Álitsgerð um áhættumat Hafrannsóknastofnunar

Inngangur

Landsamband veiðifélaga hefur ráðið Arev tölfræði til þess að fara yfir þann þátt áhættumats Hafrannsóknastofnunar (1) sem lýtur að áhættumatslíkani fyrir ágengni eldislax í laxveiðiám á Íslandi.

Í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi er kveðið á um að við útgáfu rekstrarleyfis fiskeldisstöðva skuli tekið tillit til áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats auk rökstuddrar afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðva. Eitt af markmiðum laganna er að tryggja verndun villtra nytjastofna.

Hafrannsóknastofnun gerir tillögu til ráðherra um það magn sem skal heimila að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði á grundvelli áhættumats erfðablöndunar. Áhættumatið skal endurskoða ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti. Jafnframt vinnur Hafrannsóknastofnun burðarþolsmat fjarða og hafsvæða sem nota skal við útgáfu rekstrarleyfa sem Matvælastofnun veitir sjókvíeldisstöðvum.

Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar samkvæmt lögum nr. 71/2008. Samkvæmt ársskýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma 2022 var heildarframleiðsla lax í sjókvíeldi það ár 42.993 tonn. Gífurleg aukning hefur verið í fiskeldi frá árinu 2015. Gefin hafa verið leyfi fyrir eldi á samtals 103.000 tonnum í sjó, þar af fyrir um 90.000 tonna eldi á frjóum lax. Til samanburðar er mat Hafrannsóknastofnunar að villti íslenski laxastofninn sé um 110.000 fiskar. Árið 2022 veiddust 53.607 kg (43.184 laxar) í stangveiði og 6.865 kg (2.448 laxar) í net samkvæmt tölum frá Hafrannsóknastofnun.

Áhættumat var fyrst gefið út af Hafrannsóknastofnun árið 2017. Árið 2019 var lögum um fiskeldi breytt og gaf stofnunin út nýtt mat árið 2020. Drög að nýju áhættumati fyrir árið 2023 voru kynnt í samstarfsnefnd síðastliðinn september. Þau drög voru síðan dregin til baka vegna mikillar laxasleppingar hjá Arctic Fish í Patreksfirði og vinnur stofnunin að nýju mati.

Með lögum nr. 101/2019 um breytingar á lögum um fiskeldi kom inn nýtt ákvæði um skipan nefndar óvilhallra vísindamanna á sviði fiskifræða, stofnerfðafræða og/eða vistfræða til að rýna í aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilaði skýrslu til Alþingis árið 2020 um álit og tillögur nefndarinnar (Stefánsson, 2020) ásamt viðbrögðum Hafrannsóknastofnunar.

Árið 2022 óskaði matvælaráðuneytið eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á stjórnsýslu fiskeldis þar sem leitað var svara við þremur meginspurningum. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til Alþingis síðastliðinn janúar.

Álitsgerð þessi fjallar um áhættumatslíkön fyrir ágengni árin 2017, 2020 og drög 2023 sem kynnt voru í samráðsnefnd en á grunni matanna árin 2017 og 2020 er sjókvíeldi nú rekið.

Arev mun síðar fjalla um endurskoðað áhættumatslíkan vegna ársins 2023.

Hafrannsóknastofnun nýtur mikillar virðingar og trausts jafnt innan lands sem utan, ekki síst fyrir hve vel hefur tekist að stýra fiskistofnum við Ísland sem og deilistofnum með öðrum þjóðum.

Lýsing á áhættumatsferlinu

Áhættumat ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar (FEH) vegna sjókvíeldis byggist á tveimur megin þáttum. Í fyrsta lagi er kannað álag, þ.e. hve mörg þúsund tonn af lífmassa einstakir firðir bera, svokallað burðarþolsmat. Í öðru lagi er könnuð áhætta af blöndun stroklaxa úr fiskeldisstöðvum við innlenda fiskistofna.

Skilgreind hafa verið sérstök áhættumörk er varða burðarþol og ágengni. Ágengnismörkin miða við að magn af eldislaxi megi ekki fara yfir ákveðið hámark innan árs (4%) og að meðaltali (2%). Í þessari álitsgerð er einungis fjallað um áhættumatslíkan fyrir ágengni.

Með burðarþolsmati er þol fjarða eða afmarkaðra hafsvæða metið til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og uppfylli þannig umhverfismarkmið sem sett eru með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Rekstrarleyfi fiskeldisstöðva eru veitt á grundvelli áhættumats til 16 ára í senn.

FEH hefur svo hannað sérstakt áhættulíkan sem tekur inn gögn frá fiskeldi og ám sem notað er til að reikna hvort hætta sé af því að fjöldi eldislaxa fari yfir ágengnismörk í einstökum ám fyrir einstök ár og að meðaltali. Ný gögn eru tekin inn í líkanið á þriggja ára fresti en haldið er utan um gögn reglulega. Eðlilegt er að bera saman ráðleggingarferli fyrir botnssjávarsvið Hafrannsóknastofnunar (BSH) og FEH.

BSH ráðleggur ráðherra árlega hve mikið skuli veiða af einstökum stofnum á grunni stofnmatsleiðangra sem fara fram um vor og haust. Í flestum stofnum eru reiknuð svokölluð varúðarmörk (\(B_{lim}\)) sem eru þannig að ef stofninn fer undir þessi mörk má búast við því að verulega dragi úr nýliðun. Samkvæmt varúðarnálgun ber að forðast með yfirgnæfandi líkum (95%) að hrygningarstofn fari undir \(B_{lim}\). Þegar stofnstærð fer undir varúðarmörk leggur BSH jafnan til að engin veiði verði næsta fiskveiðiár.

Þessi aðferðafræði tryggir gagnsæi og að veiðiálag sé í samræmi við getu stofna til að viðhalda sér.

Regluverk ráðgjafar FEH er öðruvísi. Eins og áður segir eru þolmörk unnin fyrir hvern fjörð sem byggir á burðarþolsmati. Tölurnar úr burðarþolslíkani ásamt gögnum sem fengist hafa úr vöktun á laxveiðiám eru svo færðar inn í áhættumatslíkan FEH fyrir ágengni. Þar er kannað hvort fjöldi eldislaxa í ám fyrir einstök ár og fyrir meðaltöl til lengri tíma fari yfir ágengnismörk. Nokkur óvissa er um hvernig bregðast eigi við ef matið fer yfir mörkin líkt og gerðist síðsumars og í haust vegna sleppingar hjá Arctic Fish í Patreksfirði. Eftirfarandi kom fram á heimasíðu stofnunarinnar 28. september:

“Í ljósi nýlegra atburða, þar sem eldislaxar sluppu úr eldiskví og leita nú upp í ár þar sem fyrir eru villtir laxastofnar, hefur stofnunin ákveðið að þörf sé á að endurskoða áhættumat erfðablöndunar.

Í drögum að áhættumati erfðablöndunar vegna ársins 2023 sem kynnt hafði verið fyrir samráðsnefnid haustið 2023 var ekki gert ráð fyrir eins umfangsmiklu magni af kynþroska eldisfiski í ár landsins. Ljóst er að þær forsendur sem stofnunin hefur gengið út frá þarfnast endurskoðunar” (lagt fram í samráðsnefnd).

