Samantekt á veiðitölum í júní

Urriðafoss í Þjórsá byrjar tímabilið með hvelli eins og hefð er orðin fyrir og hefur nú skilað mestu veiði alls 501 laxi. Það er mjög sambærilegt og fyrstu fjórar vikur tímabilsins í fyrra þegar 509 laxar voru komnir á land þann 1. júlí. Síðasta vika í Urriðafossi gaf hvorki meira né minna en 170 laxa á stangirnar fjórar.

Stóra Laxá opnaði með glæsibrag og skilaði 33 löxum á land fyrstu fjóra dagana sem veitt var og það við mjög góðar aðstæður. Má því segja að það sé með betri opnunum í ár og verður forvitnilegt að sjá hver næsta vikuveiði þar verður. Flestar ár á listanum hafa ekki sýnt sömu takta og sú Stóra í Hreppum en mikil vöntun er á kröftugum göngum af tveggja ára laxi víðast hvar. Sést það einkum vel á þeim veiðitölum sem okkur hafa borist úr þeim ám sem treysta á stórlaxa í sinni snemmsumars veiði.

Góðar fréttir eru að smálaxinn er farinn að hellast inn í Norðurá í Borgarfirði og skilaði þar 160 laxa vikuveiði. Norðurá er næst aflahæst á listanum í júní með 208 laxa. Þá má glögglega sjá á listanum að fleiri ár eru að skila aukinni veiði á milli vikna.

Hlýtt veður með tilheyrandi leysingum og stórflóðum hefur sett mark sitt á veiðiskap og hefur sú staða verið uppi mjög víða á landinu síðustu vikuna. Bárust okkur þær fregnir að ekki hefur verið hægt að stunda veiðar í Jöklu enn sem komið er vegna þessa. Í Skjálfandafljóti stendur vikuveiðin í stað vegna vatnavaxta en fyrir hamfarirnar hafði áin þó gefið 20 laxa í bók.

Hástökkvarar vikuna 24-30 júní:

Urriðafoss – 170 laxa vikuveiði.
Norðurá – 143 laxa vikuveiði.
Þverá/Kjarrá – 79 laxa vikuveiði.
Eystri Rangá – 67 laxa vikuveiði.
Haffjarðará – 62 laxa vikuveiði.

Smelltu hér til að skoða Veiðitölur 2021