Aðalfundur Landssambands veiðifélaga
Borgarnesi 10. – 11. júní 2005
Ályktanir samþykktar á fundinum:
I
Tilmæli um að hlífa stórlaxi
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn Í Borgarnesi dagana 10. – 11. júní 2005, telur brýnt að gæta varúðar vegna hinnar miklu niðursveiflu sem verið hefur í endurheimtum á stórlaxi undanfari 20 ár. Fundurinn beinir því til aðildarfélaganna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að hlífa þeim laxi við veiði með því að taka það upp við leigutaka ánna að veiddum stórlaxi verði sleppt eftir því sem kostur er.
Greinargerð:
Veiðitölur sýna að lax sem dvelur lengur í sjó en 2 ár skilar sér með minnsta móti til baka í árnar. Vísindamenn hafa bent á þá hættu sem þetta ástand getur skapað hvað varðar erfðabreytileika laxastofna. Það er skylda veiðifélaga, sem vörsluaðila auðlindarinnar, að gæta varúðar í umgengi við nýtingu á laxi. Því er eðlilegt að gæta varúðar við veiðar á stórlaxi á meðan að þetta ástand varir.
II
Sjókvíaeldi
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi 10. – 11. júní 2005, minnir á nauðsyn þess að öflugt eftirlit sé haft með eldi norskra laxa í sjó. Sá stutti tími sem liðinn er frá því að stórfellt sjókvíaeldi hófst við strendur landsins getur ekki talist marktæk reynsla á það í hvaða mæli laxar sleppa úr kvíum og hvort þeir koma til með að ganga til hrygningar í laxveiðiárnar og blandast staðbundum stofnum. Fundurinn skorar á landbúnaðarráðherra að nýta heimildir í lögum til að setja reglur um stærðarmörk eldis á þeim svæðum þar sem heimilt er að ala lax í kvíum
Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir um að unnið verði að þróun geldstofns laxa ef leyfa á eldi framandi laxastofna í hafinu við landið. Tjón sem verður af völdum erfðamengunar eldislaxa í íslenskum ám verður ekki bætt. Minnt skal á að hlunnindi af laxi eru tugmilljarða virði og að eldisfyrirtækjunum er ekki gert skylt að taka tryggingar til að bæta það tjón sem þau kunna að valda að þessu leyti með starfsemi sinni.
Fundurinn skorar á veiðimenn að vera vakandi fyrir því hvort eldisfiskur leynist í aflanum.
Greinargerð:
Á síðast liðnu vori barst hafís inn á Norðfjarðarflóa sem minnir á þá ógn sem getur skapast af náttúrunnar völdum í fjörðum landsins þar sem sjókvíaeldi er stundað. Sem styður mikilvægi þess að þróa geldstofn til að nota í sjókvíaeldi.
III
Endurskoðun laga um lax- og silungsveiði
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi 10. – 11. júní 2005, fagnar þeirri vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun laga um lax- og silungsveiði. Fundurinn leggur þunga áherslu á að heildarendurskoðun laganna nái fram að ganga og heitir á alþingismenn að veita málinu liðsinni sitt. Fundurinn felur stjórn LV að fylgja málinu eftir.
IV
Útrýming minks úr náttúru landsins
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi dagana 10. – 11. júní 2005,
telur miður að tillögur um skipulegt átak við útrýmingu eða fækkun villiminks hafa ekki komist í framkvæmd. Fundurinn skorar á umhverfisráðherra að hrinda tillögum “minkanefndar” í framkvæmd hið fyrsta og tryggi ríkið fjámagn til verkefnisins.
Greinargerð:
Ljóst er að núverandi fyrirkomulag við minkaveiðar hefur ekki skilað nægjanlegum árangri. Heildarsamræming og skipulag við veiðar er ófullnægjandi og virkar ekki. Þá eru mörg sveitarfélög afar víðáttumikil og búa auk þess við erfiðan fjárhag. Þau ráða því mörg hver ekki við þann kostnað sem veiðunum fylgir. Minkurinn var á sínum tíma fluttur til landsins fyrir tilstuðlan stjórnvalda og þau bera því fulla ábyrgð á tilveru hans í íslenskri náttúru og ber skylda til þess að útrýma honum úr íslensku lífríki. Nauðsynlegt er að snúa við þeirri óheillaþróun sem fjölgun villiminks hefur haft í för með sér, en hann veldur stórfelldu tjóni á lífríki landsins jafnt á landi sem í ám og vötnum.
V
Silungsnefnd
Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi dagana 10.og 11. júní 2005, fagnar ákvörðun landbúnaðarráherra að skipa verkefnisstjórn sem á að kanna leiðir til þess að auka nýtingu og verðmæti silungsveiða á Íslandi.
