Veiðitölur

Sjón laxfiska

 

 

Rannsóknir hafa staðfest að laxfiskar notast aðallega við sjónskynjun þegar þeir veiða og virðast flestir þættir í sjón þeirra vera vel þróaðir. Almennt er litasjónskynjun sæmilega vel þróuð hjá fiskum sem halda sig það grunnt í vatni eða sjó að birtu sólar nýtur við. Með vel þróaðari litasjónskynjun geta fiskarnir greint mögulega fæðu frá bakgrunninum. Vísindamenn telja að slíkt hafi hugsanlega einnig verið ástæðan fyrir þróun litasjónskynjunar meðal prímata fyrir milljónum ára, það er að segja að það hafi komið þeim vel að geta greint skæra liti ávaxta frá grænu laufþykkni frumskóganna.


Flestir þættir í sjónskynjun laxfiska eru þó talsvert lakari en hjá prímötum, þar á meðal hjá okkur mönnunum. Hjá laxfiskum sem leita ætis á yfirborði vatnsins eru ljósnæmar frumur í sjónhimnunni staðsettar þétt í neðri hluta hennar og það gefur þeim hámarks upplausn þegar horft er upp að vatnsyfirborðinu þar sem fæðu er helst að vænta. Augasteinn í laxfiskum er þannig lagaður að þeir geta samtímis séð langt frá sér og mjög nálægt sér. Þetta er eins og ef við gætum horft samtímis í gegnum báða enda á kíki.

Geislar sólar falla skáhallt á vatnsyfirborðið og hefur það talsverð áhrif á það hvernig laxarnir sjá þegar þeir horfa upp að yfirborðinu. Á ytri mörkum sjónsviðsins þjappast geislarnir saman, myndin verður afskræmd og laxarnir eiga í miklum erfiðleikum með að greina hana þar. Við miðju sjónvíddarinnar sjá fiskarnir hins vegar óbrenglaða mynd. Þetta vandamál er ekki til staðar þegar þeir horfa fram fyrir sig í vatninu.

 

 

Laxfiskar eru í eðli sínu miklir tækifærissinnar í fæðuvali. Flugur og önnur smávaxin dýr eða hlutir sem liggja á vatnsyfirborði egna þessa fiska auðveldlega eins og laxveiðimönnum er vel kunnugt. Tálbeitur sem veiðimenn nota eru yfirleitt með sterka liti eða endurkasta ljósi sem örvar fiskinn til að ráðast á beituna þar sem hann heldur að um mat sé að ræða. Þetta staðfestir vel þróaða litasjónskynjun og hæfileika laxafiska til að greina hluti frá bakgrunninum.

 

Laxveiðimenn hafa einnig orðið þess áskynja að sumir litir virðast frekar laða laxa að en aðrir. Svartar flugur eða agnir sem líkjast flugum laða einnig fiskanna að en slíkir hlutir gefa greinilega skuggamynd sem fiskarnir skynja vel. Hins vegar er nætursjón laxfiska frekar slök enda stunda þeir lítið fæðunám í dimmu. Í þau skipti sem það gerist styðjast þeir við svonefndar þverrákir (e. lateral line) sem er sérstakt skynfæri sem liggur eftir hliðum fisksins. Skynfrumur þar nema hljóðbylgjur og titring í vatninu og þannig getur laxinn staðsett fæðu í dimmu.

 

Rannsóknir á bleikju sýna að hún virðist geta greint á milli líkra lita. Til dæmis virðist hún geta greint brúnan lit frá ólívugrænum og staðfestir það enn frekar gott litasjónskyn þessara fiska.

Þó að laxfiskar noti aðallega sjónskynjun þá hafa þeir einngi gott lyktarskyn. Auk þess nema þverrákirnar ýmsar hljóðbylgjur eins og áður sagði og kemur það að nokkru í staðinn fyrir heyrn. Þennan hæfileika þekkja þeir sem hafa stundað stangaveiði því ef menn eru mjög þungstígir þá skynjar fiskurinn hreyfinguna eða dynkinn og syndir í skjól.Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg svör um fjölbreyttan fróðleik.

 

Heimild; Jón Már Halldórsson, líffræðingur.

Vísindavefurinn