Við undirbúning Hafrannsóknastofnunar að nýju áhættumati erfðablöndunar skal stofnunin leita ráðgefandi álits samráðsnefndar um tillöguna. Skal stofnunin taka rökstudda afstöðu til álitsins og gera breytingar á tillögunni ef stofnunin telur ástæðu til. Tillagan er bindandi fyrir ráðherra sem staðfestir áhættumatið. Byggt á gildandi ráðgjöf eru svo gefin út leyfi til sjókvíeldis.

Áhættumat skal endurskoða svo oft sem þörf þykir en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Hafrannsóknastofnun gerði áhættumat árið 2017 og árið 2020 auk þess að vinna drög að nýju áhættumati árið 2023 sem eins og fyrr segir hefur verið frestað. Ef endurskoðun áhættumats leiðir til breyttrar ráðgjafar getur verið örðugt að grípa inn í með markvissum hætti líkt og BSH getur gert þar sem rekstrarleyfi eru gefin út til langs tíma. Í 24. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi er þó ákvæði sem segir hvernig grípa megi inn í:

“Sé þörf á að draga úr hámarkslífmassa í eldi skal Matvælastofnun þó að jafnaði ekki miða við lengri aðlögunartíma en sem nemur slátrun hverrar kynslóðar sem alin er í sjó á því svæði sem rekstrarleyfi nær til. Hver kynslóð skal miðast við móttöku hrogna í seiðastöð.”

Eldisferli hverrar kynslóðar er yfirleitt ríflega 2 ár og 3 ár ef tekið er tillit til hvíldar á svæðum. Langur tími getur því liðið frá því að fram kemur niðurstaða ágengnismats um að draga þurfi úr eldi og þar til nauðsynleg breyting er komin til framkvæmda.

Matsþættir áhættumatslíkans fyrir ágengni, samantekt

Unnt er að skipta ágengnismati Hafrannsóknastofnunar í nokkra matsþætti.

  • Ágengnismörk
  • Villtir laxar í ám
  • Eldislax sem sleppur
  • Endurkomur
  • Weibull dreifing
  • Eldislax í ám

Samantekt athugasemda

Við mat á ágengnismörkum er oft stuðst við erlendar hlutfallstölur. Flestar eiga þær sér einhverja stoð í ritrýndum fræðigreinum, en eru þó oftast staðfærðar. Mikið vantar upp á að sú staðfærsla sé í samræmi við góða tölfræðivenju, sbr. næsta kafla. Einnig er í flestum fræðigreinum verið að fjalla um áhrif svipaðra tegunda á hverja aðra, ólíkt því sem hér er.

Við mat á fjölda villtra fiska í ám er ekki tekið tillit til þess að þeim hefur verið að fækka í flestum ám. Notkun 10 ára meðaltals við mat á fjölda villts lax í ám veldur tölfræðilega marktæku ofmati. Í þessari áfangaskýrslu er lagt til að notað verði 5 ára meðaltal og eins að skoðað verði hvort betur fari á að nota slembiferli (t.d. hreyfingu Browns).

Við mat á fjölda fiska sem sleppa á hverju ári notar Hafrannsóknastofnun meðaltöl sleppinga frá 2017. Þessi aðferð er ófullnægjandi þar sem hún tekur ekki tillit til þess að alvarlegar sleppingar sem hafa verið tilkynntar virðast eiga sér stað á tveggja til þriggja ára fresti, eins og virðist einnig vera raunin annars staðar þar sem eldi er stundað. Því eru miklu fleiri fiskar í ám en meðaltalið í líkani Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir árin eftir alvarlega atburði.

Við sleppingu Arctic Fish í sumar gafst ágætis tækifæri til að meta hvert fullorðinn lax ferðast frá sleppistað. Í ljós kemur að Weibull-dreifing og tilheyrandi stikar sem Hafrannsóknastofnun notar til að meta áhættu fyrir einstakar ár er víðs fjarri því að meta ferðalag laxa. Flestar dreifingar sem máta vel eru nokkuð samhverfar um sleppistaðinn og virðast hafstraumar hafa lítil áhrif á dreifingu fullorðinna laxa um landið eftir sleppingu.

Við mat á fjölda eldisfiska í ám eru notaðir svipaðir veiðiálagsstuðlar og fyrir villtan lax og er vísað í mælingar Fiskistofu. Mjög mikið er til af gögnum um veiðiálag villtra laxa í skýrslum Hafrannsóknastofnunar (Hafrannóknastofnun, 2023) í þeim ám sem vöktun Hafrannsóknastofnunar á villtum laxi fer fram. Árleg vöktun fer fram í um 30% veiðiáa á Íslandi en hún er á ábyrgð veiðirétthafa.

Því er gjarnan haldið fram að eldislax taki síður agn en villtur lax. Hættulegast er að eldislax gangi seint og finnist því síður. Því gæti veiðiálag hans verið lægra en veiðiálag villts lax. Þetta skiptir miklu máli þegar fjöldi eldisfiska í ám er metinn í áhættumatslíkani Hafrannsóknastofnunar (Hafrannsóknastofnun, 2017;2020). Okkur er ekki kunnugt um að þetta hafi verið rannsakað sérstaklega.

Til að meta áhættuna á því að eldisfiskur fari yfir ágengnismörk í tiltekinni á eru notuð meðaltöl í mati Hafrannsóknastofnunar. Að mati Arev er þetta röng aðferð þar sem breytileiki er á fjölda fiska í ám og það er breytilegt hversu margir fiskar sleppa ár hvert. Meðaltalsaðferðin er ekki í samræmi við góða áhættumatsvenju og segir lítið til um raunverulega hættu á því hve oft og hve mikið er farið yfir áhættumörk.

Þetta veldur því að mati Arev að verulega er vanmetið hversu oft og hve mikið er farið yfir ágengnismörk í einstökum ám.

Ágengnismörk

Villti laxastofninn á Íslandi er skyldur stofnum á Norður-Atlantshafi og samkvæmt rannsóknum sem notast við örtungl myndar hann sérstakan stofn meðal Norður-Atlantshafs lax (Gilbey o.fl., 2018). Á Íslandi er síðan hægt að skipta laxastofninum í tvo megin hópa, einn sem finnst helst á Suðvesturlandi og annan sem er dreifðari en finnst helst á Norðurlandi. Þessir hópar virðast hafa myndast eftir að jöklar fóru að hopa við lok síðustu ísaldar (Olafsson o.fl., 2014). Laxar snúa venjulega aftur í sína heimaá til mökunar, en smávægilegur hluti þeirra flakkar í aðrar ár á mökunartíma og veldur það náttúrulegri erfðablöndun milli áa.

Strok úr laxeldiskvíum getur valdið kynblöndun við villtan lax og getur það haft áhrif á arfgerð villtra stofna. Stofnar sem notaðir eru í laxeldi á Íslandi eru af norskum uppruna og voru lengi vel erfðafræðilega einangraðir, en einhver blöndun við villta fiska hefur átt sér stað á síðari árum vegna kynbóta (Gjedrem o.fl., 1991; Gjedrem 2010; Glover o.fl., 2013).

