Enn mikil veiði í Flókadalsá og Stóru Laxá

Athygliverðustu tíðindi vikunnar eru framhald á veislunni í Flókadalsá í Borgarfirði en vikan gaf 90 laxa á þrjár stangir sem gerir rúma fjóra laxa að meðaltali á stöng á dag. Það verður að teljast ansi góð veiði sem vekur upp spurningar um nágrannaárnar í Borgarfirðinum en þar er veiðin ekki á sömu siglingu þó hún sé talsvert betri en á sama tíma í fyrra. Flókadalsá er því komin í 177 laxa.

Talsverðar smálaxagöngur virðast þó vera í aðrar ár í Hvalfirði og Borgarfirði en veiðin er þó með rólegra móti á flestum svæðum. Vikan í Þvera og Kjarrá gaf 207 laxa og eru árnar komnar í 381 lax.

Á Mýrum og Snæfellsnesi ber Haffjarðará af með vikuveiði upp á 82 laxa en Langá gaf 72 laxa en hún veidd á umtalsvert fleiri stöngum.

Rólegt er yfir veiðinni í Húnavatnssýslum þó staðan sé skárri en í fyrra. Hrútan gaf aðeins fjóra laxa í vikunni, Víðidalsá 33 og Vatnsdalsá 14. Miðfjarðará er á besta rólinu en vikan gaf 72 laxa og er áin komin í 109 laxa. Batamerki eru í Blöndu en vikan gaf 35 laxa eftir mjög rólega byrjun. Þetta getur þó allt breyst hratt í Húnavatnssýslunum ef smálaxinn fer að ganga af krafti.

Rólegt var í Aðaldalnum en þar gaf vikan 15 laxa og er áin komin í 51 lax. Þar þarf smálaxinn að fara að skila sér til að halda veiðinni uppi.

Í Vopnafirði gengur ágætlega og gaf Selá 30 laxa og Hofsá 37 laxa. Þar skýrist væntanlega á næstu tveimur vikum hvort smálaxinn skili sér almennilega á Norður- og Austurlandi.

Veiðin er áfram fín í Urriðafossi sem skilaði 110 löxum í vikunni og er kominn í 451 lax. Þá virðist veiðin í Rangánum vera að detta í gang en Eystri skilaði 56 löxum í vikunni og Ytri 153.

Stóra Laxá virðist ætla að koma á óvart í sumar en þar gaf vikan 71 lax og er áin komin í 125 laxa. Talsvert virðist komið af laxi í Tungufljótið en vikan gaf 28 laxa. Þessi tíðindi vekja vonir um að upptaka neta í Hvítá og Ölfusá beri árangur strax í sumar.

Img 9867 preview
90 cm stórlax úr Stóru Laxá sem tók Sunray Shadow í Laxárholti en var landað talsvert neðar. Mynd: Birkir Már Harðarson.