Flott veiði í Soginu – Vikutölur úr laxveiðinni

Fínar smálaxagöngur eru á Vesturlandi og gaf vikan í Norðurá 191 lax og í Þverá/Kjarrá 179 laxa. Langá og Haffjarðará eru líka á fínu róli og sú fyrrnefnda gaf 145 laxa og sú síðarnefnda 117 laxa.

Laxá á Ásum er á góðu skriði en vikan gaf 124 laxa sem er um 4,5 laxar á stöng á dag.

Veiðimenn eru ánægðir með stöðuna í Vopnafirði en þar gaf Selá 106 laxa og Hofsá 122. Selá er því komin í 226 laxa og Hofsá 220 en þar fer mesti göngutími smálaxins að hefjast. Nokkuð ljóst er að Hofsá stefnir í talsvert betri heildarveiði en í fyrra.

Fínn gangur er í Jöklu en vikan gaf 134 laxa og áin því komin í 235 laxa.

Sogið virðist ætla að fylgja öðrum ám á Hvítár/Ölfusár svæðinu og er að gefa mun betri veiði en í fyrra. Sogið er komið í 145 laxa en var í 102 á sama tíma í fyrra. Þar á bæ eru menn mjög sáttir við göngurnar þessa dagana.

Img 1084
Sveinn Blöndal með flottan lax af norðausturhorninu.