Nýlegar rannsóknir á erfðablöndun villts lax og eldislax á Íslandi, þar sem notast er við fjölmargar samsætur (60.250 SNP-erfðamörk), hafa sýnt fram á að kynblöndun hefur átt sér stað og á sér enn stað, helst á Austfjörðum en einnig á Vesturlandi. Sumar ár, svo sem Breiðdalsá, virðast vera skipaðar blendingum að helmingi til eða jafnvel meira. Þessar rannsóknir taka þó aðeins mið af takmörkuðum fjölda áa og ljóst er að það þarf að rannsaka víðar. Ekki hefur enn verið tekið mið af þeim við gerð áhættumats (Guðmundsson o.fl., 2023).

Eldislax hefur ýmsa eiginleika sem draga úr lífslíkum hans í náttúrulegu umhverfi. Þess vegna getur erfðablöndun haft skaðleg áhrif á villta stofna. Umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á erfðablöndun eldislax við náttúrulegan lax m.a. í Noregi og Norður-Ameríku (Bradbury o.fl., 2020, 2022). Lagt hefur verið til ákveðið ásættanlegt hlutfall eldislax í náttúrulegum ám, þannig að erfðablöndun verði ekki veruleg. Vert er að nefna að lifun og mökunargeta eldislax í náttúrunni er lægri en hjá villtum lax og er almennt tekið mið af því við líkanagerð. Miðað við rannsóknir hefur verið áætlað að allt undir 4% hlutfalli eldislax í ám valdi óverulegri erfðablöndun við innfædda stofna (Glover o.fl., 2013; Taranger o.fl., 2015; Castellani o.fl., 2018; Bradbury o.fl., 2022).

Villtir laxar í ám

Miklu máli skiptir að vinnubrögð séu vönduð þegar meta skal fjölda villtra laxa í ám. Mat Hafrannsóknastofnunar á fjölda í hverri á er fengið með því að taka meðaltalsveiði í viðkomandi á síðastliðin 10 ár og margfalda hana með tveimur.

Þetta er ónákvæmt. Fyrst er þar til að taka að veiðin hefur dregist saman undanfarin ár. Arev bar saman veiðina síðastliðin 5 ár og síðastliðin 10 ár. Notað var t-próf á meðaltöl þessara ára og kom í ljós að marktækur munur er á þeim í nánast öllum ám (sjá viðauka 2). Fimm ára meðaltalið er mun betra mat á fjölda veiddra fiska. Í áhættumötum 2020 og 2023 er gert ráð fyrir því að heildarfjöldi laxa sé 109.515 sem er nokkurn veginn í samræmi við 10 ára meðaltal áranna 2011-2020. Flestir virðast sammála um að á árinu 2023 hafi verið ríflega 80.000 laxar í íslenskum ám.

Í mörgum ám er til mat á veiðiálagi og er það oft talsvert hærra en Hafrannsóknastofnun miðar við, en stofnunin gerir ráð fyrir 50% veiðiálagi í öllum ám í líkani sínu. Sú aðferð sem notuð er leiðir víða til umtalsverðs ofmats á stærð náttúrulegra stofna. Þetta má sýna með einföldu dæmi: Í á þar sem 1000 laxar veiðast leiðir veiðiálagið 0,5 til þess að áætlað magn laxa í ánni sé 2000. Sé miðað við veiðiálagið 0,8 eins og víða er raunin fæst matið 1250 laxar. Sumar ár eru með meira en 100% veiðiálag.

Þessu til viðbótar hefur verið bent á að líkan Hafrannsóknastofnunar tekur ekki tillit til breytileika milli ára (Stefánsson o.fl., 2020) en miklar árlegar breytingar eru á fjölda fiska sem ganga í hverja á eins og sjá má í töflu 2. Í viðauka 2 er lögð til einföld aðferð til að meta breytileika á þessu sviði. Fyrst var reynt að líkja eftir breytileikanum með Poisson-dreifingu en fljótlega varð ljóst að sú dreifing dugði ekki til. Þá var reynt að líkja eftir breytileikanum með normaldreifingu eins og sýnt er í viðaukanum.

Eldislax sem sleppur

Mynd 1 sýnir tilkynntar sleppingar frá 2017. Eins og sjá má var tilkynnt um yfir 27.000 laxasleppingar árið 2018 og yfir 82.000 á árinu 2021. Árið 2023 var tilkynnt um 3.500 laxasleppingar. Síðastnefnda málið var mjög alvarlegt þar sem þá sluppu kynþroska laxar sem skiluðu sér til að taka þátt í klaki í veiðiám í haust. Veiðifélög náðu að hreinsa tæplega 500 eldislaxa úr ám, m.a. með aðstoð erlendra kafara. Miðað við 50% veiðiálag gætu engu að síður um 1.000 laxar hafa skilað sér í árnar (af þeim 3.500 sem tilkynnt var um að hafi sloppið).

Mynd 1 sýnir skráðar laxasleppingar hjá Hafrannsóknastofnun árið 2017. Á þessum tíma hafa um 200.000 tonn verið framleidd. Samkvæmt Hafrannsóknastofnun hafa skráðar sleppingar verið 113.000. Að mati erlendra fræðimanna sleppa 2-4 sinnum fleiri en tilkynnt er um. Einkanlega eru sleppingar minni fiska ekki skráðar. Það sem vekur athygli við þessa mynd er að stærri laxasleppingar virðast vera á tveggja til þriggja ára fresti. Því er óheppilegt að reikna með því að sleppingar séu jafnstórar ár hvert og í réttu hlutfalli við framleiðslu líkt og líkan Hafrannsóknastofnunar gerir. Líkanið nær ekki að fanga breytileikann í gögnunum. Í viðauka 3 er bent á hvernig hermilíkan getur fangað þennan breytileika.

Þar sést einnig að hætt er við því að þótt meðaltal sleppinga sé ekki meira en svo að hlutfall fari ekki yfir 2% er nokkuð algengt að sleppingar fari töluvert yfir 4%. Þegar verið er að kanna hvort þetta hefur áhrif á genasamsetningu villtra stofna verður því að taka tillit til þess að í mörgum ám er ekki ólíklegt að í 15-20% tilvika geti hlutfall eldislax farið töluvert yfir 4%. Taka þarf tillit til breytileika þegar áhrif erfðablöndunar eru metin.

Mynd 2 sýnir hversu mikið af laxi sem sleppt var hefur fundist í ám. Athygli vekur að því meira sem framleiðslumagnið er því meira virðist skila sér í ár. Flestar slysasleppingar virðast vera vegna mistaka af mannavöldum eða við almennan rekstur.

