Ályktanir 2017

  • Post category:Ályktanir

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni, 9. – 10. júní 2017

Ályktanir samþykktar á fundinum

Fjárhagsnefnd

Fjárhagsáætlun LV fyrir árið 2017.

Allsherjarnefnd

Sjókvíaeldi, umhverfisáhrif.

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9 – 10. júní 2017, mótmælir harðlega áformum um risalaxeldi erlendra og innlendra fjárfesta á norskum ógeltum laxi í opnum sjókvíum hér við land. Aðalfundurinn telur að þessi áform stefni óspilltum stofnum villtra laxafiska í voða og séu í raun aðför að viðkvæmri náttúru Íslands. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld stefni að því að einungis verði leyft sjálfbært eldi í lokuðum sjókvíum eða kerjum á landi þannig að eldið skaði ekki umhverfið. Fundurinn bendir á að tugþúsundir eldisfiska hafi sloppið undanfarið ár og gengið
upp í ár, jafnvel fjarri eldisstöðvunum. Það er því aðeins tímaspursmál þar til erfðamengun mun mælast í íslenskum laxastofnum. Fundurinn bendir á nýtt álit Erfðanefndar landbúnaðarins þar sem lagt er til að stöðvuð verði frekari útgáfa leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þar á meðal þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli. Úrgangur frá 10.000 tonna laxeldi jafnist á við skolpfrárennsli frá meir en 150.000 manna borg. Það ógnar lífríkinu á stórum svæðum umhverfis kvíarnar með óafturkræfum afleiðingum fyrir fuglalíf og uppeldisstöðvar sjávar- og vatnafiska. Reynsla Norðmanna af laxeldi í sjókvíum hefur leitt í ljós endalausa baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun við villta laxastofna og lúsafaraldur sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika. Sömu aðstæður hafa komið upp við Íslandsstrendur þar sem slátra hefur þurft hundruðum þúsunda fiska. Allar fullyrðingar um að ekki mundi koma upp lúsasýkingar í eldinu hafa reynst rangar. Vegna umfangs sýkinganna hafa verði veitt leyfi
til losunar lúsaeiturs í eldiskvíar á Arnarfirði. Slíkt eitur hefur alvarleg áhrif á annað lífríki Fundurinn bendir á að norskum laxeldisfyrirtækjunum hafa verið afhent verðmæt
strandsvæði endurgjaldslaust til starfseminnar hér við land og vekur athygli á að í Noregi verða fyrirtækin að greiða háar fjárupphæðir fyrir útgefin starfsleyfi og nýtingu sjávar til
eldisins. Þetta gerist á sama tíma og allt regluverk er veikt hér á landi og eftirlitsstofnanir eru fjársveltar til að takast á við þetta risaverkefni.

Áhættumat vegna sjókvíaeldis á Íslandi

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9.-10. júní, 2017, lýsir ánægju með að ákveðið hafi verið að framkvæma áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland, en Ísland er fyrsta landið sem framkvæmir slíkt mat og önnur lönd hafa ákveðið að fylgja í kjölfarið. Fundurinn leggur áherslu á að ákvarðanir og stefnumótun stjórnvalda um fiskeldi byggi á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum.

Laxeldi í sjókvíum – félagasamtök og fjölmiðlaumræða

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9.-10. júní, 2017, fagnar málefnalegri umræðu í fjölmiðlum sem hefur verið áberandi að
undanförnu um laxeldi í opnum kvíum og hvetur alla sem starfa að umhverfisvernd að taka þátt í að forða náttúruslysi sem opið sjókvíaeldi mun valda. Þar gegna umhverfissamtök í
landinu og Bændasamtökin stóru hlutverki. Fundurinn fagnar mikilvægu starfi NASF til að vernda villta laxastofna og þeim mikla árangri sem það hefur skilað, einnig stofnun
félagsins, Laxinn lifir, sem styrkir enn frekar baráttuna. Brýnt er að félagasamtök og einstaklingar, sem beita sér í þágu verndar vatnafiska, haldi áfram að starfa þétt saman og
mun Landssamband veiðifélaga leggja áherslu á það í störfum sínum.

Málefnanefnd

Fiskræktarsjóður

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9– 10. júní 2017, felur stjórn LV að vinna að því að fá lögum um Fiskræktarsjóð breytt þannig að felld verði niður álagning árgjalda á veiðifélög sem renni til sjóðsins. Fundurinn leggur áherslu á að nefnd Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, um breytingar á lögum um Fiskræktarsjóð, ljúki störfum áður en Alþingi kemur saman næsta haust.

Umhverfisnefnd

Umhverfisslys í/við veiðivötn

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9.-10.júní 2017, harmar það umhverfisslys sem varð þegar tug þúsundum tonna af aur var hleypt niður farveg Andakílsár. Ljóst er að þetta mun hafa mjög alvarleg áhrif á lífríki árinnar. Seiði hafa drepist í stórum stíl og óvíst er um hvort hrygning verði möguleg í ár eða hvenær lífríkið nær sér að fullu. Fundurinn átelur vinnubrögð Orku náttúrunnar og það virðingaleysi sem fyrirtækið sýndi lífríkinu með háttsemi sinni. Því miður er þetta ekki eina dæmið um neikvæð áhrif virkjana á umhverfi og fiskistofna þeirra áa sem hafa verið virkjaðar. Mikilvægt er að þessi áhrif verði kortlögð og rannsökuð til hlítar. Fyrirtækjunum verði svo settar mjög strangar skorður í umgengi þeirra við lífríkið. Virkjanir sem hafa veruleg áhrif á náttúruna verði skylt að endurnýja starfsleyfi sitt reglulega.

Umhverfi veiðivatna

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9 – 10. júní 2017, hvetur veiðifélög og landeigendur til að huga að umhverfi sinna vatnasvæða. Mikilvægt er að fjarlægja plast og annað rusl úr umhverfi áa og vatna. Veiðimenn koma til að upplifa ósnortna náttúru og hreint umhverfi. Fundurinn hvetur sveitarfélög landsins til að fara að lögum um frárennslismál.