Heldur rólegt yfir laxveiðinni

Nú þegar besta tímanum í laxveiðinni er að ljúka á Vesturlandi hefur talsvert hægst á veiðinni. Þannig komu aðeins 28 laxar á land í Laxá í Kjós í vikunni, 53 í Laxá í Leirársveit og 66 í Grímsá. Norðurá skilaði 103 löxum og skreið því yfir 1000 laxa múrinn í vikunni og er komin í 1099 laxa.

Enn eru árnar í Húnavatnssýslum talsvert langt frá sínu besta en þó kroppast upp fiskur víða. Vikan í Ásunum gaf t.d. 76 laxa og í Miðfirðinum komu 148 á land.

Áfram er fín veiði í Vopnafirði og Þistilfirði en Selá gaf 114 í vikunni og Hofsá 185.

Rangárnar halda áfram að skila sínu en Eystri gaf 380 laxa í vikunni og Ytri 417 laxa.

Allar tölur vikunnar eru aðgengilegar á https://angling.is/veiditolur/

Img 2321
Veiðimenn við Rauðhyl í Selá í Vopnafirði.