Endurkomur

Í áhættumati Hafrannsóknastofnunar 2020 segir: “Við endurmat á stuðlum fyrir snemmstrok var notast við greiningu á umfangsmiklum sleppitilraunum í Noregi. Hafrannsóknastofnun Noregs stóð fyrir röð af skipulögðum sleppingum á eldislaxi úr sjókvíum á árunum 2005-2008. Sérstaklega merktum gönguseiðum (post-smolts) og fullvöxnum Atlantshafslöxum var sleppt frá mismunandi stöðum á mismunandi árstímum (Skilbrei o.fl., 2015). Gönguseiði, sem sluppu á fyrsta sumri, gengu tiltölulega hratt út á haf. Lítið brot gekk til baka til hrygningar og var endurveitt eftir 1-3 ár í sjó. Í þessari skýrslu höfum við tekið gögn úr þessari rannsókn til frekari skoðunar. Sá laxafjöldi sem veiddist í ám eftir 1-3 ár minnkaði eftir því sem meðalstærð við sleppingu jókst (50-1900 g.). Gert er ráð fyrir að veiðihlutfall hafi verið 100%, þ.e. að allir laxar sem komu til baka hafi verið veiddir. Heildarfjöldi gönguseiða (post-smolts) sleppt í þessum tilraunum voru 61.344 laxar.”

Fyrst ber að geta þess að rannsókn Skilbrei og fleiri er samantekt á mörgum öðrum rannsóknum og sleppitilraunum á árunum 2005 - 2014. Markmiðið með rannsókninni var fyrst og fremst að komast að því hve stór hluti af sleppingum er tilkynntur á hverju ári. Kerfisbundnum sleppingum á merktum fiskum var beitt til að meta hve margir merktir fiskar fyndust í ám og sjó í kjölfar þeirra. Með hermilíkani sem notaði einnig fjölda ómerktra laxa sem fundust á sama tímabili var lagt mat á hve margir laxar hefðu í raun sloppið árlega úr kvíeldi í Noregi. Var það mat Skilbrei að 2-4 sinnum fleiri fiskar hefðu sloppið en yfirvöldum var tilkynnt um. Verkefni þessarar rannsóknar var þess vegna ekki að meta endurkomur sem slíkar þótt vitaskuld leynist gagnlegar upplýsingar um þær í samantekt. Þetta skiptir máli í því sem fer hér að neðan, en Hafrannsóknastofnun velur tiltekin gögn úr rannsókninni til að skilgreina endurheimtuhlutföll fyrir Ísland.

Við túlkun Hafrannsóknastofnunar á vönduðum athugunum Skilbrei er ýmislegt að athuga og verður hér drepið á því helsta.

Endurkomur sem ekki voru tilkynntar

Í áhættumatinu hér að framan segir: “Gert er ráð fyrir að veiðihlutfall hafi verið 100%, þ.e. að allir laxar sem komu til baka hafi verið veiddir”. Í grein Skilbrei kemur fram að hann telur að ekki hafi fundist allir þeir laxar sem merktir voru og sleppt var. Til að lýsa þessu notar hann eftirfarandi formúlu:

(1 -\(ρ^{týnt merki}\)) (1-\(ρ^{ekki tilkynnt}\)) \(= (1-0,1)(1-0,33) = 0,60\).

Í töflu 8 á bls. 8 í (Jóhannsson o.fl., 2020) var reiknað vegið meðaltal endurkoma gönguseiða upp að 120 g og á bilinu 120 - 140 g. Hins vegar gleymdist að taka með þann lax sem veiðimenn veiddu en tilkynntu ekki um, sbr. formúluna að framan, sem myndi hækka meðaltölin um 70%. Hafrannsóknastofnun virðist ekki hafa tekið tillit til þessa í útreikningum sínum.

Stærðarflokkun

Hafrannsóknastofnun flokkar lax með öðrum hætti en Skilbrei. Skilbrei miðar við fjóra flokka, þar af þrjá sem skipta máli í sambandi við strok en þeir eru gönguseiði (<450 g), stór gönguseiði (<900g), og fullorðinn lax (>900 g).

Í rannsókn Skilbrei kom í ljós að hegðun stórra gönguseiða og fullorðins lax er mjög svipuð þegar kemur að endurkomum. Gönguseiði sýna gjörólíka hegðun og er markverður munur á hegðun þeirra annars vegar og stórra gönguseiða og fullorðins lax hins vegar.

Mælingar Skilbrei á hegðun fullorðins lax og gönguseiða gefur mikilvægar vísbendingar um alvarleika sleppingar Arctic Fish í Kvígindisdal sumarið 2023. Um 18% endurheimtur (þar sem ekki hefur verið tekið tillit til veiði á merktum laxi sem ekki var tilkynnt um) voru af stóra laxinum sem sleppt var í rannsókn Skilbrei og um 90% náðist innan tveggja mánaða, þar af stór hluti í sjó, en Norðmenn leyfa veiðar í sjó ólíkt Íslendingum. Tæplega 1% rataði í laxveiðiár. Munurinn er þó sá að lax sem sleppt var í rannsókn Skilbrei var ekki kynþroska og rataði síður í ár eða var tekinn áður en hann komst í árnar. Úr sleppingu Arctic Fish í Kvígindisdal í sumar er reiknað með að ríflega 25% hafi skilað sér í ár sem er í ágætu samræmi við endurheimtur í sjó og ám í rannsókn Skilbreis.

Tímabil

Sleppingar í ofangreindum þremur flokkum fóru fram á tímabilinu maí til október. Sleppingin hjá Arnarlaxi á árinu 2018 (sbr. mynd 3) var í febrúar og fellur því utan hættutímabils. Eins og fram kemur í rannsókn Skilbreis, þá eru nánast engar endurheimtur þegar sleppt er utan hættutímabils. Því er ekki unnt að draga almennar ályktanir varðandi sleppingar á hættutímabilum frá þessari sleppingu.

Fjöldi flokka

Í töflu í viðauka 4 (Skilbrei og fleiri, 2015) má sjá yfirlit yfir flokka Skilbrei. Þarna má sjá að fjöldi fullorðinna er 8.023, stórra gönguseiða 5.529, og gönguseiða 64.172.

Í áhættumati Hafrannsóknastofnunar er unnið frekar með gögn Skilbrei og dregnar af þeim ýmsar ályktanir um endurkomu. Úrvinnsla Hafrannsóknastofnunar sem fjallað er um hér að framan byggir á gögnum um 61.344 fiska. Þessi tala passar ekki við þá flokkun sem Skilbrei notar. Gögnin sem eru notuð í áhættumatslíkan Hafrannsóknastofnunar eru þar með valið úrtak úr gögnum Skilbrei sem er ekki í samræmi við góða tölfræðivenju, þar sem dreifing þeirra verður við þetta önnur en sú sem notuð er í grein Skilbrei.

Sjór, ár og haf

Í áhættumati Hafrannsóknastofnunar kemur einnig fram að einungis eru skoðuð gögn er lúta að endurkomum í ám en ekki í sjó, en Skilbrei leggur einmitt áherslu á að líta beri á gögnin heilstætt, þar sem talsverð netaveiði er stunduð í sjó í Noregi í atvinnuskyni og af sportveiðimönnum. Jafnframt er þar lax veiddur á stöng í sjó. Rangt er að velja einungis hluta gagnanna þar sem fiskur sem búið er að veiða í sjó mun að sjálfsögðu ekki ganga í ár.

Skilbrei bendir einnig á að miklu máli skiptir um mat á endurkomu hvar fiski er sleppt. Því nærri úthafinu sem fiskur sleppur því minni endurkoma verður. Ekki virðist tekið tillit til þessa í mati Hafrannsóknastofnunar.

