Ályktanir 2012

  • Post category:Ályktanir

Ályktanir samþykktar á aðalfundi Landssambands veiðifélaga, sem haldinn var á Húsavík dagana  8. – 9. júní  2012

I 

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012. Lögð var fram fjárhagsáætlun LV fyrir árið 2012. Hún rædd á fundinum og samþykkt.

II    

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, samþykkir að í stað 7. gr. samþykkta LV komi eftirfarandi:  “Aðalfundur LV ákveði árleg félagsgjöld eftir samþykktum gjaldskrárgrunni. Félagsgjöldum skal jafnað á félög eftir gjaldskrá sem byggir á einingum. Grunnurinn uppfærist árlega, en skylt er að heildarendurskoðun fari fram á 8 ára fresti.”  

III

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, átelur háan kostnað, við gerð arðskrár fyrir veiðifélög.

Fundurinn minnir á að sú breyting sem gerð var á lögum um lax- og silungsveiði árið 2006, þegar yfirmatsnefnd var lögð niður, átti að leiða til lægri matskostnaðar fyrir matsbeiðendur.  

Fundurinn telur nýja reglugerð um arðskrá í veiðifélögum spor í rétta átt og ítrekar nauðsyn þess að verkstjórn við matsgerð sé skilvirk og að mat gangi sem greiðast fyrir sig. Jafnframt verði leitað leiða til að einfalda stjórnsýslu í tengslum við matið.  

Fundurinn bendir á að mikill kostnaður við matsgerð getur orðið til þess að það verði smærri veiðifélögum ofviða fjárhagslega að uppfylla þá lagaskyldu að láta matsnefnd meta arðskrá í veiðifélagi.

Jafnframt er því beint til veiðifélaga, að eftir því sem gögn eru betur búin í hendur matsnefndar lækkar það kostnað  við störf matsnefndar.      

IV 

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, lýsir andstöðu sinni við frumvarp umhverfisráðherra, sem nú liggur fyrir Alþingi, til breytinga á lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd.  

Um leið og LV er fylgjandi almennu banni við utanvegaakstri, sem veldur skemmdum á landi, telur fundurinn fráleitt að lögfesta frumvarp sem mun óhjákvæmilega torvelda nýtingu áa og veiðivatna.  

V    

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, bendir á eftirfarandi:

Víða er efnistaka úr eða við veiðiár. Yfirleitt hafa bændur sjálfir sótt um tilskilin leyfi og selt efnið. Þar með er landeigandi flæktur í verkferlið með tilheyrandi ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis.  Æskilegt er að landeigendur geri skriflegan samning við viðkomandi verktaka þar sem kveðið er á um að ábyrgð vegna hugsanlegs tjóns sé verktakans.   

VI

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, lýsir ánægju sinni með að gildruveiðar á makríl skyldu ekki heimilaðar í Gunnólfsvík við Bakkaflóa en við veiðarnar átti að nota veiðitæki sem víðast annars staðar er notað til laxveiða.

Fundurinn minnir á að laxveiðar í sjó hafa verið bannaðar með lögum allt frá árinu 1932 og leggur áherslu á að sú framsýna aðgerð er forsenda þess að laxastofnum hefur ekki hnignað hérlendis eins og víðast hvar annars staðar við Norður- Atlantshaf.

Fundurinn hvetur stjórnvöld til að vera á varðbergi gegn hvers konar áformum sem aukið geta veiði á laxi sem meðafla í sjó.  

VII 

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, lýsir andstöðu sinni gegn því að veitt verði leyfi til sjókvíaeldis í Ísafjarðadjúpi á allt að 7000 tonnum af laxi af norskum uppruna, enda falla þar til sjávar gjöfulustu ár Vestfjarða.

Fundurinn telur ákvörðun Skipulagsstofnunar um að undanþiggja eldið mati á umhverfisáhrifum fráleita þar sem ekki er tekið tillit til þeirra óafturkræfu áhrifa sem eldið kann að hafa á laxastofna í nærliggjandi ám.  Ennfremur áréttar fundurinn andstöðu sína við eldi á norskum laxi við strendur landsins.

Fundurinn minnir á að sjókvíaeldi á Íslandi er ekki atvinnugrein sem hægt er að byggja á og vísar til sögunnar í því sambandi.  

Fundurinn telur ekki verjandi að leggja óspilltar náttúrauðlindir í íslenskum laxveiðiám að veði í þeirri tilraunastarfsemi sem nú er rekin áfram af laxeldismönnum af því óraunsæi sem sagan kennir.  Þá leggur fundurinn áherslu á nauðsyn þess að mótuð verði heildarstefna fyrir sjókvíaeldi á þeim svæðum, þar sem það er nú ekki bannað, sbr. auglýsingu nr. 460/2004 þar sem þeirra sjónarmiða verði gætt að spilla ekki náttúrulegum laxastofnum.       

VIII 

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, gagnrýnir þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við breytingar á stjórnarráði Íslands.  Engar upplýsingar liggja fyrir um hvar eða hvernig stjórnsýslu veiðimála og rannsóknum verður fyrir komið innan stjórnkerfisins eftir þær breytingar á stjórnarráðinu sem samþykktar hafa verið á Alþingi. 

Fundurinn lýsir óánægju með að ekkert samráð er við hagsmunaaðila um þessar breytingar  

Fundurinn leggur til að stjórnsýsla og rannsóknir veiðimála og/eða Veiðimálastofnun verði undir hinu nýja atvinnuvegaráðuneyti.    

IX

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga, haldinn á Húsavík dagana 8. – 9. júní 2012, bendir á eftirfarandi:

Sérstakur starfshópur, sem meðal annars skyldi undirbúa setningu reglugerðar um stöðu og starfshætti deilda innan veiðifélaga, hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði laga nr. 61/2006 um þetta efni, séu ekki nægjanlega skýr til að byggja megi reglugerð á þeim.

Lögfræðingur, sem Landssamband veiðifélaga fékk til að vinna álitsgerð um þessi mál, komst að sömu niðurstöðu. Þarna er því úrbóta þörf.

Aðalfundur LV, haldinn á Húsavík dagana 8. og 9. Júní 2012, telur nauðsynlegt að marka stefnu samtakanna í þessu málum.

Allsherjarnefnd LV hefur fjallað um þessi mál á fundi sínum og mælir með að gerðar verði breytingar á lögum nr. 61/2006 sem meðal annars geri mögulegt að setja reglugerð er tryggt geti eftirtalin atriði: 

Að áfram verði heimild til að veiðifélög starfi í deildum.

Að kveða svo á um að sé félag deildaskipt, þá skuli slík skipting taka til alls félagssvæðisins.

Tryggður verði skýr lagarammi um starfsemi móðurfélaga og deilda innan þeirra, þannig að unnt sé að byggja reglugerð um starfsemi deilda á þeim.