Eldislaxar – aðgerðir

  • Post category:Fréttir

Eins og öllum veiðifélögum og leigutökum ætti að vera kunnugt um þá stendur nú yfir stórfellt umhverfis- og mengunarslys þar sem frjóir, kynþroska eldislaxar ganga upp í ár í Breiðafirði, á Vestfjörðum og á Norðurlandi þessa dagana. Af þeim eldislöxum sem þegar hafa verið upprunagreindir af Hafrannsóknastofnun má rekja alla nema einn til eldissvæðis Arctic Sea Farm í Patreksfirði en fyrirtækið tilkynnti um göt á kví 20. ágúst síðastliðinn. Fjöldi veiddra laxa, skv. talningu Landssambandsins, er kominn í 106 laxa á svæðinu frá Laxá í Dölum í vestri að Fnjóská í austri. Mun fleiri eldislaxar hafa þó sést í ám og teljurum. Landssamband veiðifélaga ítrekar mikilvægi þess að fá upplýsingar um alla eldislaxa sem veiðast (eða sjást) og að þeim sé skilað til Hafrannsóknastofnunar til greiningar. Nánari upplýsingar um slíkt má sjá að neðan.

Aðgerðir

Fulltrúar Landssambands veiðifélaga hafa fundað með Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun síðustu daga til að skipuleggja og samræma björgunaraðgerðir. Niðurstaða þeirrar vinnu er að Fiskistofa mun í fyrsta lagi veita veiðifélögum almennar heimildir til aukinnar veiði og í öðru lagi leggja til sértækar veiðiaðgerðir í samráði við Fiskistofu.

  1. Almennar heimildir sem ganga þegar í gildi og Fiskistofa hvetur til að verði nýttar:
    1. Lokun laxastiga.
    2. Lenging stangveiðitímabils til 15. nóvember.
  1. Veiðiaðgerðir í samráði við Fiskistofu:
    1. Ádráttarveiði.
    2. Leit með ljósum.
    3. Rekköfun.

Nánari upplýsingar og skilyrði fyrir beitingu þessara aðferða og heimilda er að finna í bréfi frá Fiskistofu sem má finna hér

Athygli er vakin á því að almennu heimildirnar (liður 1 að ofan) eru þegar virkar og eru veiðifélög hvött til að hefja slíkar aðgerðir. Veiðiaðgerðir skv. lið 2 hér að ofan þarf að gera í samráði við Fiskistofu. Þurfi veiðifélög að beita einhverjum slíkum veiðiaðgerðum, t.d. veiði með ádráttarneti, eru þau hvött til að hringja beint í Guðna Magnús Eiríksson hjá Fiskistofu í síma 825-7912 og fá slíka heimild. Verði vart við eldislaxa þarf að grípa til slíkra ráðstafana hratt og örugglega og hefur Fiskistofa skilning á því að heimildir þarf að veita án tafa. Mikilvægt er að fá slíka heimild fyrirfram svo að Fiskistofa greiði fyrir aðgerðina. Einnig er mikilvægt að halda tímaskráningu yfir alla vinnu vegna slíkra aðgerða svo að hægt sé að senda Fiskistofu reikning fyrir þeirri vinnu.

Aðstoð og ráðleggingar vegna alls þessa veitir einnig Gunnar Örn, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga í síma 665-8865.

Skil á löxum til greiningar 

Eins og fram kom í síðasta pósti frá Landssambandi veiðifélaga þá eru veiðifélög og leigutakar beðnir um að vera vakandi fyrir eldislöxum og fræða veiðimenn og leiðsögumenn um einkenni þeirra. Sá fiskur sem nú er að ganga er kynþroska fiskur á bilinu 75-85 cm. Sjá nánari upplýsingar í þessari grein frá Hafrannsóknastofnun: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/arvekni-um-eldiseinkenni-laxa

Mikilvægt er að fiskunum sé ekki sleppt aftur og að þeim (eða sýnum úr þeim) sé komið til Hafrannsóknastofnunnar til rannsókna. Einnig er mikilvægt að tilkynna slíka fiska til fjölmiðla eða til framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga (gunnar@angling.is eða 665-8865) þar sem við erum er að reyna að kortleggja stöðuna.

Samstaða í baráttunni

Við hvetjum alla veiðiréttarhafa, leigutaka og aðra að reyna að hafa sem mest áhrif á umræðuna um sjókvíaeldi með því að fjalla um skaðlegar hliðar þess, hvort sem það er við stjórnmálamenn eða landsmenn almennt. Nú er mikilvægt að við stöndum öll saman og verjum laxastofnana okkar og náttúruna. Landssamband veiðifélaga, í samstarfi við önnur náttúruverndarsamtök, er þessa dagana að skipuleggja viðbrögð við þessum hörmungum og munum við upplýsa aðildarfélög, og eftir atvikum leita liðsinnis, á næstu dögum.

Fyrir hönd Landssambands veiðifélaga,

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri