Ályktanir samþykktar á aðalfundi Landssambands veiðifélaga, 10. – 11. júní 2011
I
Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, samþykkir fram komna fjárhagsáætlun með þeirri breytingu að laun formanns verði hækkuð í kr. 50.000 á mánuði.
II
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, samþykkir fram komna tillögu að nýrri gjaldskrá LV til aðildarfélaga.
Jafnframt var samþykkt munnleg tillaga um að á næsta aðalfundi yrði lögð fram breytingartillaga við 7. gr. samþykkta LV um árlega endurskoðun/uppfærslu gjaldskrárinnar.
III
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, vekur athygli á að tjón sem verður á veiði og veiðivötnum vegna náttúruhamfara, svo sem vegna eldgoss, fæst ekki bætt eftir þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa ákveðið. Það er óásættanlegt að sumar atvinnugreinar skuli nú sitja hjá þegar úthlutað er fjármunum úr sameigininlegum sjóðum landsmanna til að mæta stórfelldu tjóni, t.d vegna eldgosa. Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða vinnulag og úthlutunarreglur þannig að allar atvinnugreinar sitji við sama borð þegar samfélagsleg aðstoð er ákveðin.
IV
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, varar við hugmyndum um stórfellt laxeldi, sérstaklega á Vestfjörðum. Fundurinn minnir á að tilraunir til að byggja á laxeldi í sjó hafa hingað til runnið út í sandinn og gríðarlegir fjármunir tapast. Landssamband veiðifélaga leggst enn sem fyrr gegn eldi á norskum laxi í sjókvíum við Ísland. Sú áhætta sem tekin er varðandi smitsjúkdóma og erfðablöndun við villtan íslenskan lax er óásættanleg. Fundurinn skorar á stjórnvöld og stofnanir að gæta várúðar við leyfisveitingu til sjókvíaeldis á norskum laxi við Ísland og láta villta íslenska laxinn njóta vafans. Fundurinn minnir á að í íslenskum laxveiðiám eru fólgin mikil náttúruauðæfi sem ekki má spilla.
V
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, fagnar því að Fiskræktarsjóður hefur með lagabreytingu verið undanþeginn fjármagntekjuskatti. Þessi breyting er forsenda þess að sjóðurinn geti til framtíðar sinnt mikilvægum verkefnum sínum til rannsókna og til að auka verðmæti veiðivatna.
VI
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, skorar á sveitarfélög og ríkisvaldið að leggja fram aukna fjármuni til minkaveiða. Minkurinn er mikill skaðvaldur í lífríkinu og því nauðsynlegt að halda honum í skefjum.
VII
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, heimilar stjórn LV að festa þá fjármuni, sem kunna að fást, verði fasteign félagsins að Bolholti 6 seld, á sem hagkvæmasta hátt fyrir samtökin.
Greinargerð:
Fasteignin að Bolholti 6 er hluti af stærra skrifstofuhúsnæði sem leigt er Kennaraháskóla Íslands. Samningur LV um leigu á skrifstofunni, ásamt samningi eiganda húseignirnar, rennur út árið 2013. Ekki er ljóst hvert framhaldið verður. Á sl. ári barst LV kauptilboð í skrifstofuna sem var það lágt að því var hafnað. Í ljósi óvissu um framhaldið, ásamt því að aðalfundur LV heimilaði stjórn LV að selja skrifstofuna, ef ásættanlegt tilboð fengist, er nauðsynlegt fyrir stjórn að hafa heimild til ráðstöfunar á þeim fjármunum sem fást verði fasteignin seld.
VIII
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, lýsir andstöðu við framkomið frumvarp á Alþingi um stjórnarráð Íslands. Verði frumvarpið samþykkt er Alþingi sniðgengið þegar taka skal ákvarðanir um fjölda ráðuneyta og verkefni þeirra, en forsætisráðherra falið óhóflegt vald í þeim efnum. Sú ráðstöfun gengi þvert á vilja þjóðarinnar um að styrkja Alþingi gegn framkvæmdavaldinu. Þá mun breytingin leiða til óstöðugleika og hringlandaháttar innan stjórnarráðsins þar sem aðhald Alþingis nýtur ekki lengur við en forsætisráðherra getur haft sína hentisemi hverju sinni um skipan ráðuneyta. Aðalfundurinn lýsir yfir stuðningi við núverandi fyrirkomulag þar sem frumframleiðslugreinarnar og þær stofnanir sem þeim tilheyra koma saman í og heyra undir eitt ráðuneyti. Fundurinn leggur áherslu á að boðaðar breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti eru í andstöðu við langflesta hagsmunaaðila.
IX
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, skorar á stjórnvöld að standa vörð um starfsemi Veiðimálastofnunar. Fundurinn hafnar alfarið þeim hugmyndum að leggja stofnunina niður og færa verkefni hennar til umhverfisráðuneytisins og minnir á að núverandi fyrirkomulag hefur gefist vel. Þá bendir fundurinn einnig á að veiðiréttareigendur leggja mikla fjármuni til sameiginlegra sjóða þjóðarinnar. Atvinnugreinin nýtur ekki beins opinbers stuðnings. Í því samhengi er niðurskurði á rannsóknarfé til Veiðimálastofnunar mótmælt.
X
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, lýsir ánægju með þá málamiðlun sem fram kemur í frumvarpi til breytinga á vatnalögum sem nú liggur fyrir Alþingi. Fundurinn telur mikilvægt að í frumvarpinu er ekki hróflað við ákvæðum gildandi laga sem kveða á um vatnsréttindi fasteignaeigenda. Þá leggur fundurinn áherslu á að leyfisveitingar vegna framkvæmda við og í veiðivatni verði með óskoruðum hætti á hendi Fiskistofu eins og verið hefur.
XI
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, hvetur til þess að ákvæði í stjórnarskrá og lögum um eignarrétt á auðlindum verði áfram skýr, og við endurskoðun laga og stjórnarskrár verði fullt tillit tekið til þeirra réttinda sem nú fylgja fasteignum að gildandi rétti. Fundurinn varar við notkun óljósra hugtaka, s.s. „þjóðareign á auðlindum“ sem eru til þess fallin að grafa undan skýrleika laga og skapa þannig ágreining og réttaróvissu í þjóðfélaginu.
XII
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, felur stjórn samtakanna að leita lögskýringa á hvernig ákveða skuli hver fari með atkvæðisrétt jarða í sameign, einkum þann vanda sem skapast ef samkomulag næst ekki milli eigenda.
XIII
Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn að Laugarbakka í Miðfirði, dagana 10. – 11. júní 2011, felur stjórn LV að kanna hvort efni séu til að verklagi matsmanna, samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, verði breytt þannig að þeir nefndarmenn sem hefja matsstörf ljúki því mati, jafnvel þótt skipun nefndarinnar sé breytt meðan á mati stendur.