LEIRVOGSÁ

Leirvogsá er dragá með lindarvatnsáhrifum og er vatnasvið hennar um það bil 85 ferkm. Hún rennur úr Leirvogsvatni og er um það bil 12 km. löng, en 8 km. frá sjó er ófiskgengur foss, sem nefnist Tröllafoss. á leið sinni til sjávar fær Leirvogsá töluverðan liðsauka með þverám sínum, þ.e. Stardalsá, Þverá og Grafará ásamt fjölda lækja. Leirvogsá varðar mörk Kjalarnesshrepps og Mosfellsbæjar auk Leirvogsvatns og Bugðu að hluta, en Bugða fellur í Leirvogsvatn. Veiðifélag var stofnað um Leirvogsá þann 6. apríl 1940, og nær félagið til eftirtalinna jarða og jarðarhluta: Skeggjastaða, Hrafnhóla, Minna Mosfells, Þverárkots, Norðurgrafar,Mosfells, Hrísbrúar, Varmadals, Leirvogstungu, Fitjakots, Vogs, Leira, Víðiness, Mosfellsbæjar og Blikastaða. Eftir stofnun veiðifélagsins hefur áin verið leigð út með ýmsum hætti.   Meðalveiði í Leirvogsá frá 1974 er 495 laxar, minnst 319, en metveiði – 1173 laxar – var árið 2008.

Veiða má með tveim stöngum samtímis og tveir veiðimenn vera um stöng. Við veiðarnar má ekki nota annað agn en maðk og flugu. Veiðisvæðið nær frá ósi Leirvogs að Tröllafossi og er ánni skipt í 3 veiðisvæði á tímabilinu frá 25. júní til og með 10. ágúst. Svæði I nær frá ósi að Klapparhyl. Svæði II er ofan Klapparhyls að Þverá. Svæði III er ofan Þverár að Tröllafossi. Á tímabilinu frá 10. ágúst til og með 30. september er ánni skipt í tvö veiðisvæði. Svæði I nær frá ósi Leirvogs til og með Svilaklöpp, og svæði II er ofan Svilaklappar að Tröllafossi. Við úthlutun veiðileyfa er tilgreindur veiðitími yfir daginn og á hvaða svæði eða svæðum hefja skal veiði. Veiðimenn skulu skipta um veiðisvæði eftir hvíldartíma. Ef sami maður hefur báðar stangirnar sem leyft er að nota í ánni er honum í sjálfsvald sett hvar hann hefur veiðar.

Veiðihús er í Norðurgrafarlandi og er það upphitað og lýst með rafmagni, ásamt vatnssalerni og eldunaraðstöðu. Veiðimenn þurfa ekki að mæta í veiðihúsið fyrir veiðitímann að morgni en aftur á móti ber þeim skylda til þess þegar veiði lýkur að kvöldi og skrá veiðina í veiðibók og leyfa veiðiverði að taka hreistursýni af veiddum löxum. Veiðimenn eru vinsamlegast beðnir um að ganga vel um veiðihúsið, ána og umhverfi hennar og skilja þannig við að það sé þeim til sóma og boðlegt næstu veiðimönnum.

Sérstök viðvörun: Að gefnu tilefni verður það ekki látið átöluluast að fleiri en tveir eða tvennt sé samtímis að veiðum á einnar stangar leyfi.

Smelltu hér til sjá upplýsingar um landeiganda

VEIÐITÖLUR VIKU FYRIR VIKU

HEILDARVEIÐI FYRRI ÁRA

VIKA FYRIR VIKU 2021