Veiðitölur

 

 

Til veiðifélaga

 

Reykjavík, 20. desember 2006

Ágæti formaður

 

Hinn 1. júlí sl. tóku gildi ný lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006. Þau má finna hér á vef LV.

 

Í bráðabirgðaákvæði með lögunum er kveðið á um  að samþykktum einstakra veiðifélaga skuli breytt til samræmis við fyrirmæli og reglur laganna, í síðasta lagi innan árs frá gildistöku þeirra.

 

Nú hefur landbúnaðarráðherra sett reglugerð um starfsemi veiðifélaga sem við sendum sérprentað með fréttabréfi LV.

 

Stjórn LV hvetur forystu veiðifélaga til að huga að endurskoðun samþykkta veiðifélaga fyrir komandi aðalfundi.

Við vekjum sérstaka athygli á að með reglugerðinni fylgir fyrirmynd að samþykktum veiðifélags, þar sem kveðið er á um þau atriði sem skylt er að hafa í samþykktum.

Reglugerðina og fyrirmynd að samþykktum veiðifélags er að finna á vefsíðu LV.  Þar er hægt að sækja skjalið, fyrirmynd að samþykktum veiðifélags, í word útgáfu og laga það og breyta að þörfum þíns veiðifélags.  Með þessu sparast mikil vinna við að rita upp allt skjalið.

 

Áhersla er lögð á að nýjar samþykktir veiðifélagsins þurfa að berast Landbúnaðarstofnun til afgreiðslu fyrir 1. júlí 2007.

 

Nýju lögin hafa nokkrar breytingar í för með sér á atkvæðisrétti í veiðifélögum sem vert er að hafa í huga.

Gera þarf nýja atkvæðaskrá sem þar sem 1 atkvæði kemur fyrir hverja jörð sem skráð var sem lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976.

Þá þarf einnig að liggja fyrir atkvæðaskrá sömu félagsmanna sem sýnir einingar þeirra í arðskrá ef grípa skal til atkvæðagreiðslu á grundvelli 7. málsgr. 40. gr. laganna um sérstök fjárútlát til framkvæmda sem skulu nema a.m.k. 25% af árstekjum félagsins. Sérstök athygli er vakin á að atkvæðagreiðsla skv. þessu ákvæði breytir engu um atkvæðisrétt í veiðifélaginu, sem er eftir sem áður bundin við eigendur eða umráðamenn lögbýla sem skráð voru 1976 eins og fyrr segir.

 

Breyttar reglur eru um boðun funda í veiðifélagi sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Í þeim efnum er nokkur sveigjanleiki fyrir félögin að setja eigin reglur um boðun aukafunda í félagi.

 

Skrifstofa LV veitir að sjálfsögðu frekari upplýsingar og aðstoð eftir því sem óskað er.

 

Með bestu kveðjum,

f.h. stjórnar LV

 

Óðinn Sigþórsson,

formaður LV