Niðurstöður

Hafrannsóknastofnun notar gögn um sleppingar í rannsókn Skilbrei sem greint er frá hér að ofan til að draga ályktanir um samband veiði eldislaxa í ám og stærðar þeirra við strok (mynd 2.2 í tækniskýrslu ársins 2020 og mynd 7 í Jóhannsson 2023). Hafrannsóknastofnun lýsir þessu sambandi með veldisvísisfalli. Við mátun á því virðist hins vegar hafa verið notuð önnur stærðarflokkun en Skilbrei notar líkt og farið er yfir hér að framan. Jafnframt virðist hafa gleymst að taka tillit til merktra laxa sem ekki skiluðu sér. Loks virðast tímabil ekki túlkuð rétt sem og staðsetning.

Meðhöndlun á gögnum sem notuð eru í áhættumatslíkanið úr rannsókn Skilbrei er verulega áfátt eins og fram kemur að ofan. Ályktanir þær sem stofnunin dregur eru því í litlu samræmi við rannsókn Skilbreis og oft beinlínis rangar.

Slepping Arnarlax á stórum gönguseiðum og fullorðnum laxi við Haganes í ágúst 2021 (800-1100g ) var til umræðu á fundi okkar með fulltrúum Hafrannsóknastofnunar 8. desember. Þar kom fram það sjónarmið að draga mætti þá ályktun að endurkomur eftir sleppingar væru miklu sjaldgæfari á Íslandi en í Noregi fyrir svokallað snemmbúið strok.

Ekki er hægt að fallast á þetta. Samkvæmt niðurstöðum Skilbreis er einungis að vænta 0,2% endurkomu í sjó (0,16%) og ám (0,04%) hjá þessari stærð af eldislaxi. Með því að taka tillit til veiddra laxa sem ekki var tilkynnt um hækkar endurkoman í 0,3% sem væri sambærilegt við að 26 laxar endurheimtust (en ekki 58 eins og líkan Hafrannsóknastofnunar virðist gera ráð fyrir). Á fundinum var upplýst um að 28 fiskar hefðu fundist í íslenskum ám fyrstu 2 árin og er það í ágætu samræmi við rannsókn Skilbreis en ekki minna eins og höfundur áhættumatsins lýsti á fundinum. Flestir fundust þeir í nágrenni við Haganes svo sem vænta mátti (sjá mynd 7 í Jóhannsson, 2023).

Slepping Arnarlax í febrúar 2018 við Hringsdal var einnig til umræðu á fundinum og enn var því haldið fram að lítil endurkoma úr þeirri sleppingu sýndi að minna væri um endurkomur eftir sleppingar á Íslandi en í Noregi. Þessi slepping var í febrúar sem er utan hættutímabils, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Skilbreis (sjá viðauka 4 “out of season”) eru svo að segja engar endurkomur á því tímabili. Þessu til viðbótar var um að ræða stóra fiska (3,5 - 7,2 kg) og eru sáralitlar endurkomur eftir ársdvöl í sjó úr þeim flokki yfir höfuð. Loks liggja sjókvírnar við Hringsdal utarlega í firðinum en samkvæmt Skilbrei veldur það færri endurkomum. Úr þessari sleppingu var því ekki að vænta endurkoma, hvorki fljótlega eftir sleppingu þar sem hún var utan hættutímabils annars vegar og þess Hringsdalur liggur utarlega í firðinum eða eftir ársdvöl í sjó vegna hve stórir fiskarnir voru.

Með því að draga of miklar ályktanir af endurkomum úr þessum sleppingum, eins og fram kom á fundinum, er að mati Arev óvarfærið mat lagt á hættuna sem villtum laxastofnum stafar af sleppingum eldislax úr kvíum.

Á fundinum kom jafnframt fram það sjónarmið að óhætt væri að lækka áhættustuðla vegna endurkoma, en Arev sér ekki að rök standi til þess.

Weibull-dreifing

Áhættumat Hafrannsóknastofnunar notast við 4% stuðulinn, með meðaltal undir 2%. Þetta mat er byggt á Weibull-dreifingu sem áætlar landfræðilega dreifingu stroklaxa meðal áa og tekur til greina þætti eins og stofnfjölda villts lax í ám, stofnfjölda eldislax í kvíum, hámarks vegalengd sem strokfiskar ferðast að teknu tilliti til ráðandi hafstrauma, hlutfalls eldislax sem sleppur úr kvíum, fjölda strokfiska sem ganga í ár, og heimsækni strokfiska sem mögulega leita í ár nálægt þeirri kví sem þeir sluppu úr. Þar sem eldislaxar úr snemmbúnu (seiði) og síðbúnu (í kringum kynþroskaaldur) stroki hafa mismunandi eiginleika (Hindar o.fl., 2006) er nauðsynlegt að gera tvö líkön með mismunandi breytum (Castellani o.fl., 2018). Weibull fallið sjálft tekur tillit til hámarks vegalengdar sem stroklax ferðast og rúmfræði dreifingar yfir þá vegalengd. Þannig er hægt að meta hversu margir stroklaxar ættu að lenda í hverri á fyrir sig með tilliti til fjarlægðar frá kví. Weibull-dreifingar líkön eru notuð til að meta æskilegan fjölda eldislaxa í hverri kví, þannig að hlutfall stroklaxa í ám haldist undir 4% og fari að meðaltali ekki yfir 2% (Jóhannsson 2017, 2023).

Þessi líkön virðast í samræmi við samskonar áhættumöt sem gerð hafa verið erlendis, en þó ekki alfarið. Til dæmis virðist dreifing lax í ár og útreikningur á fjölda endurkoma vera gerður á annan hátt. Einnig getur verið varasamt að yfirfæra niðurstöður úr erlendum rannsóknum á íslenskar laxár. Við mátuðum dreifingu með nýlegum gögnum um hlutfall eldislax og villts lax í íslenskum laxám. Gögnin eru í miklu ósamræmi við áætlaða dreifingu eldislaxa í íslenskum ám eins og eftirfarandi Weibull-dreifing sýnir.

Á mynd 3 má sjá að áhættumat Hafrannsóknastofnunar náði illa utan um sleppiatburðinn hjá Arctic Fish við Kvígindisdal í sumar. Grænu súlurnar sýna mat Hafrannsóknastofnunar á hámarksáhættu á hlutfalli eldisfiska miðað við 106.500 framleidd tonn. Bláu súlurnar sýna hlutfallið miðað við þá sleppilaxa sem náðust í ám í sumar og er frá á vefslóðinni strokulax.is sem Landsamband veiðifélaga heldur úti, en sennilega hefur ekki nema hluti þeirra náðst. Í báðum tilvikum er miðað við mat Hafrannsóknastofnunar á fjölda villtra fiska í ám, en verulegar athugasemdir eru gerðar við það mat hér að neðan. Rétt er að geta þess að ekki eru allir laxarnir á strokulax.is úr sleppingunni í Kvígindisdal en nýlegar upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun benda þó til þess að yfir 97% þeirra stafi frá þeirri sleppingu (Hafrannsóknastofnun, 2023). Útreikningar verða uppfærðir þegar greiningarvinnu stofnunarinnar verður lokið, en ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á þeim.

