Veiðinni virðist nokkuð misskipt nú í upphafi tímabils en nokkrar ár fara mjög vel af stað á meðan rólegra er annars staðar. En almennt lítur byrjunin ágætlega út.
Elliðaárnar byrja af miklum krafti en þar eru komnir 30 laxar í bók eftir aðeins þrjá dagar. Sérlega glæsileg byrjun þar.
Vikan gaf 26 laxa í Laxá í Leirársveit sem er nokkuð gott á þessum tíma og er áin komin í 32 laxa. Laxá í Kjós er komin í 29 laxa.
Ágætis gangur er í Norðurá en vikan gaf 57 laxa og er áin því komin í 95 laxa. Norðurá hefur oft verið betri á þessum tíma en þetta lítur þó ágætlega út. Þverá og Kjarará eru komnar í 87 fiska eftir frekar rólega 35 laxa viku.
Árnar á Mýrum og Snæfellsnesi eru nokkuð misjafnar í byrjun en Haffjarðará byrjar mjög vel og er komin í 27 laxa. Hítará er komin í 15 laxa og Straumfjarðará í sex laxa. Nokkuð rólegt er í Langá en þar eru komnir 11 fiskar á land.
Miðfjarðará er komin í 31 lax og gaf vikan 25 laxa. Víðidalsá opnaði 20. júní og þar eru komnir 16 laxar í bók og er það flott byrjun. Rólegt er hins vegar í Blöndu en þar er veiðin komin í níu laxa eftir fimm laxa viku.
Staðan er fín í Laxá í Aðaldal og Mýrarkvísl en þær hafa gefið fimm laxa hvor og þykir það sérstaklega kröftug byrjun í Mýrarkvísl.
Rangárnar voru opnaðar í vikunni og lítur Ytri sérstaklega vel út en þar eru komnir 15 laxar en Eystri hefur gefið tvo og austurbakki Hólsár þrjá.
Sem fyrr trónir Urriðafoss á toppnum með 235 laxa og gaf vikan því 74 fiska.
Allar tölur er að finna á þessari slóð: angling.is/veiditolur/