Ályktanir 2018

  • Post category:Ályktanir

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki 8. – 9. júní 2018

Ályktanir samþykktar á fundinum.

Fjárhagsnefnd

Fjárhagsáætlun LV fyrir árið 2018.

Allsherjarnefnd

I Ályktun um laxeldi í opnum sjókvíum 2018
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðarkróki dagana 8.- 9. júní 2018, lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri ógn sem villtum laxastofnum í öllum veiðiám landsins stafar af stórfelldu laxeldi með norskum kynbættum stofni  í opnum sjókvíum, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Fundurinn lýsir því yfir að engin sátt verður um laxeldi nema það sé með umhverfisvænum hætti í lokuðum kerfum í sjó með ófrjóum fiski eða upp á landi. 
Fundurinn skorar á stjórnvöld að taka forystu um að innleiða umhverfisvænt laxeldi. Hér er einstakt tækifæri að marka skýra stefnu og styrkja stöðu Íslendinga í umhverfismálum á alþjóðavettvangi sem hefði afar jákvæð áhrif fyrir ímynd þjóðarinnar.  Þá krefst fundurinn þess að á meðan sú vinna fer fram verði útgáfa rekstrarleyfa í opnum sjókvíum stöðvuð og þau leyfi sem hafa verið gefin út verði skilyrt við ófrjóan lax. Innan fimm ára verði allt laxeldi í lokuðum kerfum. Hér er m.a. horft til reynslu Norðmanna og Svía þar sem sú vinna hefur þegar farið fram, en nýtt eldi í opnum sjókvíum er bannað og stefnt er að laxeldi sem hefur ekki óafturkræf áhrif á fiskistofna, dýralíf og náttúruna. Orðspor þjóðar er í húfi þegar umhverfisvernd er í fyrirrúmi og þjóðir hvattar til að varðveita  náttúruna til lands og sjávar fyrir komandi kynslóðir.
Fundurinn krefst þess að stjórnvöld stórefli eftirlit með sjókvíaeldi, sem nú er ábótavant. Samkvæmt náttúruverndarlögum skal náttúran njóta vafans. Reynslan af laxeldinu sýnir að oft hafa fjárhagslegir hagsmunir ráðið för á kostnað náttúrunnar.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að standa vörð um íslenska villta laxastofna og mótmælir sérstaklega áformum um laxeldi í Ísafjarðardjúpi.
Greinargerð:
Nú þegar eru meira en 10 milljónir norskra eldislaxa komnir í opnar sjókvíar á þessum svæðum og eru eins og  tímasprengjur í náttúru landsins samanber stöðugar fréttir af umhverfisslysum og óhöppum. Þar má nefna mengun, lúsafaraldur, sjúkdóma, lyfjagjöf og slysasleppingar fiska. Það staðfestir að sú tækni og búnaður sem notaður er í sjókvíaeldi stenst ekki íslenskar aðstæður. Þá hafa vísindamenn á vegum Alþjóðahafrannsóknarráðsins bent á að sjókvíaeldi sé ein helsta ógnin sem steðjar að villtum laxastofnun. Samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknarstofnunar er erfðablöndun á Vestfjörðum staðreynd og hefur valdið óafturkræfu tjóni á íslenska laxinum sem er einstakur á heimsvísu. Veiðiréttarhafi eða náttúruunnandi getur aldrei samþykkt að allt að 4% laxa í íslenskum ám sé norskur kynbættur eldislax,  eins og  áhættumat Hafrannsóknarstofnunnar miðar við. Engin innblöndun er ófrávíkjanleg krafa.

II Áhættumat
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8. – 9. júní 2018, leggur áherslu á að heildarendurskoðun laga um fiskeldi fari fram hið fyrsta og minnir á að Alþingi hefur mælt fyrir þeirri endurskoðun með bráðabirgða ákvæði laga nr. 49/2014. Mikilvægt er að fyrir liggi stefnumörkun í fiskeldi til framtíðar. Þá ítrekar fundurinn samkomulag hagsmunaðila um áhættumat Hafrannsóknarstofnunar og skorar á stjórnvöld og Alþingi að lögfesta áhættumatið sem stjórntæki hið fyrsta.

