Aðalfundur LV 2022

  • Post category:Fréttir

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga var haldinn á Mývatni 3.-4. júní. Um var að ræða fyrsta hefðbundna aðalfund sambandsins síðan 2019 þar sem fundir síðustu tvö ár voru takmarkaðir vegna samkomutakmarkana.

Fundurinn gekk vel og skemmtu fundarmenn sér saman að kvöldi föstudags.  Tekið var á fjölmörgum málefnum á fundinum og ber þar helst að nefna eftirfarandi.

Árni Snæbjörnsson var gerður að heiðursfélaga í virðingar- og þakklætisskyni fyrir farsælt og óeigingjarnt starf í þágu sambandsins.

Jón Helgi Björnsson, formaður, fór yfir starfsemi LV á árinu og voru málefni sjókvíaeldis, og sú ógn sem villtum stofnum og lífríkinu stafar af því, fyrirferðarmikil í ræðu hans. Aðalfundurinn samþykkti einnig afdráttarlausa ályktun um þau mál þar sem farið var fram á að stjórnvöld geri tímasetta áætlun um að hverfa að fullu frá sjókvíaeldi.

Jón Kaldal, hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum, fjallaði um baráttuna gegn sjókvíaeldi.

Þorsteinn Sigurðsson og Guðni Guðbergsson, hjá Hafrannsóknastofnun, héldu erindi og skapaðist mikil og góð umræða um efni þeirra í kjölfarið.

Fundurinn samþykkti umsókn eiganda Haffjarðarár um aðild að sambandinu.

Fundurinn samþykkti tillögur gjaldskrárnefndar LV um nýjan gjaldskrárgrunn.

Ólafur Þór Þórarinsson, fulltrúi Sunnlendinga, var endurkjörinn í stjórn sambandsins. Þá var Þorsteinn B. Helgason, frá Veiðifélagi Miðfirðinga, kjörinn í stjórn sem fulltrúi Norðlendinga en Jón Benediktsson gaf ekki kost á sér en hann á að baki níu ára stjórnarsetu. Aðalfundur og stjórn LV þakkar Jóni fyrir sitt framlag og býður Þorstein velkominn til starfa.

Aðildarfélög munu fá senda fundargerð og nánari upplýsingar um það sem fram fór á fundinum á næstu dögum.