Arðskrár og samþykktir veiðifélaga

Hverju veiðifélagi er skilt að gera arðskrá. Heimilt er lögum samkvæmt að krefjast endurskoðunar á henni þegar 8 ár eru liðin frá gildistöku gildandi arðskrár.

Þegar fram er komin ósk um að gerð sé ný arðskrá í veiðifélagi er skylt að verða við því. Stjórnin getur gert eða fengið einhvern til að gera arðskrá, en slíka arðská þarf að samþykkja á félagsfundi með 2/3 hluta atkvæða.

Ef arðskrá er ekki samþykkt ber stjórn veiðifélags að óska eftir mati skv. VII. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, á þeim atriðum sem greinir í 1. mgr. 1. gr. þessarar reglugerðar. Einnig er sérhverjum félagsmanni rétt að krefjast mats með framangreindum hætti, enda komi sú krafa fram innan tveggja mánaða frá fundi þar sem arðskrá hefur verið samþykkt.

Sjá nánar reglugerð um arðskrá 403/2012, svo og lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.

Engin skylda er að reyna að láta gera arðskrá til að bera undir fund. Heimilt er að vísa málinu beint til matsnefndar. Ekki verður séð annað af lögum og reglugerð en hverjum einstökum félagsmanni sé heimilt að vísa beiðni um mat beint til matsnefndar og er þá sá félagsmaður matsbeiðandi.

Komi fram erindi frá félagsmanni þar sem óskað er aftir að stjórnin hlutist til um að gerð verði ný arðskrá er skylt að verða við því. Telji stjórn félagsins að ekki sé unnt að gera arðskrá nema með því að vísa málinu til matsnefndar sbr lög nr 61/2006 getur verið eðlilegast að bera tillögu um það fram á fundin í félaginu. Sé slík tillaga samþykkt skal stjórnin senda beiðni til matsnefndar, sbr reglugerðina.

Tillagan gæti verið eitthvað á þessa leið.

… fundur í Veiðifélagi …. haldinn .. staður … dag…ár… samþykkir að fela matsnefnd skv lög nr 61/2006 að gera nýja arðskrá fyrir Veiðifélag ………..

Í framangreindri reglugerð segir m.a.
Matsbeiðandi skal senda beiðni um mat til matsnefndar skv. lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði og skal hún vera undirrituð af matsbeiðanda eða stjórnarmönnum í veiðifélagi, þegar veiðifélag óskar eftir mati eða endurskoðun. Beiðninni skal fylgja staðfest afrit af fundargerð veiðifélags þar sem samþykkt er að óska eftir mati ef veiðifélag óskar eftir mati eða endurskoðun.

Eitt af þeim atriðum sem lögð eru til grundvallar við gerð arðskrár er landlengd að veiðivatni. Ef ekki er til nýleg mæling á bakkalengd er skynsamlegt að slík mæling sé gerð. Best er að gera hana á þann hátt að fá aðila til að mæla bakkalengd samkvæmt uppréttum viðurkenndum loftmyndum. Slíkt verk geta mælingamenn gert og eins t.d. ráðanautar eða aðrir aðilar sem kunna til slíkra verka. Mikilvægt er að matsnefnd fái kort frá mælingamanni, þannig að það sjáist hvernig verkið hefur verið unnið. Í upphafi þarf að fara á öll landamerki með viðkomandi landeigendum. Þar þarf að taka gps punkta til að klárt sé að mælipunktur sé á landamerkjum.

Til fróðleiks er hér útdráttur úr bréf sem matsnefnd barst hvernig þetta var unnið í einni af þeim ám, sem teknar hafa verið til mats.

Undirritaður mældi bakkalengd í …….á og var verkið unnið í september til desembar 20… Verkið var þannig unnið að formaður veiðifélagsins lagði til gps hnitpunkta landamerkja, sem ég setti inn í uppréttan loftmyndagrunn frá Loftmyndum ehf. Síðan mældi ég á loftmyndinni, með loftmyndagrunni sem Bændasamtök Íslands eiga, bakkalengd milli punkta eftir leiðsögn fulltrúa frá veiðifélaginu.

Mælingarnar voru síðan kynntar fyrir landeigindum á veiðifélagsfundi og smávægilegar breytingar gerðar eftir athugasemdum sem þar komu fram.

Skynsamlegt er fyrir veiðifélög að leggja fyrir fund og fá samþykkta heimild til að láta gera nýja mælingu.

Tillagan gæti verið eitthvað á þessa leið.

… fundur í Veiðifélagi …. haldinn .. staður … dag…ár… samþykkir að láta gera nýja bakkalengarmælingu fyrir ána.

Eitt af þeim atriðum sem matsnefnd ber að leggja til grundvallar við úrskurð um arðskrá eru uppeldis og hrygningaskilyrði. Mörg veiðifélög hafa fengið fiskifræðinga til þess að gera svonefnt búsvæðamat á vatnasvæðinu. Hægt er að sjá búsvæðamöt fyrir ýmsar ár á vefnum http://www.veidimal.is. Þá er botngerð skoðuð og gefnar einkunnir og í framhaldi er einstökum svæðum í ánum gefnar svonefndar framleiðslueiningar. Síðan getur sá sem búsvæðamatið gerir á auðveldan hátt skipt framleiðslueiningum milli jarða við ána. Ef stjórnin telur skynssamlegt að láta gera búsvæðamat, sem nota mætti við arðskrármatið og það gæti líka gagnast við skipulag á ræktun árinnar, er rétt fyrir stjórn að kynna málið á félagsfundi og leggja þar fram tillögu um heimild til stjórnar að láta gera slíkt mat. Það kostar peninga og þess vegna er rétt að ræða þetta.

Tillagan gæti verið eitthvað á þessa leið.

… fundur í Veiðifélagi …. haldinn .. staður … dag…ár… samþykkir að fela stjórn að láta gera búsvæðamat fyrir vatnasvæði félagsins.

Margir spurja um kostnað við gerð nýrrar arðskrár. Ekki hefur verið tekinn saman kostnaður við gerð á búsvæðamötum eða vinnu við bakkalengdarmælingar. Hins vegar hefur kostnaður matsnefndar verið tekinn saman og birtur á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Í hverju mati úrskurðar matsnefnd um matskostnað og er sá kostnaður birtur í matinu. Allir úrskurðir matsnefndar eru aðgengilegir á vefsíðum. Matsnefnd vinnur á tímakaupi sem ráðherra ákveður.

Hér er að finna arðskrár, samþykktir veiðifélaga og reglugerðir

Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði frá árinu 2006

Arðskrár – Greinagerðir matsnefnda
Samþykktir
Bein vefslóð
Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði
Árið 2005 og eldra