Málefnanefnd

I Refsing fyrir óleyfilegar veiðar
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8. – 9. júní 2018, ályktar um refsingar fyrir óleyfilegar veiðar í veiðivötnum.
Aðalfundurinn beinir því til stjórnar Landsambands veiðifélaga að hún beiti sér fyrir því að sektarákvæði samkvæmt 50. grein laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 verði breytt þannig að sektir verði ákvarðaðar þannig að um raunverulega refsingu sé að ræða. Með því mætti koma í veg fyrir ítrekuð brot sem verða við veiðivötn. Heimilað verði að innheimta sektir á staðnum.
Greinargerð:
Á síðustu árum hefur ítrekað komið upp að fólk hefur verið staðið að óheimilum veiðum  í veiðivötnum. Þótt málin séu kærð til lögreglu og sektir ákveðnar, eru þær það lágar að í raun er ekki um refsingu að ræða, því sektirnar eru lægri en kostnaður vegna veiðileyfa í viðkomandi veiðivatni. Með breytingu á lögum og reglugerðum væri hægt að auka fælingarmátt sektarákvæða. 

II Notkun dróna
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8. – 9. júní 2018, beinir því til stjórnar LV hvernig takmarka megi notkun dróna við veiðistaði.
Jafnframt beinir aðalfundurinn því til stjórnar Landssambands veiðifélaga að þrýst verði á þar til bær yfirvöld, að í reglugerð um starfrækslu fjarstýrðra loftfara nr. 990/2017, verði sett ákvæði um að umferð dróna við veiðistaði verði óheimil nema með leyfi veiðifélags eða opinberra stjórnvalda, eða sem hluti af venjulegri notkun landeigenda á eigin jörð.
Greinargerð:
Á undanförnum árum hefur notkun dróna aukist og gæði þeirra hafa batnað. Mikið ónæði getur fylgt slíkri notkun fyrir veiðimenn sem vilja njóta næðis við veiðivötn, auk þess sem hægt er með slíkum tækjum að afla upplýsinga sem geta varðað persónuvernd. Vísað er til  17. greinar laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem fjallað er um frjálsa för um landið og þær takmarkanir sem henni fylgja og er ljóst að þessi ákvæði eigi við um umferð dróna. Beina þarf því til Samgöngustofu að gætt sé að takmörkunum samanber þessi ákvæði náttúruverndarlaga, sjónarmiða um persónuvernd o.fl. vegna framfylgdar reglugerðar um starfrækslu fjarstýrðra loftfara (990/2017). 

Boðun félagsfunda

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8. – 9. júní 2018, beinir
því til stjórnar LV að hún beiti sér fyrir endurskoðun laga um lax- og silungsveiði um ákvæðið
boðun félagsfunda í þeim tilgangi að einfalda boðleiðir og draga úr kostnaði við boðun.

Umhverfisnefnd

I. Sótthreinsun veiðibúnaðar
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8. – 9. júní 2018, beinir því til veiðifélaga og veiðileyfasala að ganga eftir því að sá veiðibúnaður sem fluttur er notaður inn til landsins sé sótthreinsaður, fylgi honum ekki sótthreinsivottorð. LV útbúi plakat til að hengja upp í veiðihúsum þar að lútandi. Fundurinn beinir því til stjórnar LV að kynna sér hvernig sótthreinsun á innfluttum veiðibúnaði er háttað og leita úrbóta sé þess þörf.

II. Filtsólar og smitleiðir
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8.- 9. júní 2018, telur að herða eigi smitgá milli veiðisvæða. Eðlilegt er að svokallaðir filtsólar verði bannaðir við íslenskar veiðiár. Ljóst er að slíkur útbúnaður hefur í för með sér hættu á smiti á milli vatnasvæða og erlendis frá. Víða erlendis eru slíkir sólar bannaðir og er eðlilegt að svo sé hér einnig. Lagt er til að innan þriggja ára verði notkun þeirra bönnuð.

III. Umhverfi veiðiáa
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8.- 9. júní 2018, hvetur veiðifélög og landeigendur til að huga vel að umhverfi veiðiánna meðal annars með því að hreinsa árbakka og ár af plasti og öðru rusli. Fersk og hrein náttúra eru stór hluti af þeirri ímynd sem veiðimenn eiga að hafa af íslenskum veiðiám.