoss er kominn í 183 laxa sem verður að teljast alveg frábær byrjun. Þar voru komnir 117 laxar á sama tíma í fyrra sem þótti nokkuð gott.
Þá fékk veiðimaður sem var við bleikjuveiðar í Ásgarði í Sogi í gærmorgun 85 cm nýgenginn lax. Sogið er því komið á blað í laxveiðinni sem er ansi snemmt þar á bæ.