Vannýtt tækifæri til stangveiða á silungi eru víða og þarf að auka áhuga eigenda þessara hlunninda á nýtingu þeirra og leiðbeina þeim á hvern hátt megi auka verðmætin.
Aðalfundurinn leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til verkefnisins, sem gæti stuðlað að aukinni verðmætasköpun í sveitum landsins.
VI
Rannsóknir
Aðlafundur Landsambands veiðifélaga, haldinn í Borgarnesi dagana 10.og 11. júní 2005, skorar á stjórnvöld að auka fjárframlög til rannsókna og þróunarstarfs á fiskstofnum í ám og vötnum.
Hagkvæm og sjálfbær nýting veiðihlunninda er afar mikilvæg til viðhalds byggðar í landinu, sem og til ánægjuauka þeim fjölda innlendra og erlendra manna er hér stunda veiðar. Á þessu sviði hafa rannsóknir og þekking Veiðimálastofnunar reynst ómetanleg, þó enn betur þurfi að gera.
Þá hefur þjóðhagslegt gildi veiðihlunninda reynst mun meira en áður var talið og hróplegt ósamræmi milli þeirrar framlegðar og fjárframlaga stjórnvalda til rannsókna og þróunarstarfa í þágu greinarinnar undanfarin ár. Eðlilegt verður að teljast að úr því sé bætt.
Greinargerð
Á árinu 2004 tók Hagfræðistofnun Háskóla Íslands saman viðamikla skýrslu um verðmæti stangveiði í ám og vötnum. Í skýrslunni kom m.a. fram að um 55 – 60 þúsund Íslendingar stunda stangveiði í ám og vötnum og að hingað sækja um 5 þúsund erlendir veiðimenn árlega. Heildarvelta auðlindarinnar er um 7 milljarðar á ári og beint árlegt framlag hennar á milli 2,6 og 3,2 milljarðar. Í landinu eru um 2000 veiðiréttarhafar sem eiga aðild að veiðifélögum. Flestir veiðiréttarhafar eru bændur. Á Vesturlandi eru tekjur þeirra t.d. um helmingur af heildartekjum landbúnaðar. Veiðinýting styður við um 1200 störf sem flest eru unnin á landsbyggðinni og er greinin viðamikill hlekkur í afkomu landbúnaðar og stuðningur við byggð. Jafnframt kom fram að vægi fiskræktar hefur verið umtalsvert og að um ýmiskonar sóknarfæri er að ræða er enn gæti aukið arðsemi og tekjur af veiðinýtingu.
Í skýrslu Veiðimálastofnunar sem einnig kom út á árinu 2004, um líffræðilega stöðu lax- og silungastofna, kemur fram að ástand þeirra hefur almennt séð verið í góðu lagi hér á landi og nýting innan þeirra marka að hún geti talist sjálfbær. Veiðimálastofnun rekur þar jafnframt ýmsar breytingar sem orðið hafa á síðustu árum svo sem stöðuga fækkun stórlaxa og yngingu seiða í ám. Fækkun stórlaxa kemur niður á hrognafjölda og gæti, ef fram heldur, leitt til þess að hrygning verði takmarkandi þáttur varðandi stofnstærð og afkomu laxastofna. Ef stofnar minnka mikið getur tekið langan tíma að byggja þá aftur upp í fyrri stærð og myndi slíkt kalla á takmörkun sóknar.
Ráðgjöf á hverjum tíma getur ekki verið betri enn sá þekkingargrunnur sem byggt er á. Nýtingu náttúruauðlinda í breytilegu umhverfi eins og er hér á landi kallar eftir skipulegum og öflugum grunnrannsóknum sem nýst geta auðlindinni í heild sinni.
VII
Endurskoðun laxveiðilaga
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga,haldinn í Borgarnesi dagana 10. – 11. júní 2005, þakkar endurskoðunarnefnd lax- og silungsveiðilaganna vönduð vinnubrögð, sem og þau tækifæri er veiðifélögum landsins bjóðast til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri meðan á vinnu við þetta mikilvæga frumvarp stendur.
Fundurinn hvetur öll aðildarfélög landssambandsins til að fara vandlega yfir framlögð frumvarpsdrög og koma hugsanlegum athugasemdum sínum á framfæri, annaðhvort beint til nefndarinnar eða til stjórnar sambandsins.
Þá felur fundurinn stjórn Landssambandsins að vinna vel úr þeim ábendingum, sem fram koma hér á fundinum, ásamt þeim atriðum er berast kunna frá aðildarfélögunum síðar, og gæta vel hagsmuna veiðiréttareigenda – hér eftir sem hingað til – meðan á samningu frumvarpsins og þinglegri meðferð þess stendur.