Nú er veiði að hefjast í hverri laxveiðiánni á fætur annarri. Í vikunni voru Laxá í Leirársveit, Laxá í Kjós, Hítará og Miðfjarðará meðal þeirra sem voru opnaðar og þar voru veiðimenn sáttir. Í Leirársveitinni náðist tröllvaxinn hængur á land sem mældist 105 cm. Þar komu sex laxar á land fyrstu tvo dagana, 13. og 14. júní, en heimamenn og leigutakar voru við veiðar. Í Miðfirðinum komu sex laxar á land á fyrsta degi, sem var í gær, 15. júní.
En að vikutölunum. Urriðafoss er eðlilega efstur á blaði með 161 lax og vikuveiði upp á 80 laxa. Fínn gangur er í Þverá og Kjarrá en þar eru komnir 52 laxar og vikan gaf því 44 fiska. Norðurá er í 38 löxum og gaf vikan 19 laxa. Blanda fer verulega rólega af stað og voru fyrstu dagarnir laxlausir en Blanda er komin í 4 laxa.
Tölurnar koma á angling.is/veiditolur/ í hádeginu í dag en mun fleiri ár verða á listanum í næstu viku.