Listi með nýjum veiðitölum úr laxveiðinni var birtur nú í hádeginu á vef Landssambandsins.
Stígandi er í veiðinni víðast hvar á Vesturlandi. Laxá í Kjós gaf 78 laxa í vikunni og er komin í 157 stykki á meðan Laxá í Leir gaf 85 og er þá komin í 180 fiska.
Norðurá er að skila um 20 löxum á dag og þar gaf vikan 130 fiska og Norðuráin því komin í 581 lax. Þverá og Kjarrá eru næstar í Borgarfirðinum með 529 fiska eftir frábæra 190 laxa viku.
Rólegra er á norðaustur horninu en á sama tíma í fyrra en þar skýrist staðan á næstu tveimur vikum.
Stóra-Laxá er að skila fínni veiði en vikan gaf 53 fiska og Stóra því komin í 156 laxa.
Allar tölur vikunnar má finna á nýjum veiðitöluvef Landssambandsins á https://veiditolur.angling.is/