Þegar leiðrétt hefur verið fyrir mistökum við meðferð tölfræðigagna og túlkun rannsókna í áhættumati erfðablöndunar kemur í ljós að forsendur matsins um hversu mikið af eldislaxi er talið óhætt að gangi að meðaltali í ár á Íslandi standast ekki.
Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi á vegum Landssambands veiðifélaga í Húsi Sjárvarklasans í gær þar sem kynntar voru niðurstöður úr greiningar- og rýnivinnu tölfræði- og greiningarfyrirtækisins Arev á áhættumati erfðablöndunar. Á fundinum kynnti Jón Scheving Thorsteinsson stærðfræðingur frá Arev tölfræði niðurstöður vinnunnar og setti fram gagnrýni á fjölmarga þætti í núverandi áhættumati. Fundinn sátu fulltrúar Matvælaráðuneytis, Hafrannsóknastofnunar, Landssambands veiðifélaga, veiðirétthafa og náttúruverndarsamtaka.
Áhættumatið stýrir því hversu mikið magn af eldislaxi Hafrannsóknastofnun telur óhætt að hafa í sjókvíum við ísland, án þess að það skaði villta laxastofna.
Helstu athugasemdirnar Arev beinast að rangri túlkun Hafrannsóknastofnunar á norskum rannsóknum sem meta endurkomuhlutfall eldislaxa, það er það hlutfall af strokulöxum sem gengur upp í ár. Telja sérfræðingar Arev að túlkun áhættumatsins á niðurstöðum þessara rannsókna sé röng og gangi of skammt. Þá er sett fram gagnrýni á að í áhættumati sé notað tíu ára meðaltal til að meta stofnstærð villtra íslenskra laxastofna, að líkan til að áætla dreifingu stroklaxa sé notað með röngum hætti og að matið nái ekki að fanga áhættu við stóra strokatburði sem verða á tveggja til þriggja ára fresti.
Jón Scheving sagði á fundinum að ef tekið væri tekið tillit til allra þessa þátta muni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um áhættumat lækka umtalsvert. Eins sagði hann að núverandi áhættumat hefði á engan hátt náð utan um þann atburð sem átti sér stað hjá Arctic Fish árið 2023.
Af spurningum og umræðum á fundinum er ljóst að Hafrannsóknastofnun þarf að breyta núverandi líkani áhættumats í veigamiklum atriðum og stendur sú vinna nú yfir innan stofnunarinnar.
Í ljósi atburða undanfarinna ára og þeirra nýju gagna sem nú liggja til grundvallar matinu telur Landssamband veiðifélaga að óhugsandi sé að stofnunin gefi út nýtt mat sem heimili sama magn af frjóum eldislaxi í sjókvíum og núverandi áhættumat geri ráð fyrir. Sagan hafi einfaldlega sýnt að slíkt muni valda villtum laxastofnum og þeim sem byggja afkomu sína á þeim ómældu tjóni.
Með því að smella hér má nálgast kynningu Arev frá fundinum.
Með því að smella hér má nálgast ítarlegri álitsgerð um málið.