Veiðitölur

 HREISTURSÝNI

 

Spurningar og svör

 

 

Hvað er hægt að sjá í hreistri?

Með því að rannsaka hreistur laxfiska er hægt að lesa aldur þeirra. Hægt er að sjá þann fjölda ára sem fiskurinn dvaldi í ferskvatni og þann fjölda ára sem fiskurinn dvaldi í sjó, ef um sjógenginn fisk er að ræða. Einnig er oft hægt að sjá hvort fiskurinn hefur hrygnt áður og þá hve oft. Einnig er hægt að bakreikna með mælingum og finna út hvað fiskurinn var stór sem gönguseiði.

 

Er hægt að greina í sundur uppruna fiska eldi eða náttúrulegt?

Já, oft er hægt að sjá í hreistrinu hvort fiskur er af eldisuppruna, hvort sem er fiskur úr sleppingum eða eldi.

 

 

 

Til hvers er verið að safna hreistri?

Markmið hreistursöfnunar frá fiskifræðilegu sjónarmiði er að fá sem gleggstar og réttastar upplýsingar um aldurssamsetningu fiskstofns. Slíkar upplýsingar eru m.a mikilvægar til að meta nýliðun stofnsins, til að sjá hve margir seiðaárgangar standa undir veiðinni hverju sinni og hve vel einstaklingar skila sér í veiði. Einnig er mikilvægt að geta séð hvort einhver breyting verður á aldurssamsetningu stofnsins milli ára og þá hvort tengja megi hana breytingum á umhverfisþáttum. Í laxveiðiám er oftast hægt að fá slíkar upplýsingar með vel skipulagðri sýnatöku. Hreistursöfnun er fremur einföld og ódýr rannsókn og gefur oft mikilvægar upplýsingar um fiskstofn, ekki síst með öðrum fiskifræðilegum rannsóknum.

 

Hvenær á að taka hreistur?

Til að fá rétta mynd af stofninum og aldurssamsetningu hans þarf að haga sýnatöku rétt. Best er að dreifa sýnatöku yfir allan veiðitímann svo bæði snemmgengnir og síðgengnir fiskar komi með í úrtakið. Einnig er mikilvægt að taka hreistur af nægjanlega mörgum fiskum til að úrtakið gefi rétta mynd af öllum stofninum. Góð regla er í betri veiðiám að taka hreistur ákveðna vikudaga yfir allt veiðitímabilið. Í ám með minni veiði er réttara að taka hreistursýni oftar. Einnig er nauðsynlegt að sýnataka fari fram í mörg ár, því eitt ár eða nokkur ár segja oft lítið um breytingar á fiskistofni milli ára.

 

 

 

 

Hvernig er hreistur tekið?

Hreistur er tekið af svæðinu rétt ofan við hliðarrák fisksins rétt aftan við bakugga (sjá mynd að ofan). Fyrst er slím skafið burt með því að skafa með hníf aftur eftir fisknum á hreisturtökustaðnum. Því næst er skafið með hnífsoddinum í gagnstæða átt og losna þá nokkrar hreisturplötur og koma á hnífsoddin. Þessar plötur eru settar í þar til gerðan poka sem fæst hjá Veiðimálastofnun (sjá mynd t.h). Gott er að fá um 20 hreistur af hverjum fiski. Gæta verður þess að þrífa hnífinn milli hreisturtöku á fleiri fiskum.

 

 

 

  

Hvernig á að ganga frá hreisturumslagi?

Á hreisturpokann eru skráðar upplýsingar um fiskinn þ.e. veiðistað, veiðidag, þyngd, lengd og kyn. Hreistur er látið þorna í pokanum, ekki er þörf á að frysta eða kæla hreistursýni.

 

Hvernig er unnið úr hreistursýnum?

Sérfræðingar á Veiðimálastofnun vinna úr hreistursýnum. Unnið er úr sýnum með þeim hætti að hreistursýni er skoðað í víðsjá og valin eru fjögur til fimm góð hreistur. Þessu hreistri er síðan komið fyrir á plastplötu og pressað saman en með því móti fæst varanleg afsteypa af hreistrinu á plastplötunni. Afsteypan er síðan skoðuð í aflestrarvél þar sem hægt er að skoða það í margfaldri stækkun.

 

 

Björn Theodórsson

 

Upplýsingar fengnar frá Veiðimálastofnun