Eftirfarandi eru nokkrar athugasemdir um hvernig hægt væri að bæta mat á erfðablöndun eldislaxa við íslenska stofna:

• Erfðafræði íslenskra laxastofna hefur þangað til nýlega ekki verið vel þekkt á grundvelli SNP-erfðamarka (einungis örtungla), þannig að nauðsynlegt er að reiða sig á staðla sem byggðir eru á erfðabreytileika milli norsks lax og eldislax, sem líklega er minni en breytileiki milli íslensks lax og eldislax.

• Ekki er tekið mið af breytileika í stærð einstakra strokatburða, heldur er notast við ákveðið strokhlutfall miðað við heildarumfang laxeldis byggt á meðaltali stroks 2017-2022.

• Hámarks vegalengd sem áætlað er að stærri stroklax ferðist virðist byggð á einni tilraun (sjá mynd 8 í Jóhannsson 2023) þar sem um frekar fáa laxa er að ræða og ekki er skýrt hversu vel Weibull-dreifingarfallið lýsir raunverulegri dreifingu. Þessir þættir geta haft veruleg áhrif á áætlaðan fjölda eldislaxa í hverri á. Gott væri að frekari upplýsingar um þessar breytur væru aðgengilegar.

• Óljóst er hvort hlutfallslegur fjöldi eldislaxa í íslenskum ám sé rétt metinn og verða áhrif þess skoðuð betur í hermiferlinu hér að neðan.

sumsquare_error aic bic kl_div ks_statistic ks_pvalue
gennorm 0.002896 1609.320676 1623.764305 inf 0.302415 2.067280e-74
dgamma 0.002999 1672.695783 1687.139412 inf 0.304045 3.150770e-75
dweibull 0.003433 1628.302742 1642.746370 inf 0.302335 2.266082e-74
rel_breitwigner 0.004525 1488.884123 1503.327752 inf 0.296166 2.532499e-71
laplace_asymmetric 0.004591 1422.738090 1437.181719 inf 0.286109 1.684361e-66
laplace 0.004593 1416.989660 1426.618746 inf 0.302415 2.067280e-74
hypsecant 0.004702 1408.154573 1417.783659 inf 0.256029 3.855198e-53
vonmises_line 0.004709 1383.409379 1397.853008 inf 0.259357 1.533426e-54
logistic 0.004713 1399.749292 1409.378378 inf 0.252884 7.791275e-52
gausshyper 0.004714 1352.898474 1381.785731 inf 0.285365 3.767854e-66

Við mátuðum ýmsar dreifingar við gögnin úr sleppingunni í Kvígindisdal eins og sjá má á mynd 4a. Einungis voru teknar með þær ár sem eru í áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Laxar sem ekki hefur verið unnt að rekja til tiltekins framleiðanda hafa verið færðir út. Margar dreifingar koma til greina. Við notumst við Kolmogorov-Smirnov t-próf til að meta hvort þessar dreifingar séu marktækar miðað við p-gildi 0.05. Allar þessar dreifingar eru marktækar miðað við þetta próf. Að auki passa þær allar ágætlega miðað við ferningssummu skekkjunnar. Einföld Weibull dreifing var gagnrýnd af (Stefánsson o.fl, 2020) þar sem hún útilokar að eldisfiskar sem sleppa komist ekki vestur fyrir Snæfellsnes. Í grein (Bradbury o.fl. 2019) kemur fram að notuð var samhverf dreifing í líkaninu. Þrátt fyrir þetta var enn verið að nota einfalda Weibull dreifingu í drögum að áhættumati Hafrannsóknastofnunar (lagt fram í samráðsnefnd).

Hér að neðan höfum við valið að nota tvöföldu Weibull dreifinguna (dwebull). Kvörðunarstikar hennar eru 148 km til vesturs og 139 km til austurs. Formstikinn er 0,3 sem er í samræmi við að dreifingin hefur mjög há gildi í ám nálægt sleppistað.

(0.23955841780448922, 148.00000000000003, 201.10098504325228)

Á mynd 4b má sjá tvöföldu Weibull dreifinguna sem sýnir hvernig lax sem sleppt var í Patreksfirði við Kvígindsdal dreifðist um landið. Rétt er að minna á að fjöldi eldislaxa sem fannst í hverri á ræðst að nokkru leiti af aðstæðum og hve mikil vinna var lögð í að leita uppi eldislaxa á hverjum stað. Raunveruleg dreifing getur því verið nokkuð önnur. Eins ber að taka tillit til bæði mismunandi stærðar eldislaxa þegar þeir sleppa og endurkomuhegðun þeirra, en hegðunin getur verið mjög mismunandi. Þrátt fyrir þetta gefur sleppingin nokkuð góða mynd af því hvernig ætla má að stærri eldislax dreifist frá sleppistað.

Mat á hlutfalli eldislax í ám

Arev hefur sett fram einfalt hermilíkan til að meta hlutfall eldislax í ám, sbr. viðauka 3. Þess utan er tillit tekið til breytileika. Hafrannsóknastofnun hefur ekki hannað slíkt líkan en sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar færa inn í samskonar líkön fyrir aðra fiskistofna. Mynd 5 sýnir hugsanlegt hlutfall eldislax í Blöndu og Selá. Þrátt fyrir að meðaltalið sé innan við 3%, eru í fleiri en 20% tilvika fleiri en 4% laxanna í Blöndu eldislaxar (sjá forsendur í viðauka 3).

Mynd 5 sýnir m.a. hversu hlutfallslega oft má eiga von á því að hlufall eldislax fari yfir 4% í Blöndu og Selá. Rauðu súlurnar sýna t.d. að yfir 100 ára tímabil fer hlutfallið u.þ.b. 20 sinnum yfir 4% í Blöndu.

Með því að nota líkön af þessari gerð væri unnt að finna hvert hámarksframleiðslumagn mætti vera án þess að stofnum í viðkomandi á væri ógnað. Í dag er miðað við að á einstökum árum fari hlutfallið ekki yfir 4% ágengnismarkið, en rauðu súlurnar sýna að það geti gerst nokkuð oft.

Með þessu hefur verið sýnt að með því að bæta breytileika inn í núverandi líkan og nota 5 ára meðaltöl til að meta stofnstærð er sýnt að hlutfall eldislax getur farið yfir 4%.

Í viðauka 6 eru samskonar myndir sýndar fyrir nokkrar valdar laxveiðiár, en þar er byggt á tvöfaldri Weibull dreifingu og stuðlum sem við teljum sennilegri en stuðlar Hafrannsóknastofnunar.

Viðaukar

Viðauki 1: Breytilegt magn villtra fiska í ám

[1] "|Nafn vatnsfalls       | 2018| 2019| 2020| 2021| 2022| 2023|poisson_series               |normal_series                |"
[2] "|:---------------------|----:|----:|----:|----:|----:|----:|:----------------------------|:----------------------------|"
[3] "|Miðfjarðará           | 2725| 1608| 1725| 1781| 1522| 1334|1596, 1590, 1630, 1576, 1566 |1893, 1753, 1403, 1547, 1625 |"
[4] "|Blanda                |  905|  630|  470|  414|  577|  359|455, 498, 469, 500, 469      |368, 313, 533, 535, 579      |"
[5] "|Laxá á Ásum           |  689|  804|  676|  600|  820|  660|675, 703, 781, 625, 725      |727, 753, 734, 842, 718      |"
[6] "|Víðidalsá og Fitjá    |  589|  446|  546|  737|  787|  645|628, 619, 667, 634, 596      |548, 476, 587, 707, 641      |"
[7] "|Vatnsdalsá og Giljá   |  557|  487|  419|  436|  415|  421|451, 413, 465, 446, 415      |441, 385, 436, 436, 340      |"

Í töflunni má sjá veiðitölur áranna 2012 - 2023.

