Ályktanir 2014

  • Post category:Ályktanir

Aðalfundur LV 13. – 14. júní 2014

Ályktanir samþykktar á fundinum.

I. Fjárhagsnefnd
Fjárhagsáætlun LV fyrir árið 2014 lögð fram og samþykkt.

II. Allsherjarnefnd
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, lýsir yfir megnri óánægju með að fiskeldisfyrirtæki hafa komist upp með að fara ekki eftir reglugerð um uggaklippingar útsettra eldisseiða eins og mælt er fyrir um í reglugerð.
Fundurinn telur brýnt að allt eftirlit með þessari starfsemi verði tekið til endurskoðunar og settar verði í reglugerð verklagsreglur sem fylgja ber við eftirlitið. Þá bendir fundurinn á að mikla fjármuni þarf til að byggja upp þekkingu og innviði þeirra stofnana sem munu hafa eftirlitið á hendi. Það er ámælisvert að þess sér ekki stað í fjárlögum að sinna eigi þessu mikilvæga verkefni.

III. Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, telur brýnt að heildarendurskoðun laga um fiskeldi verði hafin hið fyrsta. Landssamband veiðifélaga telur að breytingar sem gerðar voru að lögum nr. 71/2008 undir lok þingsins séu með öllu ófullnægjandi. Fundurinn bendir á í því sambandi að ekki er að finna í lögunum bótaákvæði ef strokulax úr laxeldi spillir náttúru eða ímynd stangveiði á Íslandi sem byggir á óspilltri náttúru.
Fundurinn bendir á að Erfðanefnd landbúnaðarins hefur lýst í áliti sínu að norskur eldislax sem notaður er í sjókvíaeldi sé framandi stofn í íslenskri náttúru. Fundurinn krefst þess að einungis verði heimilt að nota geldstofna í sjókvíaeldi við Ísland.

IV. Málefnanefnd
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, leggur áherslu á að við fyrirhugaða sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknarstofnunar verði sérstaða ferskvatnsrannsókna skýrt afmörkuð í lögum sem sérsvið innan sameiginlegrar stofnunnar. Jafnframt telur fundurinn rökrétt að forræði yfir Veiðimálastofnun hafi verið flutt til atvinnuvegaráðuneytisins.

V. Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, mótmælir harðlega hugmyndum um að breyta lögboðnum greiðslum veiðifélaga til Fiskræktarsjóðs með þeim hætti sem áformað er í frumvarpi um markaða tekjustofna ríkissjóðs sem liggur nú fyrir Alþingi. Einnig er óviðunandi að fiskræktarsjóðsgjald verði breytt í almennan tekjustofn ríkissjóðs líkt og ráðgert er.

VI. Umhverfisnefnd
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, þakkar atvinnuvegaráðherra framgöngu við að bæta lagaumhverfi
veiðimála. Mikilvægt er að nú hefur verið sett ný reglugerð um starfsemi veiðifélaga sem bæði auðveldar og skýrir starf þeirra. Fundurinn væntir þess að veiðiréttareigendur eigi áfram gott samstarf við
atvinnuvegaráðurneyti um málefni veiðiréttareigenda sem hingað til.

VII Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, telur að sveitarfélögin skuli áfram sjá um framkvæmd veiða á ref
og mink. Þá leggur fundurinn til að fyrrum embætti Veiðistjóra verði endurvakið og það skipuleggi veiðar og samræmi þannig að sami háttur sé hafður á um land allt.
Greinargerð:
Fundurinn lýsir ánægju með að þessi mál eru komin í skoðun, en þau hafa víða verið í mesta ólestri. Nokkur sveitarfélög greiða einungis fyrir skott sem ráðnir veiðimenn á þeirra vegum framvísa. Jafnframt er hverjum veiðimanni úthlutað ákveðnum kvóta sem hann fær greitt fyrir en aðrir sem ná að fella dýr fá ekkert greitt. Kvóti sá sem úthlutað er hverju sinni er það lítill að óvíst er að það náist að halda stofninum niðri. Önnur sveitarfélög greiða fyrir öll framvísuð minkaskott kr. 3000.- sem er sú upphæð sem gefin er upp af Umhverfisstofnun sem verðlaun fyrir unninn mink. Þá er líka til að sveitarfélög greiði einungis lögskráðum íbúum verðlaun fyrir unnin dýr. Þarna er því mikið misræmi í skipulagningu sveitarfélaganna á þessari starfsemi. Vegna þessa misræmis má búast við að skott af unnum dýrum sé nú framvísað þar sem verðlaun eru greidd og þau séu jafnvel send landshorna á milli. Lagt er til að greidd verði verðlaun fyrir öll framvísuð skott jafnt til ráðinna veiðimanna sem annara.
Framlag ríkisins til refa- og minkaveiða þarf tryggja, ásamt því að taka sérstakt tillit til fámennra en landstórra sveitarfélaga. Sú hugmynd að aðskilja refa og minkaveiðar er allrar athygli verð og undir hana er tekið. Minkurinn er innflutt afkastamikið rándýr í náttúru Íslands og á hvergi að eiga friðland. Gildruveiði á mink, sem stunduð er af ráðnum veiðimönnum, hefur gefist vel.

VIII. Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Vogi sveitarsetri á Fellsströnd í Dalasýslu dagana 13. – 14. júní 2014, hvetur sveitarfélög til að beita sér fyrir því að frárennsli sem renni í ár og vötn standist ýtrustu umhverfiskröfur.
Greinargerð:
Á undanförnum árum hafa fréttir af óviðunandi frágangi á frárennsli ítrekað ratað í fjölmiðla bendir það til þess að víða sé pottur brotinn í þessum málum. Þá voru nýlega fréttir um það að náttúru Mývatns gæti verið hætta búin vegna aukins lífræns úrgangs af völdum ferðamanna. Það er því mikilvægt að gerð sé bragabót á þessum málum og ýtrustu kröfum framfylgt til verndar lífríkinu.