Ályktanir 2006

  • Post category:Ályktanir

Tillögur samþykktar á aðalfundi LV að Laugum í Sælingsdal 10 júní 2006

Lög um lax- og silungsveiði

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga haldinn að Laugum í Dalasýslu 9. – 10. júní 2006 fagnar því að samþykkt hafa verið ný og heilstæð lög um lax og silungsveiði.  Fundurinn þakkar landbúnaðarráðherra öfluga forystu við að koma þessari lagasetningu á.  Nefndarmenn sem að verkinu unnu, svo og landbúnaðarnefnd Alþingis fá þakkir fyrir fagleg  og góð vinnubrögð.  

Fundurinn vekur athygli á hvernig var staðið að lagasmíðinni og hve góðan aðgang almenningur og hagsmunaaðilar áttu að gerð frumvarpsins, m.a. hvernig frumvarpsdrögin voru kynnt á vefnum þar sem hægt var að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri.

Fiskræktarsjóður

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga haldinn að Laugum í Dalasýslu 9. – 10. júní 2006

harmar að ekki tókst að samþykkja ný lög um fiskræktarsjóð á liðnu vori.  Fundurinn skorar á ríkisstjórn og Alþingi að ráða bót á því strax næsta haust.  Með lagasetningunni þarf að tryggja fiskræktarsjóði fjármagn þannig að hann geti gengt hlutverki sínu.  Fundurinn telur eðlilegt að vatnsaflsvirkjunum sé með lögum gert að greiða verulegt fjármagn inn í fiskræktarsjóð, enda er vatnið undirstaða orkuöflunar og fiskræktar í landinu.  Virkjanir hafa víða veruleg áhrif á lífríkið og því eðlilegt að þeim sé gert að greiða gjald til eflingar rannsókna og fiskræktar í ám og vötnum.

Veiðimálastofnun

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga haldinn daganna 9-10. júní að Laugum í  Dalasýslu skorar á Landbúnaðaráðherra og Alþingi að tryggja Veiðimálastofnun nauðsynlegt fé til að gegna hlutverki sínu með sóma.  Veiðinýting í ám og vötnum er vaxandi atvinnugrein í sveitum landsins og ljóst að Veiðimálastofnun gegnir mjög mikilvægu hlutverki við að tryggja góða stöðu fiskstofnanna og veita leiðsögn til veiðifélaga um nýtingu og ræktun veiðivatna.  Eftir fjársvelti undanfarinna ára þarf nú augljóslega stóraukið fé til rekstursins.

Til veiðifélaga

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga haldinn að Laugum í Sælingsdal 9. – 10. júní 2006 hvetur veiðifélög í landinu að kynna sér ný lög um lax og silungsveiði.  Veiðifélög fá með þessari lagasetningu aukin verkefni og auknar skyldur.  Með tilliti til þess þurfa veiðifélög að endurskoða sínar samþykktir innan árs frá gildistöku laganna og fá þær staðfestar af landbúnaðarstofnun.  Þá þarf að setja árlega fram fjárhagsáætlun og gera nýtingaráætlun fyrir hvert veiðisvæði.

Skráning og úrvinnsla á veiðitölum

Aðalfundur Landsambands veiðifélaga haldinn að Laugum í Sælingsdal 9.-10. júní 2006 beinir þeim eindregnu tilmælum til Landbúnaðarstofnunar að Veiðimálastofnun verði áfram falin söfnun, úrvinnsla og greining veiðitalna hér á landi líkt og stofnunin hefur gert um 60 ára skeið. Skráning veiði er einn af hornsteinum nýtingar fiskstofna í ám og vötnum. Veiðitölur eru nýttar til þess að safna líffræðilegum upplýsingum um fiskstofna, ástand þeirra og við mat á árangri fiskræktaraðgerða.   Tryggja þarf áframhaldandi samninga um framkvæmd og fjármögnun þess verks.

Greinargerð:

Skráning veiði hér á landi er með því albesta sem þekkist hjá laxveiðiþjóðum. 

Þótt skráning veiði sé lögformlega á hendi Landbúnaðarstofnunar (áður embættis veiðimálastjóra frá 1997) hefur Veiðimálastofnun sinnt því verki með samningi við embættið ásamt því að miðla upplýsingum til annarra. Gagnagrunnur um veiði er til fyrir margar ár frá 1946 og á rafrænu formi fyrir flestar ár frá 1974. Þar er því til staðar þekking og reynsla auk þess sem líffræðilegar upplýsingar veiðitalna eru afar mikilvægar stofnuninni til að leggja mat á stöðu fiskstofna og við ráðleggingar til veiðiréttarhafa og stjórnvalda á sviðum nýtingar, fiskræktar og verndunar. Mikilvægt er að samningar náist milli hinnar nýju Landbúnaðarstofnunar og Veiðimálastofnunar til að tryggja að skráning og miðlun upplýsinga verði áfram með sambærilegu sniði og verið hefur hingað til og að nauðsynlegir fjármunir fáist til þess verks.

Losun á sjóballest  

Aðalfundur Landsambands Veiðifélaga haldinn að Laugum í Sælingsdal 9. – 10. júní 2006 skorar á Siglingamálastofnun og Fisksjúkdómanefnd að gera könnun á því hvort alþjóðlegum reglum er fylgt varðandi losun á “sjóballest” skipa sem koma til landsins.

Ennfremur taka sýni til rannsókna úr því vatni, sem skipin eru að losa í höfnum landsins.  Með sívaxandi skipaflutningum milli heimsálfa eykst hættan á að smitsjúkdómar og önnur mengun berist í lífríki ferskvatns á Íslandi.