“poisson_series”-dálkurinn sýnir hvernig Poisson-dreifing myndi herma eftir fjölda fiska byggt á gögnum síðastliðinna 5 ára til næstu 5 ára. Miðað við tölurnar í fyrri dálkinum má glögglega sjá að frávikið er ekki nægilegt og að Poisson-dreifingin lýsir röðinni ekki nægjanlega vel, það er einfaldlega ekki nægur breytileiki.

“normal_series” dálkurinn sýnir hvernig normal dreifing myndi herma eftir dreifingu fjölda fiska í ám byggt á gögnum síðastliðinna 5 ára til næstu 5 ára. Normaldreifingin er tveggja stika dreifing og lýsir þessu talsvert betur. Hún nær ágætlega utan um breytileika milli ára en lýsir langtímabreytingum ekki nægilega vel.

Eitt af því sem kemur til skoðunar er að nota slembiferli eins og Brown hreyfingu og er fjallað um þetta í viðauka 5.

Viðauki 2: Fall til að færa inn t-próf til að prófa eftirfarandi núll-tilgátu:

  • \(H_0\) : Meðaltal veiði í 10 ár og meðaltal veiði í 5 ár eru jafnstór fyrir tiltekna á
  • \(H_a\) : 10 ára meðaltalið er stærra en 5 ára meðalatalið fyrir tiltekna á

Alfa gildið, alfa = 0,05

[1] "|Nafn vatnsfalls       | 2012| 2013| 2014| 2015| 2016| 2017| 2018| 2019| 2020| 2021| 2022| 2023| t_test_result|"
[2] "|:---------------------|----:|----:|----:|----:|----:|----:|----:|----:|----:|----:|----:|----:|-------------:|"
[3] "|Miðfjarðará           | 1610| 3659| 1692| 5911| 4317| 3765| 2725| 1608| 1725| 1781| 1522| 1334|     0.9604820|"
[4] "|Blanda                |  843| 2612| 1933| 4806| 2377| 1428|  905|  630|  470|  414|  577|  359|     0.9767213|"
[5] "|Laxá á Ásum           |  210| 1063| 1005| 1778|  623| 1108|  689|  804|  676|  600|  820|  660|     0.9383215|"
[6] "|Víðidalsá og Fitjá    |  328|  913|  696| 1601| 1135|  774|  589|  446|  546|  737|  787|  645|     0.9369663|"
[7] "|Vatnsdalsá og Giljá   |  358| 1194|  833| 1458|  996|  729|  557|  487|  419|  436|  415|  421|     0.9827947|"

Veiðitölur voru færðar inn fyrir stærri laxveiðiár og var p-gildi yfirleitt alltaf hærra en 0,7. Í töflunni hér að ofan má sjá að gildin eru nálægt einum fyrir Miðfjarðará, Blöndu, Laxá í Ásum, Víðidalsá og Vatnsdalsá.

Prófið sýnir þannig að sterk rök eru fyrir því að nota frekar 5 ára meðaltal en 10 ára meðaltal.

Villtir stofnar eru því einstaklega viðkvæmir um þessar mundir eins og kemur fram í skýrslum Hafrannsóknastofnunar í þeim ám þar sem villti laxinn er vaktaður (Hafrannsóknastofnun, 2023).

Viðauki 3: Hermilíkan til þess að meta hlutfall eldislax í ám

Smíðað var einfalt hermilíkan til að meta hlutfall eldislax í ám. Helstu forsendur:

  1. Fært var inn meðaltal eldislaxa frá Hafrannsóknastofnun sem birt er á vefsíðu þeirra (https://ahaettumat.shinyapps.io/Hafro2023/) fyrir hverja á.
  2. Gert er ráð fyrir því að stærri sleppingar hafi verið á 2-3 ára fresti og að tíminn á milli sleppinga sé normaldreifður.
  3. Gert er ráð fyrir því að:
*   43% af eldisfiski í ám  komi einu ári eftir sleppingu.
*   36% af eldisfiski í ám komi tveimur árum eftir sleppingu.
*   21% af eldisfiski í ám komi þremur árum eftir sleppingu.

(hlutföll fengin úr drögum að áhættumati 2023 sem lögð voru fram í samráðsnefnd)

4.Veiðiálag er í samræmi við mat Hafrannsóknastofnunar (Hafrannsóknastofnun, 2023) úr þeim ám þar sem villti laxastofninn er vaktaður, en 50% í öðrum ám.

Hermilíkanið var keyrt m.v. 10.000 ár og reiknað hlutfallslegt magn eldislax í hverri á og dæmi færð inn á mynd 5.

Viðauki 4: Rannsókn Skilbrei

Stærri skilbrei tafla fyrir viðauka.png

Myndin sýnir hvernig velja má stika til að nota hreyfingu Browns til að líkja eftir fjölda lax í ám. Fjöldinn virðist hreyfast í 10 ára lotum samkvæmt ábendingum Hafrannsóknastofnunar. Rétt er að benda á að ekki er líklegt að hreyfingin mæli fjöldann svo nákvæmlega, en hún getur hins vegar nálgað breytileikann milli ára yfir 10 ára tímabil mjög vel.

Heimildir

Alþingi. 2023. Svar matvælaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um eldislaxa sem sleppa. Sótt 21.12.2023 frá: https://www.althingi.is/altext/154/s/0420.html

Bradbury, S.D.I., Kess, T., Wyngaarden, M., Duffy, S., Messner, A., Wringe, B., Karoliussen, S., Dempson, J., Fleming, I., Solberg, M., Glover, K., Bentzen, P. (2022). Genomic evidence of recent European introgression into North American farmed and wild Atlantic salmon. Evol Appl.

Bradbury, S.D.I., Lehnert, S., Jóhannsson, R., Friðriksson, J., Castellani, M., Burgetz, I., Sylvester, E., Messmer, A., Layton, K., Dempson, J., Fleming, I. (2020).Model-based evaluation of the genetic impacts of farm-escaped Atlantic salmon on wild populations. Aquaculture Environment Interactions, 12, 45–59. Aquaculture Environment Interactions 12, 45-59.

Castellani, M., Heino, M., Gilbey, J., Araki, H., Svasand, T., Glover, K.A. (2018). Modeling fitness changes in wild Atlantic salmon populations faced by spawning intrusion of domesticated escapes. Evolutionary Applications, 11(6), , 1010-1025.

