Ályktanir 2013

  • Post category:Ályktanir

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, Hellu, Rangárþingi, 7. – 8. júní 2013

Ályktanir samþykktar á fundinum

Fjárhagsnefnd

I. Fjárhagsáætlun LV fyrir árið 2013  Samþykkt.

II. Bolholt 6

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013, veitir stjórn sambandsins heimild til þess að selja húseignina að Bolholti 6 ef 

viðunandi verð fæst, ásamt því að ráðstafa andvirði fasteignarinnar á sem hagkvæmastan hátt fyrir samtökin. 

Greinargerð:

Húseign LV að Bolholti 6 er 71,3 m2  skrifstofa á 5. hæð í skrifstofuhúsnæði sem leigt er út. Sami eigandi er að öllu skrifstofuhúsnæðinu á 5. og 6. hæð hússins, að undaskilinni skrifstofu LV. Húseigandi hefur leigt skrifstofu LV frá ársbyrjun 2004 og gildir núverandi samningur til ársloka 2016.

Húseigandi telur það bagalegt að hafa ekki umráð yfir húsnæðinu öllu og hefur sýnt áhuga á að kaupa hlut LV í húseigninni. Vandséð er að LV nýti núverandi eign, sem staðsett er í vinnuumhverfi sem er mjög ólíkt starfsemi LV. Þá eru einnig uppi hugmyndir að breyta húsnæðinu til annarra nota, t.d. undir hótel. 

Ástand á fasteignamarkaði hefur lagast og líkur eru á að hagstætt tilboð fáist, því þarf að liggja ljóst fyrir um heimild stjórnar LV til sölu, fáist viðunandi tilboð.  

Á aðalfundi LV 2004 var stjórn LV veitt heimild til að selja húsnæðið. Árið 2010 barst kauptilboð í húseignina sem var það lágt að því var hafnað. Á aðalfundi 2011 var samþykkt að veita stjórn LV heimild til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem fást verði fasteignin seld. Rétt þykir að endurnýja slíkt umboð um sölu fasteignarinnar og ráðstöfunar  á andvirði hennar, fallist aðalfundur LV 2013 á það.    

Allsherjarnefnd

III. Sóttvarnir

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní 

2013, lýsir áhyggjum vegna þeirrar hættu sem vatn sem flutt er inn með húsbílum ferðamanna getur skapað í ám og vötnum.   

Ákvæði vantar í lög um húsbíla sem ferðamenn flytja til landsins vegna þeirrar hættu sem stafað getur af vatnsgeymum og vatnsbirgðum sem með þeim kunna að verða flutt.

Íslenskt vistkerfi í ám og vötnum er algjörlega óvarið gegn framandi sníkjudýrum sem leynast kunna í innfluttu vatni með slíkum farartækjum.  

Þá leggur fundurinn áherslu á að virku eftirliti með innflutningi skrautfiska hverskonar og meðferð þeirra.  

Þarna er mikil hætta á ferðum eins og dæmin sanna þegar sníkjudýrið Gyrodactylus 

var flutt til Noregs með þeim afleiðingum, að nú eru þar yfir 40 laxveiðiár laxlausar af þeim sökum.  

Aðalfundurinn beinir því til opinberra aðila að herða reglur um framangreind atriði. Samþykkt.

IV. Lög um náttúruvernd

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní 

2013, lýsir andstöðu við að ákvæði vatnalaga um rétt almennings til að fara um vötn og til baða verði felld brott úr vatnalögum en lögfest sem ákvæði í nýjum náttúrverndarlögum. 

Fundurinn bendir á að ákvæði þetta, eins og það kemur fyrir í nýjum lögum um náttúruvernd sem taka eiga gildi næsta vor, raskar friðhelgi þeirra sem veiði stunda og kann að valda tjóni.  Samþykkt.

V. Ábyrgð félagsmanna

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013, felur stjórn Landssambandsins að vinna að því að lögfest verði ákvæði um takmarkaða ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum veiðifélaga.  Samþykkt.

Málefnanefnd

VII. Skipan ferðamála á Íslandi

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. – 8. júní

2013, varar við þeim hugmyndum sem fram komu í frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi um skipan ferðamála á síðasta kjörtímabili.  

Fundurinn telur allt of langt gengið varðandi kröfur til þeirra sem hyggjast selja ódýr veiðileyfi á jörðum sínum. Þannig þarf sá aðili sem hyggst selja veiðileyfi í vatn, að afla sér leyfis sem ferðaskipuleggjandi og undirgangast þær skyldur sem lögin kveða á um. Sem dæmi má taka það tilvik ef bóndi, eða eigandi vatns selur veiðileyfi í vatn, skal hann hafa til þess leyfi sem ferðaskipuleggjandi, ásamt  rekstrartryggingu og hafa einnig unnið öryggisáætlun á grundvelli fyrirmæla laganna. Gildir þá einu hversu mikil salan er.  Ljóst er að kosnaður við allt þetta getur orðið langt umfram þá upphæð sem slíkur rekstur getur staðið undir.

