ABOUT FIRO

Mönnum er skylt að hafa með sér félagsskap um veiði í hverju fiskihverfi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þessi félagsskapur kallast veiðifélög. Landssamband veiðifélaga er landssamtök allra veiðifélaga á Íslandi og starfar á grundvelli 5. mgr. 4. gr. sömu laga.

Landssamband veiðifélaga var stofnað árið 1958 og hlutverk þess er að gæta sameiginlegra hagsmuna veiðifélaga á Íslandi. Hlutverk þess er einnig að koma fram fyrir hönd þeirra gagnvart hinu opinbera, efla starfsemi veiðifélaga og auka samstarf þeirra, stuðla að bættri stjórn veiðimála og auka þekkingu á málefnum veiðifélaga.

STJÓRN OG FRAMKVÆMDASTJÓRI LV

Samkvæmt 9. gr. samþykkta Landssambands veiðifélaga skipa fimm menn stjórnina og skulu þeir kosnir á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er 3 ár, og skulu þeir ganga úr til skiptis, sitt árið hverjir tveir og formaður þriðja árið. Formaður er þannig kosinn sérstaklega, en hinir 4 skulu vera sinn úr hverjum landsfjórðungi svo og varamenn þeirra.

Formaður Landssambands veiðifélaga er Jón Helgi Björnsson, Laxamýri. Hann var fyrst kjörinn á aðalfundi Landssambandsins árið 2015 og endurkjörinn árið 2018. Næst verður kosið um formannssætið á aðalfundi árið 2021.

Úr Suðurlandsfjórðungi, frá Skeiðará að Gullbringusýslu, kemur stjórnarmaðurinn Ólafur Þór Þórarinsson. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Landssambandsins árið 2019. Næst verður kosið um hans sæti á aðalfundi árið 2022. Varamaður Ólafs er Oddur Guðni Bjarnason.

Úr Vesturlandsfjórðungi, frá Gullbringusýslu að Hrútafjarðará, kemur stjórnarmaðurinn Jón Egilsson, Sauðhúsum. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Landssambandsins árið 2014 og endurkjörinn 2017 og 2020. Varamaður Jóns er Ragnhildur Helga Jónsdóttir.

Úr Norðurlandsfjórðungi, frá og með Hrútafjarðará að Langanesi, kemur stjórnarmaðurinn Jón Benediktsson, Auðnum. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Landssambandsins árið 2013 og næst verður kosið um hans sæti á aðalfundi árið 2022. Varamaður Jóns er Rafn Benediktsson.

Úr Austurlandsfjórðungi, frá Langanesi að Skeiðará, kemur stjórnarmaðurinn Gunnlaugur Stefánsson, Heydölum. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Landssambandsins árið 2020. Varamaður Stefáns er Björn Ágúst Björnsson.

Framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga er Gunnar Örn Petersen.