VATNSDALSÁ Í HÚNAÞINGI

Vatnsdalsá er ein besta laxveiðiá landsins. Hún er fræg fyrir sína stóru laxa og gott aðgengi að veiðistöðum. Eingöngu veitt á flugu á laxveiðisvæðum árinnar og laxinum sleppt aftur.

Ánni er skipt í 5 veiðisvæði. Svæði 1 og 3 eru aðalega silungsveiðisvæði, en með góðri laxavon. Veiðihúsið Steinkot er fyrir veiðimenn á þessum svæðum. Það er notalegt veiðihús sem stendur austan við Flóðið. Þar sjá veiðimenn sjálfir um matseld og þrif.

Svæði 2 og 4 eru laxveiðisvæði. Veiðimenn á þeim svæðum búa í Flóðvangi, sem stendur sunnan við Vatnsdalshólana. Á svæði 2 er Hnausastrengur, gjöfulasti veiðistaður árinnar, og einn besti laxveiðihylur landsins. Svæði 5 er framan við Stekkjarfoss. Það er skemmtilegt veiðisvæði í gljúfri árinnar. Við það svæði er lítið veiðihús. Á aðal laxveiðisvæði árinnar eru leyfðar 7 stangir. Veiðar hefjast 18. júní og er jafnan fullbókað fram á haust. Oftast koma sömu veiðimenn ár eftir ár, og mörgum finnst ekkert sumar koma, komist þeir ekki til veiða í Vatnsdalsá.

Mikil náttúrurfegurð er í Vatnsdal. Þar er mikil saga og má geta þess að landnámsmaðurinn Ingimundur gamli var þar veginn vegna deilu um veiðirétt. Fyrsti innfæddi húnvetningurinn fæddist á hól skammt frá veiðihúsinu Flóðvangi. Til minningar um það hefur Húnvetningafélagið í Reykjavík gróðursett trjálund og nefnt Þórdísarlund eftir Þórdísi dóttur Ingimundar gamla.

Leigutaki nú er G og P ehf. Um sölu veiðileyfa á silungasvæðunum sjá heimamenn. (Sjá silungsveiðiár á Norð-Vesturlandi)

Vefsíða: Vatnsdalsa.is

Netfang:

bjorn@vatnsdalsa.is

Sími:

Björn K Rúnarsson gsm: 8200446

VEIÐITÖLUR VIKU FYRIR VIKU

HEILDARVEIÐI FYRRI ÁRA

VIKA FYRIR VIKU 2021