Gilbey, J., Coughlan, J.,Wennevik, V., Prodöhl, P., Stevens, J., Garcia de Leaniz, C., Ensing, D., Cauwelier, E., Cherbonnel, C., Consuegra, S., Coulson, S., Cross, T., Crozier, W., Dillane, E., Ellis, J., García-Vázquez, E., Griffiths, A., Gudjonsson, S., Hindar, K., Karlsson, S., Knox, D., Machado-Schiffino, G., Meldrup, D., Nielsen, E., Ólafsson, K., PRimmer, C., Prusov, S., Stradmeyer, L., Vaha, J., Veselov, A., Webster, L., McGinnity, P., Verspoor, E. (2018). A microsatellite baseline for genetic stock identification of European Atlantic salmon (Salmo salar L.).

Gjedrem , H.G.T., Gjerde, B. (1991). Genetic origin of Norwegian farmed Atlantic salmon. Aquaculture 98, 41-50.

Gjedrem, T. (2010). The first family-based breeding program in aquaculture. Reviews in Aquaculture, 2(1), 2–15.

Glover, K.A., Pertoldi, C., Besnier, F., Wennevik, V., Kent, M., Skaala, O. (2013). Atlantic salmon populations invaded by farmed escapees: quantifying genetic introgression with a Bayesian approach and SNPs. BMC Genet 14, 74.

Hindar, K., Fleming, I. , McGinnity, P., Diserud, O. (2006). Genetic and ecological effects of salmon farming on wild salmon: modelling from experimental results ICES Journal of Marine Science, 63, 1234–1247.

Hafrannsóknastofnun. (2020). Haf og vatn. Áhættumat Hafrannsóknastofnunar í samræmi við 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/endurskodud_radgjof_ahaettumat20201206808.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2020). Haf og Vatn. Eldi á frjóum Atlantshafslaxi í opnum skjókvíum. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/R%C3%A1%C3%B0gj%C3%B6f_%C3%81h%C3%A6ttumat202011192881.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2020). Haf og Vatn. Hætta á göngu strokulaxa úr laxeldi í íslenskar laxveiðiár. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/taekni-ahaettumat_isl11974661206809.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Staða greiningar á meintum eldislaxi. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/moya/news/category/2/stada-greiningar-a-meintum-eldislaxi-18-desember

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Erfðablöndun villts íslensks lax (Salmo salar) og eldislax af norskum uppruna. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2023_25_l.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2017). Haf og Vatn. Áhættumat vegna mögulegrar erðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2017-027.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2020). Haf og Vatn. Áhættumat vegna mögulegrar erðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/endurskodud_radgjof_ahaettumat20201206808.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Áhættumat vegna mögulegrar erðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vatnakerfi Blöndu 2022, seiðarannsóknir, stangveiði og göngufiskur. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/vatnakerfi-blondu-2022-seidarannsoknir-stangveidi-og-gongufiskur-hv-2023-34

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Laxá í Aðaldal 2021 og 2022. Seiðabúskapur og veiði. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/laxa-i-adaldal-2021-og-2022-seidabuskapur-og-veidi-hv2023-26

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Fiskirannsóknir á vatnasvæði Laxár í Leirársveit 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/fiskirannsoknir-a-vatnasvaedi-laxar-i-leirarsveit-2022

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vöktunarrannsóknir á laxastofni Laxár í Dölum 2020. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/voktunarrannsoknir-a-laxastofni-laxar-i-dolum-2022-hv-2023-23

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vöktunarrannsóknir á laxastofni Langár á Mýrum 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/voktunarrannsoknir-a-laxastofni-langar-a-myrum-2022-hv-2023-13

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vöktun laxastofna á vatnasvæði Norðurár í Borgarfirði. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/voktun-laxastofna-a-vatnasvaedi-nordurar-i-borgarfirdi-2022-hv-2023-06

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Rannsóknir á fiskistofnum nokkurra áa á Norðausturlandi 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/rannsoknir-a-fiskistofnum-nokkurra-aa-a-nordausturlandi-2022

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Laxarannsóknir á vatnasvæði Þverár í Borgarfiði 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/laxfiskarannsoknir-a-vatnasvaedi-thverar-i-borgarfirdi-2022-monitoring-of-atlantic-salmon-stocks-in-thvera-and-kjarara-2022-hv-2023-03

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vöktunarrannsóknir á stofnum laxfiska Grímsár og Tunguár 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2023_21.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Rannsóknir á laxfiskastofnum í Gljúfurá í Borgarfirði 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2023_16.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Fiskirannsóknir á vatnasvæði Flekkudalsár 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/1687182536-hv2023-18.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vöktun laxa- og bleikjustofna á vatnasvæði Hörðudalsár 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2023_24.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Vöktunarrannsóknir laxfiska í Langadalsá 2022. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2023_32.pdf

Hafrannsóknastofnun. (2023). Haf og Vatn. Laugardalsá 2022. Seiðarannsóknir, stangaveiði og göngufiskur. Sótt frá: https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2023_15.pdf

Olafsson, K., Pampoulie, C., Hjorleifsdottir, S., Gudjonsson, S., Hreggvidsson, G.O. (2014). Present-Day Genetic Structure of Atlantic Salmon (Salmo salar) in Icelandic Rivers and Ice-Cap Retreat Models. Plos One 9 (2), e86809.

Ríkisendurskoðun. (2023). Stjórnsýsluúttekt: Sjókvíeldi - lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit. Sótt frá: https://rikisendurskodun.is/skyrslur/nanar?id=2013

Samráðsgátt. (2023). Áform um lagasetningu – Frumvarp til laga um lagareldi. Sótt frá: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3574

Samráðsgátt. (2023). Uppbygging og umgjörð lagareldis - Stefna til ársins 2040. Sótt frá: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3554 Sjávarútvegsþjónustan. (2022). Fiskeldisfréttir. 1(9), bls. 1-23. Sótt frá: https://sjavarutvegur.is/wp-content/uploads/2022/12/Fiskeldisfrettir-nr.-1-2022.pdf

Stefánsson, G., McAdam, B., Glover, K. (2020). Alþingi. Skýrsla óháðrar nefndar um athugun á aðferðafræði, áhættumati og greiningum á fiskeldisburðarþoli á vegum Hafrannsóknastofnunar. Sótt frá: https://www.althingi.is/altext/150/s/2029.html

Taranger, K.G., Karlsen, Ø., Bannister, R., Glover, K., Husa, V., Karlsbakk, E., Kvamme, B., Boxapen, K., Bjorn, P., Finstad, B., Madhun, A., Morton, H., Svasand, T. (2014). Risk assessment of the environmental impact of Norwegian Atlantic salmon farming. Ices J Mar Sci 72, 997-1021.

VSÓ Ráðgjöf. (2021). Burðaþolsmat og áhættumat erfðablöndunar á Austfjörðum og Vestjörðum – Umhverfismatsskýrsla. Bls. 26-33. Sótt frá: https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/ANR/Fiskeldi/Umhverfismatssk%C3%BDrsla.pdf

Ársskýrsla dýralæknis fisksjúkdóma 2022 https://www.mast.is/is/maelabord-fiskeldis/arsskyrslur-fisksjukdoma

Lög nr.71/2008 um fiskeldi

Reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi

Lög nr. 101 /2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða og fl.)

Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Reglugerð nr. 1381/2021 um umhvefismat framkvæmda og áætlana