Ályktanir 2010

  • Post category:Ályktanir

Ályktanir samþykktar á aðalfundi Landssambands veiðifélaga, sem haldinn var í Hlégarði, Mosfellsbæ, 11. – 12. júní  2010

I
Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hlégarði, Mosfellsbæ, dagana 11. – 12. júní 2010, skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því að Alþingi breyti lögum um tekju- og eignarskatt þannig að Fiskræktarsjóður  verði undanþeginn fjármagnstekjuskatti. 


Greinargerð: 
Með nýjum lögum um Fiskræktarsjóð nr. 72/2008 var gerð sú breyting að álagningu á raforkusölu var hætt  en sjóðnum bætt það upp með eingreiðslu sem vera skyldi ígildi þeirra tekna sem sjóðurinn hafði af raforkugjaldinu.  Stórhækkun á fjármagnstekjuskatti, þar sem verðbætur eru skattlagðar jafnt og vextir, gera það að verkum að tekjugrundvöllur sjóðsins er hruninn.  Því er ljóst að skattlagning vaxtatekna og verðbótaþáttar þess fjár sem Fiskræktarsjóður ávaxtar, lögum samkvæmt, samrýmist ekki ákvæðum laganna um að sjóðurinn skuli vera ámóta vel settur og fyrir lagabreytinguna. Því er nauðsynlegt að lögum um Fiskræktarsjóð verði breytt og Fiskræktarsjóður undanþeginn fjármagnstekjuskatti líkt og aðrir opinberir sjóðir s.s. Byggðastofnun, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Lánasjóður íslenskra námsmanna.   

II

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hlégarði, Mosfellsbæ, dagana 11. – 12. júní 2010, fagnar breytingum landbúnaðarráðherra á reglugerð um veiðar á makríl, þar sem  sett er bann við veiði á makríl í net.  Fundurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að staðið verði vörð um bann við laxveiði í sjó.  Fundurinn hvetur ráðherra til að hvika ekki frá þessu banni í framtíðinni.   

III

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hlégarði, Mosfellsbæ, dagana 11. – 12. júní 2010, mótmælir harðlega framkomnu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráði Íslands hvað varðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. 

Aðalfundurinn minnir á fyrirheit gefin í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um samráð við hagsmunaaðila um fyrirhugaðar breytingar.  Fundurinn skorar á ríkisstjórn að efna þau loforð og varar jafnframt við flausturslegum vinnubrögðum í þessu sambandi. Fundurinn bendir á að skammt er um liðið síðan sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð.  Þá var haft samráð við þá atvinnuvegi sem hlut eiga að máli.  

Fundurinn lýsir sig algjörlega andvígan fyrirhuguðum áformum um að sett verði á fót  sérstakt auðlindaráðuneyti, og mótmælir því að færa verkefni Veiðimálastofnunar frá fagráðuneyti til auðlinda- og umhverfisráðuneytis.   


IV

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn að Hlégarði, Mosfellsbæ, dagana 11. – 12. júní 2010, mótmælir fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um afnám vatnalaga frá 2006. Fundurinn telur þær hugmyndir sem iðnaðarráherra viðraði á Alþingi um nýja löggjöf beinast gegn viðurkenndum eignarrétti landeigenda á vatni.   Fundurinn skorar á Alþingi að virða stjórnarskrárbundinn eignarétt á vatni, eins og dómstólar landsins hafa mótað hann á grundvelli vatnalaganna frá 1923. 

V

Aðalfundur Landssambands Veiðifélaga, haldinn í Mosfellsbæ 11. og 12. júní 2010, hvetur stjórn samtakanna til að vinna að eftirtöldum breytingum á gildandi lögum um lax- og silungsveiði svo fljót sem færi gefst á.

1. Varðandi innlausnarrétt á þeim veiðihlunnindum, sem skilin hafa verið frá fasteign.  

a)  Fella niður þann tímafrest, sem nú gildir um innlausnarheimildina. 

b)  Leitast við að einfalda innlausnarferlið eftir því sem kostur er á.

2.  Einnig verði skoðað og lagfært hvað annað, sem betur mætti fara í lögum þessum og yrði veiðiréttareigendum til hagsbóta.   

VI

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga,  haldinn í Mosfellsbæ 11. og 12. júní 2010,

beinir því til stjórnar að teknar verði saman upplýsingar um áhrif þurrka og snjóleysis á lífríki ferskvatnsfiska.   

VII

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga,  haldinn í Mosfellsbæ 11. og 12. júní 2010, beinir því til stjórnar að beita sér fyrir skoðun á lögum um lax- og silungsveiði nr. 61 frá 14 júní 2006, hvað varðar skipun í matsnefnd og meðferðar arðskrármála fyrir dómstólum.    

VIII

Aðalfundur LV, haldinn í Hlégarði 11. – 12. júní 2010 samþykkir, í samræmi við 7 gr. samþykkta LV, að kjósa 3ja manna nefnd til að endurskoða grunneinigarnar sem árgjaldið byggir á. Nefndin skal skila tillögum sínum til stjórnar LV í febrúar 2011, sem síðan fjallar um þær og leggur fyrir aðalfund LV 2011.

Miðað skal við að árgjald veiðifélaga til LV fyrir árið 2011 byggi á tillögu aðalfundar það ár.     

Fundurinn tilnefndi eftirtalda í nefndina:

Einar Oli Petersen, formaður

Elín Líndal

Þorgils Torfi Jónsson