Ályktanir 2016

  • Post category:Ályktanir

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga Bifröst, Borgarfirði, 10. – 11. júní 2016
Ályktanir samþykktar á fundinum

Fjárhagsnefnd

Fjárhagsáætlun LV fyrir árið 2016

Allsherjarnefnd

Veitt og sleppt

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Bifröst, Borgarfirði dagana 10. – 11. júní 2016, beinir því til stjórnar Landsambands veiðifélaga að sambandið beiti sér fyrir rannsóknum á áhrifum „veiða og sleppa“ aðferðarinnar á veiðitölur og að slíkar rannsóknir fari fram í ám þar sem fiskteljarar eru til staðar til að fá samanburð á veiðinni og því magni sem gengur í árnar.
Greinargerð:
Sleppingar í laxveiði (veitt og sleppt) eru orðnar mjög algengar. Árið 2014 var helmingi laxveiðinnar sleppt í ám sem byggja á sjálfbærri nýtingu og í einstaka ám er flestum löxum sleppt. Talið er að um þriðjungur slepptra laxa veiðist aftur og því gefa veiðitölur mjög skekkta mynd af stofnstærð laxa sem sem gengur í ár þar sem mjög miklu er sleppt. Einnig er mikilvægt að vanda til skráningar á laxi þ.m.t. þeim fiski sem sleppt er. Veiðin í ánum er gjarnan lögð til grundvallar við verðmætamat á þeim og í vísindalegum rannsóknum sem mat á stofnstærð og hrygningarstofni.

Málefnanefnd

Veiðimálastofnun

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Bifröst, Borgarfirði dagana 10. – 11. júní 2016, fagnar nýrri rannsóknarstofnun, Hafrannsóknarstofnun rannsókna- og ráðgjafastofnunar hafs og vatna. Jafnframt skorar fundurinn á nýja stofnun að nýta þetta tækifæri til að efla enn frekar rannsóknir á laxfiskum, bæði í ferskvatni og í sjó. Þá óskar fundurinn, Sigurði Guðjónssyni, nýjum forstjóra Hafrannsóknastofnunar og starfsmönnum öllum, velfarnaðar í starfi.

Tillaga um lækkun kostnaðar við arðskrármat

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Bifröst, Borgarfirði dagana 10. – 11. júní 2016, leggur til að stjórn LV haldi áfram þeirri vinnu, sem hafin er, til að einfalda arðskrárgerð veiðifélaga svo lækka megi kostnað við gerð þeirra. Fundurinn leggur til að haldinn verði formannafundur LV í haust þar sem þetta mál verði tekið fyrir.

Lífríki og veiðinýtin í ám í Landbroti

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga haldinn á Bifröst 10.-11. júní 2016 skorar á stjórnvöld að finna leiðir til að koma í veg fyrir að athafnir eða athafnaleysi opinberra aðila valdi vatnsskorti og stórkostlegum skaða á lífríki og veiðinýtingu í ám í Landbroti.
Greinargerð:
Ár og lækir í Landbroti, Eldvatn, Tungulækur og Grenlækur eiga að mestu upptök sín í lindum sem koma undan hraunum. Um er að ræða grunnvatn og vatn úr Skaftá sem síast niður í gegnum hraun. Á síðustu áratugum hafa verið byggðir garðar til að stýra vatnsrennsli Skaftár. Eins og gerist þegar gripið er inn í framgang vatns með miklum framburði leiða veitingar vatns til þess að síðar þarf að breyta og viðahalda mannvirkjum. Slíkt á ekki síst við á landsvæði sem er í mikilli og hraðri mótun. Lífríki lindarlækjanna er sérstakt og eru þeir á náttúruminjaskrá. Í þeim eru stórir stofnar sjóbirtings og sjóbleikju sem eru eftirsóttir til veiða og hafa skilað veiðiréttarhöfum umtalsverðum tekjum. Í Evrópu á sjóbirtingur víða undir högg að sækja vegna ágangs af mannavöldum og talinn er sérstök ástæða að gefa stofnum hans og sérstakan gaum. Tungulækur og Grenlækur eru nú alveg þurrir á efri svæðum. Þar hefur hrygning farið forgörðum og árgangar seiða skerst verulega. Eftir stendur sá hluti stofnsins sem var á neðstu svæðum og fullorðnir fiskar á leið til sjávar. Sambærileg þornun varð 1998 og voru sjóbirtingsstofnarnir ekki búnir að ná sér að fullu eftir það áfall. Vitað var að stefnt gæti í vatnsleysi nú í vor og við því hafði verið varað af veiðiréttarhöfum og Veiðimálastofnun en án þess að gripið væri til mótvægisaðgerða. Það er afar sérstakt að á landsvæði þar sem byggð á undir högg að sækja skuli ár verða vatnslausar, lífríki skaðast, fiskstofnar minnka og afkoma veiðiréttarhafa skerðast verulega eða tapast vegna ráða- og skeytingaleysis opinberra aðila.

Umhverfisnefnd

Sjókvíaeldi, umhverfisáhrif.

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Bifröst, Borgarfirði dagana 10. – 11. júní 2016, lýsir þungum áhyggjum af og mótmælir stórfelldum áformum erlendra og innlendra fjárfesta um eldi á norskum laxi í sjókvíum hér við land. Aðalfundurinn telur að þessi áform stefni óspilltum stofnum villtra laxa í voða og séu í raun aðför að viðkvæmri náttúru Íslands. Sjókvíaeldi á norskum laxi er gróft brot á samkomulagi veiðiréttareigenda, eldisaðila og stangveiðimanna frá 1988 um að eldislax af erlendan uppruna skuli aldrei ala í sjókvíum við Ísland. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að úrgangur frá 10.000 tonna laxeldi jafnist á við
skolpfrárennsli frá 150.000 manna borg. Það ógnar lífríkinu á stórum svæðum umhverfis kvíarnar með óafturkræfum afleiðingum fyrir fuglalíf og uppeldisstöðvar sjávar- og vatnafiska. Reynsla Norðmanna af laxeldi í sjókvíum hefur leitt í ljós endalausa baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun í villtan laxastofn og lúsafaraldur sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika. Sjókvíaeldi á kynbættum norskum eldislaxi er óafturkræf ógn við íslenska laxastofninn, ef risaáform í sjókvíaeldi ganga eftir. Þá bera fiskeldisfyrirtæki enga ábyrgð af eignaspjöllum og skaðvænlegum áhrifum á umhverfið. Fundurinn krefst þess að í lögum
verði fyrirtækjunum gert skylta að kaupa umhverfistryggingar, sem bæta tjón sem af gæti hlotist. Fundurinn lýsir furðu sinn á að laxeldisfyrirtækjunum eru afhent verðmæt strandsvæði endurgjaldslaust til starfseminnar utan netlaga og vekur athygli á veikburða eftirlit stofnana sem veitir hvorki aðhald með virku eftirliti né skyldar fiskeldisfyrirtækin til ábyrgðar. Fundurinn bendir á að í Noregi verða fyrirtækin að greiða háar fjárupphæðir fyrir útgefin starfsleyfi og nýtingu sjávar til eldisins. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld færi þessi mál til betri vegar og verði sjókvíaeldi leyft verði leyfin takmörkuð við geldlax og eldið verði staðsett fjarri silungs- og laxveiðiám.