Ályktanir 2015

  • Post category:Ályktanir

Ályktanir samþykktar á aðalfund LV á Breiðdalsvík 12. – 13. júní 2015.

I Fjárhagsnefnd. Fjárhagsáætlun 2015.

II Allsherjarnefnd

Lög um fiskeldi.
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, bendir á að Alþingi lagði fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við breytingar á lögum um fiskeldi sl. vor að heildarendurskoðun laganna fari fram innan 18 mánaða frá lögfestingu ákvæðanna. Fundurinn bendir á að langt er nú liðið á þennan tíma og ekkert bólar á nýju frumvarpi. Fundurinn leggur áherslu á að allir hagsmunaaðilar komi að þessu verki. Í nýjum lögum verði gerð rík krafa að í sjókvíaeldi verði eingöngu leyfilegt að vera með gelda stofna. Strokulax úr fiskeldi spillir ímynd stangveiða á Íslandi en hún byggir á óspilltri náttúru. Þá verði í nýjum lögum skylda fiskeldisfyrirtækja að kaupa sér tryggingar, sem bæti umhverfisspjöll sem starfssemin kann að valda og tryggt verði að virkt eftirlit sé með þessari starfssemi. Loks telur fundurinn að takmarka eigi erlent eignarhald í eldisfyrirtækjum hérlendis líkt og gert var í nýlegri löggjöf í Færeyjum.

Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði.
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, krefst þess að sjókvíaeldi laxa verði óheimilt í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði, með sama hætti og ýmsum öðrum svæðum sem lokað var með auglýsingu nr. 460/2004. III Málefnanefnd

Sameining Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar.
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, ítrekar nauðsyn þess að við sameiningu Veiðimálasstofnunar og Hafrannsóknarstofnunar skapast tækifæri til að gera átak í að afla enn meiri upplýsinga um sjávarvist laxa. Fundurinn hvetur sameinaða stofnun til að sinna þessum þætti. Það er mikilvægt nú þegar endurheimtur laxa sveiflast ár frá ári líkt og gerst hefur undanfarin fjögur ár. Þá er grundvallaratriði að sameinuð stofnun njóti framlags af fjárlögum svo að hún geti sinn lögbundnum verkefnum varðandi rannsóknir á laxfiskum í ám og vötnum.

Rannsóknir veiðifélaga í ám og vötnum
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, beinir því til stjórnar að gera samantekt á rannsóknum sem veiðifélög standa fyrir í ám og vötnum með það að markmiði að þær verði auknar. Einnig hvetur fundurinn veiðifélög til að efla rannsóknir á því sviði.

Námskeið um stangveiðileiðsögn
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, beinir til stjórnar að Landsamband veiðifélaga beiti sér fyrir að sett verði á stofn námskeið um stangveiðileiðsögn sambærilegt og fyrir hreindýraleiðsögumenn.

IV Umhverfisnefnd

Eftirlit með sjókvíaeldi.
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, leggur áherslur á að eftirlit verði aukið með sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi. Fundurinn furðar sig á því hversu seint og illa upplýsingar sem varða umhverfismál berast frá opinberum aðilum um þessa starfsemi. Skemmst er þess að minnast þegar fjöldi eldislaxa veiddist s.l. sumar, en af fjölda veiddra fiska má ráða að mun fleiri fiskar hafi sloppið en tilkynnt var um. Er líkt og þagnarmúr hafi verið slegin utan um starfsemina og upplýsingum haldið leyndum. Þá er athyglisvert í þessu sambandi að sláturtölur í fiskeldi eru ekki í nokkru samræmi við fjölda útsettra seiða. Slíkt vekur óhjákvæmilega spurningar um strokulaxa eða fiskadauða í kvíum yfir eldistímann.

Notkun „dróna.“

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, vekur athygli veiðifélaga á að svokallaðir „drónar“ eru nú að verða algengir á Íslandi. Engar reglur hafa verið settir um notkun þessara flýgilda. Fundurinn beinir því til veiðifélaga að settar verði reglur sem banna notkun „dróna“ við veiðár á veiðitíma til að tryggja frið við árnar.