Landssamband veiðifélaga hefur undanfarin ár lagt í nokkra vinnu við að aðstoða og hvetja þá aðila sem eiga vannýtt fiskivötn til að hefja nýtingu þeirra með sölu veiðileyfa. Ljóst er að þessar hugmyndir hvetja ekki til nýsköpunar  á þessu sviði. 

Landssamband veiðifélaga vísar til þess að kannanir sýna að um 60.000 Íslendingar stunda stangveiði árlega einu sinni eða oftar. Mjög stór hluti þessara fjölmörgu veiðimanna á mikið undir því að komast í ódýra veiði í vötnum vítt um landið.      Samþykkt.

VIII. Veiðimálastofnun

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013, átelur harðlega að ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila þegar rannsóknir veiðimála voru teknar undan atvinnuvegaráðuneyti og settar undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.  

Aðalfundurinn krefst þess að rannsóknir og nýting á veiði í ám og vötnum eigi samleið með og heyri undir ráðuneyti atvinnuvegarins.      Samþykkt

Umhverfisnefnd

IX. Laxeldi í sjó

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013, lýsir áhyggjum vegna stórfelldra áforma um sjókvíaeldi hérlendis. 

Reynslan sýnir að um áhættusaman rekstur er að ræða, með tilheyrandi áhrifum á umhverfið. Nægir í því sambandi að vitna til reynslu Norðmanna og fleiri þjóða. Útilokað er að reka sjókvíaeldi án þess að eldisfiskur sleppi úr kvíum. Eldislax af norskum uppruna, sem sleppur úr kvíum, er hættulegur þeim villtu laxastofnum sem fyrir eru. Þá er ótalin sú mengun og sjúkdómar sem fylgja sjókvíaeldi. Laxeldi í sjó er nú hafið á sunnanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum.

Áform eru um verulegt laxeldi í sjó í Ísafjarðadjúpi. Skipulagsstofnun hefur samþykkt þau áform án kröfu um umhverfismat. Þá ákvörðun kærði Landssamband veiðifélaga, og einnig hafa landeigendur mótmælt því harðlega og krafist umhverfismats. Í Ísafjarðardjúpi eru gjöfular laxveiðiár, því er óásættanlegt að stórfellt laxeldi verði stundað í nágrenni þeirra. Svo umfangsmiklar framkvæmdir ættu undantekingarlaust að sæta umhverfismati.

Landssamband veiðifélaga gerir kröfu til að eftirlit með strokufiski verði hert og kannað hvort fiskur úr eldi af norskum uppruni komi fram í veiði í nærliggjandi ám þar sem eldið er stundað.  Eðlilegt er að eldisfyrirtæki séu gerð ábyrg fyrir þeim skaða sem þau kunna að valda í náttúrunni, þar með talið af völdum strokulaxa.

LV ítrekar andstöðu við sjókvíaeldi á norskum laxi vegna áhættu þess fyrir villta laxastofna.        Samþykkt.                                                                                                                                         

X. Útrýming villiminks

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013, lýsir áhyggjum vegna þess stórfellda tjóns sem villiminkur veldur á fuglalífi og fiski í ám og vötnum. Jafnframt skorar fundurinn á stjórnvöld að hefja nú þegar skipulegar aðgerðir, í samvinnu við sveitarfélög, til útrýmingar á villimink úr lífríki Ísland. 

Minnt skal á að nýverið lauk sérstöku átaksverkefni í tveim landshlutum til fækkunar á villimink. Þar kom í ljós að verkefnið skilaði árangri. 

Mikilvægt er að fylgja átaksverkefninu eftir með því að hefja útrýmingu villiminks á landsvísu. 

Útrýming villiminks er vel framkvæmanleg ef skipulega er að verki staðið og til þess veitt nægum fjármunum.      Samþykkt.

XI. Umgengni um vötn og veiðiár

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013, hvetur landeigendur til að beita sér fyrir góðri umgengni og snyrtimennsku við ár og vötn. Mikilvægt er að er að upplifun veiðimanna og gesta sé sem ánægjulegust, hreint umhverfi stuðlar að því.     Samþykkt.

XII. Kynning á laxveiði

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hellu í Rangárþingi dagana 7. –  8. júní

2013,  hvetur stjórn LV til að leita víðtæks samstarfs um átak til kynningar erlendis á Íslandi sem lax- og silungsveiði paradísar.    Samþykkt.