Laxveiði er að ljúka í mörgum ám um þessar mundir þó svo að nokkrar ár loki ekki fyrr en næstu mánaðarmót og árnar sem byggja á seiðasleppingum ekki fyrr en í október.
Þannig er lokatalan í Norðurá 1.352 laxar, Haffjarðará 870 laxar og Straumfjarðará 348 laxar. Búast má við fleiri lokatölum af Vesturlandinu á næstu dögum.
Laxá á Ásum endaði með 820 laxa en veiðum er ekki lokið í öllum ám í Húnavatnssýslunum.
Lokatalan í Laxá í Aðaldal er 401 lax og átti hún ágætan endasprett í samanburði við rólegt sumarið.
Nýjustu tölur úr Selá og Hofsá eru 1.164 laxar í þeirri fyrrnefndu og 1.211 laxar í þeirri síðarnefndu og sennilega mun ekki mikið bætast við þessar tölur. Um er að ræða bestu veiði í Hofsá síðan 2007 þegar áin endaði í 1.435 löxum.
Stóra-Laxá hefur skilað 780 löxum en þar er veitt til mánaðarmóta og gæti hún átt fínan endasprett. Sumarið hefur verið virkilega gott í Stóru og nú síðustu daga hafa stóru hængarnir verið að gefa sig.
Nýjustu tölur úr laxveiðinni er að finna á: https://angling.is/veiditolur/