Veiðitölur

 

Samþykkt Landssambands veiðifélaga

                                                 

                                                                  1. grein

                                                                                                                                   

       Sambandið heitir “Landssamband veiðifélaga” og starfar á grundvelli laga um lax- og silungsveiði. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns.

 

                                                                  2. grein

      Markmið sambandsins er að koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart hinu opinbera, efla starfsemi veiðifélaga og auka samstarf þeirra, stuðla að bættri stjórn veiðimála, auka þekkingu á málefnum veiðifélaga og sinna þeim málum öðrum, sem veiðieigendum mega vera til hagsbóta.

 

                                                                  3. grein

      Aðilar að sambandinu eru öll veiðifélög í landinu, sem stofnuð eru og starfa á grundvelli gildandi laga um lax- og silungsveiði.

 

                                                                  4. grein

      Sambandið heldur aðalfund í júnímánuði ár hvert. Skal boðað til hans skriflega eða með símskeytum með minnst mánaðar fyrirvara. Fundurinn er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

      Kynnt skulu í fundarboði mál þau er fyrir liggja, enda er sambandsfélögum skylt að senda stjórn sambandsins tillögur þær, er þau óska að ræddar séu á aðalfundum, eigi síðan en 1. maí.

 

                                                                  5. grein

      Hvert veiðifélag hefir rétt til að senda einn fulltrúa á fundi sambandsins fyrir hverja 40 félaga eða færri og einn fyrir brot af þeirri tölu, sem umfram er. Hefur hver fulltrúi eitt atkvæði á fundum. Hvert aðildarfélag ber sjálft kostnað af fundarsetu sinna fulltrúa. Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema um breytingar á samþykktum. (Sjá 12. grein)

 

                                                                  6. grein

      Á aðalfundi sambandsins skal stjórn þess gefa skýrslu um starfsemi liðins árs, leggja fram endurskoðaða reikninga, svo og fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár, og láta kjósa stjórn og skoðunarmenn reikninga samkvæmt 9. gr.

 

                                                                  7. grein

 Aðalfundur LV ákveði árleg félagsgjöld eftir samþykktum gjaldskrárgrunni. Félagsgjöldum skal jafnað á félög eftir gjaldskrá sem byggir á einingum. Grunnurinn uppfærist árlega, en skylt er að heildarendurskoðun fari fram á 8 ára fresti.  

 

                                                                  8. grein

      Árgjöld og aðrar tekjur, sem sambandið kann að hafa, skulu renna í sjóð þess, og skal honum varið til að greiða kostnað við störf sambandsins og framkvæmdir. Um greiðslur úr honum fer að öðru leyti eftir settum reglum á hverjum tíma.

      Veiðifélög, sem lögð eru niður, eiga ekki tilkall til neins hluta af sjóði þess, enda getur sambandið ekki skuldbundið einstök félög með öðru en þeim gjöldum, sem um getur í 7. gr.

 

                                                                  9. grein

      Stjórn sambandsins skipa 5 menn kosnir á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er 3 ár, og skulu þeir ganga úr til skiptis, sitt árið hverjir tveir og formaður þriðja árið. Formaður er þannig kosinn sérstaklega, en hinir 4 skulu vera sinn úr hverjum landsfjórðungi, svo og varamenn þeirra. Ræður þar félagsaðild en ekki búseta.

      Heimilt er að bera fram tilnefningar við stjórnarkjör. Komi aðeins fram tilnefningar um jafnmarga menn og kjósa skal úr einstökum fjórðungum eru þeir sjálfkjörnir. Sama á við um formannskjör.

      Ef til kosninga kemur og enginn tilnefndra manna fær hreinan meirihluta í fyrstu lotu, skal kjósa aftur milli þeirra tveggja, sem flest atkvæði fengu úr viðkomandi landsfjórðungi. Sami háttur skal viðhafður við formannskjör, eftir því sem við á. Fjórðungar þeir, sem um ræðir í grein þessari afmarkast sem hér segir:

      1. Suðurland:  Frá Skeiðará að Gullbringusýslu.

      2. Vesturland: Frá Gullbringusýslu að Hrútafjarðará.

      3. Norðurland: Frá og með Hrútafjarðará að Langanesi.

      4. Austurland: Frá Langanesi að Skeiðará.

      Stjórnin kýs varaformann úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Aðalfundur kýs 2 skoðunarmenn reikninga og tvo til vara, kosning þeirra gildir um tvö ár og ganga þeir úr sitt árið hvor.

 

                                                                  10. grein

      Formaður kveður til stjórnarfunda, er þörf krefur eða meðstjórnendur óska þess, enda geri þeir grein fyrir fundarefni. Geti aðalmaður ekki sótt fund skal kveðja varamann í hans stað. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

 

                                                                  11. grein

      Stjórnin hefir á hendi allar framkvæmdir milli aðalfunda og kemur fram fyrir hönd sambandsins. Stjórnin kveður einnig til aukafunda þegar hún telur þeirra þörf, eða þegar 1/3 sambandsfulltrúa æskja þess, enda geri þeir áður grein fyrir fundarefni.

 

                                                                  12. grein

      Lagabreytingar má aðeins gera á aðalfundi og ná þær samþykki, ef 2/3 hlutar mættra fulltrúa greiða þeim atkvæði.

 

                                                                  13. grein

      Verði sambandið lagt niður, ráðstafar síðasti aðalfundur eigum þess.

 

     

Þannig samþykkt á aðalfundi 2012.

Þ.e. 7. gr. er breytt/ný – annað óbreytt.