Landssamband veiðifélaga (LV) mótmælir harðlega ákvörðun atvinnuvegaráðherra um að kalla eftir burðarþolsmati Mjóafjarðar með það að markmiði að ryðja brautina fyrir sjókvíaeldi. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að liggja fyrir snemma á vormánuðum og í kjölfarið verði „ekkert því til fyrirstöðu“ að bjóða út eldissvæði.
Með ákvörðuninni er ráðherra að leyfa iðnaðinum í að taka enn einn fjörðinn undir þessa mengandi starfsemi.
Gat á kví í Reyðarfirði: þetta er ekki undantekning – þetta er kerfið
Á sama tíma og ráðherra talar um að taka nýjan fjörð undir sjókvíaeldi, liggur fyrir nýtt atvik sem sýnir hversu brothætt þetta fyrirkomulag er. Matvælastofnun greindi nýlega frá því að þrjú göt hafi fundist á netapoka í sjókví í Reyðarfirði og að ekki sé hægt að útiloka að fiskur hafi strokið. Mörgum er eflaust í fersku minni sleppingarnar sem voru á Vestfjörðum í sumar, sem leiddu til þess að eldislaxar byrjuðu að leita upp í ár víða um land.
LV vill því ítreka að opnar sjókvíar eru hannaðar þannig að slys, slit og mistök verða hluti af rekstrarmódelinu – og kostnaðurinn fellur á náttúruna.
Viðkvæmir laxar og sjóbleikjustofnar á Austfjörðum
Austfirskir laxastofnar eru víða smáir og viðkvæmir. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sjókvíaeldi sem stundað hefur verið á Austfjörðum hefur valdið talsverði erfðablöndun í villtum laxastofnum þar. Nú þegar hefur átt sér stað töluverð erfðablöndum sem er rakin til stroka eldislaxa sem aldrei voru tilkynnt til opinberra aðila. Smáir laxastofnar eru mun viðkvæmari fyrir erfðablöndun en stærri stofnar og því er fráleitt að auka umfang sjókvíaeldis meðan þetta er staðan.
Sjóbleikjan á undir högg að sækja á Austfjörðum sem og annars staðar. Að bæta við opnu laxeldi í sjókvíum eykur álagið, eykur áhættu og minnkar líkurnar á að sjóbleikjustofnar nái viðspyrnu.
Kröfur Landssambands veiðifélaga
Landssamband veiðifélaga krefst þess að stjórnvöld snúi af þessari braut:
- Sjókvíaeldi á frjóum laxi í opnum kvíum verði stöðvað og lagt niður sem allra fyrst.
- Engir nýir firðir – þar á meðal Mjóifjörður – verði teknir undir opið sjókvíaeldi.
- Ef fiskeldi í sjó á að eiga sér framtíð á Íslandi, þá liggur hún í lokuðum kvíum með ófrjóum laxi, þannig að áhætta á stroki, erfðablöndun og langvarandi vistkerfaáhrifum sé raunverulega lágmörkuð.
LV áréttar að sjóbleikjan og villtir laxastofnar þola ekki frekari tilraunastarfsemi. Að burðarþolsmeta næsta fjörð er ekki lausn – það er einfaldlega útvíkkun vandans.

