Hér að neðan er að finna upplýsingar um stöðu mála vegna stroks eldislaxa sem hafa nú þegar fundist í Haukadalsá, Vatnsdalsá í Húnavatnssýslu, Helluá í Skagafirði og sést í nokkrum öðrum ám. Landssamband veiðifélaga (LV) mun halda áfram að upplýsa veiðifélög og leiðbeina með aðgerðir.
- Umfang
Nú þegar hafa 10 eldislaxar veiðst, þar af átta í Haukadalsá, einn í Vatnsdalsá í Hún og einn í Helluá í Skagafirði. Laxarnir hafa ekki verið greindir en flestir þeirra hafa mjög afgerandi eldiseinkenni. Við munum upplýsa ykkur þegar greiningar hafa verið framkvæmdar. Þá hafa laxar með eldiseinkenni sést í Laxá í Dölum, Laxá á Skógarströnd og Vatnsdalsá í Vatnsfirði. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum reyndist stór hluti þeirra laxa sem starfsmenn Fiskistofu töldu í upphafi vera eldislax í raun vera hnúðlax. Umfangið í Haukadalsá er því minna en talið var í upphafi en þó hafa nú þegar veiðst fleiri eldislaxar þar en árið 2023. LV mun fylgjast grannt með stöðunni og heldur úti skrá yfir veidda og séða eldislaxa. Veiðifélög eru beðin um að tilkynna LV um allan grun um ferðir eldislaxa til Gunnars, framkvæmdastjóra LV á gunnar@angling.is.
- Strokatburðir
Nokkrir atburðir hjá eldisfyrirtækjunum Arnarlaxi og Arctic Sea Farm, þar sem göt hafa fundist á kvíum, koma til greina sem útskýring á uppruna fiskanna. Uppruni mun líklega skýrast á næstu dögum. LV hefur þegar þrýst á MAST um að veita allar upplýsingar um mögulega atburði sem geta skýrt uppruna laxana.
- Aðgerðir og leiðbeiningar til veiðifélaga
Nú þegar hafa einstök veiðifélög gripið til aðgerða til að hefta för eldislaxa upp sínar ár. LV fagnar slíku frumkvæði og hvetur öll veiðifélög á Vestur- og Norðvesturlandi til að funda og gera viðbúnaðar- og aðgerðaráætlun. Þá brýnir LV fyrir veiðifélögum að upplýsa Fiskistofu um allar aðgerðir og eins að halda nákvæma skrá yfir allan kostnað. Óvíst er hvort aðgerðir sem ekki hafa verið samþykktar af Fiskistofu fyrirfram fáist greiddar. Þó svo veiðifélög hyggist ekki bíða eftir samþykki Fiskistofu, í tilvikum þar sem engan tíma má missa, þá hvetjum við ykkur til að upplýsa Fiskistofu um aðgerðir og halda nákvæma skrá yfir kostnað. Slíkt kann að koma að notum á síðari stigum við innheimtu eða dómsmál. LV ítrekar þó að skv. lögum um lax- og silungsveiði þarf samþykki Fiskistofu til aðgerða við veiðivatn en telur þó að stjórnvöld muni sýna veiðifélögum skilning í því neyðarástandi sem hefur skapast. Í þessu samhengi lýsir LV yfir stuðningi við Veiðifélag Miðfirðinga og þær aðgerðir sem félagið fór í til varnar göngu eldislaxa upp í ána.
Til hagræðingar má einnig senda afrit af tölvupóstum á framkvæmdastjóra LV á gunnar@angling.is.
Í stuttu máli:
- Senda tillögur að öllum aðgerðum til Fiskistofu á Guðna Magnús á Gudni.M.Eiriksson@fiskistofa.is.
- Senda allar upplýsingar um aðgerðir á Fiskistofu, einnig í tilvikum þar sem samþykkis stofnunarinnar er ekki óskað.
- Taka myndir og myndbönd af öllum aðgerðum.
- Halda utan um kostnað við allar aðgerðir.
- Köfun
Á morgun, 19. ágúst, koma kafarar til landsins til að kafa í Haukadalsá. Þeir munu líklega hafa tíma til að fara í fleiri ár á svæðinu. Hafi einhver veiðifélög áhuga á að fá kafara í sína á eru þau beðin um að hafa samband við framkvæmdastjóra LV á gunnar@angling.is.
- Viðbúnaðaráætlun
Eins og fram hefur komið setti Veiðifélag Hrútafjarðarár sér viðbúnaðaráætlun eftir miklar göngur eldislaxa í ánna árið 2023. Veiðifélagið hefur deilt reynslu sinni með LV og hér að neðan má sjá viðbúnaðaráætlun þeirra ásamt nokkrum punktum varðandi aðgerðir. Kann LV veiðifélaginu bestu þakkir fyrir þetta framlag.
Viðbúnaðaráætlun í Hrútafjarðará:
Viðbúnaðarstig 1 – Ef eldislax veiðist í veiðiá á Vestur- eða Norðurlandi:
- Veiðivörður eykur viðveru við ánna og ræðir oftar við veiðimenn.
- Auka tíðni á sjónskoðunum og skyggna hylji árinnar. Virkja veiðimenn til sjónskoðunar.
- Útskýra fyrir veiðimönnum helstu einkenni eldislaxa áður en veiði hefst.
- Brýna fyrir öllum veiðimönnum að drepa eldislax ef hann veiðist og koma honum til veiðivarðar.
Viðbúnaðarstig 2 – Ef grunur er um eldislax í Hrútafjarðará:
- Veiða viðkomandi stað með stöng og síðan netum.
- Fá kafara til að staðfesta grun.
- Auka enn frekar tíðni á sjónskoðun og skyggna.
Viðbúnaðarstig 3 – Ef eldislax veiðist eða er staðfestur í Hrútafjarðará:
- Veiða viðkomandi staði með netum, sérstaklega ef vatn er lítið.
- Auka enn frekar tíðni á sjónskoðun og skyggna.
- Óska eftir köfurum með skutulbyssur frá Fiskistofu strax.
Punktar eftir haustið 2023:
Helsti lærdómur veiðifélagsins frá 2023 var að grípa hefði átt mun fyrr inn í og fara með netin strax á svæðið eða fá kafara strax. Mikilvægar vikur í september fóru forgörðum. Í október var mjög erfitt að standa í aðgerðum sökum vatnsbúskapar, áin mórauð oft á tíðum og kuldi og myrkur takmörkuðu alla aðgerðir sem þó stóðu út október. Mjög miklvægt var að sinna aðgerðum jafnt og þétt þar til ísa lagði enda staðfestum við nýgöngu eldislaxa út allan október 2023.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um efni færslunnar hjá framkvæmdastjóra LV í tölvupósti á gunnar@angling.is eða síma 665-8865.
