Veiðitölur

Fiskræktarsjóður 


 

V E R K L A G S R E G L U R   2 0 0 5

                

 

 

 

 

I.                 UM FISKRÆKTARSJÓÐ

Fiskræktarsjóður starfar á grundvelli laga nr. 76/1970. Hlutverk sjóðsins er að styðja fiskrækt og fiskeldi í landinu. Fiskræktarsjóður hefur heimild til að veita lán og styrki úr sjóðnum til mannvirkjagerðar er lýtur að fiskrækt eða fiskeldi enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun framkvæmda, þær séu gerðar undir eftirliti hans og hann mæli með styrkveitingu. Enn fremur er heimilt að veita úr Fiskræktarsjóði lán eða styrki til annarra verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska.

 

II.             HVERJIR GETA FENGIÐ STYRK?

Styrkir Fiskræktarsjóðs eru ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum. Stjórn sjóðsins forgangsraðar styrkjum.

 

Umsækjendur eru hvattir til að leita eftir samvinnu einstaklinga, fyrirtækja og/eða stofnana og háskóla. Fiskræktarsjóður gerir kröfu um að séð sé fyrir endann á fjármögnun verkefnisins eða verkhlutans, sem sótt er um styrk til.

 

Veittir eru styrkir til eins árs í senn en verkefnin geta verið til mismunandi langs tíma, en senda skal inn framhaldsumsókn/framvinduskýrslu á hverju ári fyrir langtímaverkefni.

 

III.         MISMUNANDI GERÐIR STYRKJA

Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 70/1970 um lax- og silungsveiði tekur Fiskræktarsjóður á móti umsóknum vegna:

  1. Mannvirkjagerðar er lýtur að fiskrækt eða fiskeldi.
  2. Verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska.

Eftirfarandi framkvæmdir njóta styrks ú sjóðinum, er nemi allt að 1/3 af áætluðum kostnaði:

1.    Fiskvegir og önnur meiri háttar mannvirki, er stefna að því að auka fiskför um vatn (sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 76/1970)

2.    Klakhús og eldisstöðvar( sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 76/1970).

3.    Önnur fiskræktarmannvirki (sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 505/1992).

 

Í 5. gr. reglugerðar nr. 505/1992 um Fiskræktarsjóð segir að styrkir skuli greiddir út á mannvirki, þegar þau hafa verið tekin út. Þó skuli heimilt að greiða allt að helming af áætluðum styrk út á mannvirki í byggingu, þegar sérstaklega stendur á, enda sé þá lokið minnst 2/3 af verkinu, hvað kostnað snertir.

 

IV.           UMSÓKNARFRESTUR 1. MARS ÁR HVERT

Umsóknir um lán og styrki úr Fiskræktarsjóði skal senda stjórn sjóðsins fyrir 1. mars ár hvert. Umsóknir sem berast eftir 1. mars eru ekki teknar fyrir á tilteknu ári.

 

V.               MAT Á UMSÓKNUM

Með stjórn Fiskræktarsjóðs fer veiðimálanefnd. Í veiðimálanefnd eiga sæti sex menn. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, tvo samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og tvo samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Stjórnin er því skipuð aðilum sem leggja faglegt mat á umsóknirnar. Metið er hvort umsækjandi muni stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska og/eða stuðla að fiskrækt eða fiskeldi.

 

Við mat á umsóknum er lögð áhersla á mikilvægi og nýnæmi með tilliti til fiskræktar og fiskeldis og með hvaða hætti afrakstur verkefnisins getur aukið verðmæti og um leið stuðlað að vernd og uppbyggingu íslenskra laxfiska. Einnig er horft til hæfni umsækjenda til að leysa verkefnið, þekkingu, reynslu, aðstöðu og raunhæfni áætlana (verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlun). Þá skal horft til þess hvort verkefnin séu í þágu almennra hagsmuna.

 

Við mat á umsóknum styðst stjórn Fiskræktarsjóðs við lög nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, einkum 99. gr. Þá er einnig stuðst við reglugerð nr. 505/1992 um Fiskræktarsjóðs. Ennfremur er stuðst við verklagsreglur þessar.

 

Fiskræktarsjóður flokkar umsóknir í fimm flokka:

 

A      Styrkhæf umsókn sem uppfyllir mjög vel kröfur sjóðsins – afburða gott verkefni

B      Styrkhæf umsókn sem uppfyllir vel kröfur sjóðsins – mjög gott verkefni

C      Styrkhæf umsókn sem uppfyllir kröfur sjóðsins – gott verkefni

D      Umsókn sem uppfyllir ekki gæðakröfur sjóðsins

E      Verkefni utan verksviðs sjóðsins

 

Stjórn sjóðsins fær til umfjöllunar allar umsóknir sem berast og getur stjórn sjóðsins óskað eftir ítarlegri umfjöllun um einstakar umsóknir. Stjórn sjóðsins er heimilt að leita álits þriðja aðila við mat á einstökum umsóknum. Stjórn sjóðsins forgangsraðar svo verkefnunum áður en til úthlutunar kemur.

 

VI.           EFTIRLIT

Fiskræktarsjóður getur farið fram á að styrkþegi sýni fram á að fjármögnun verkefnisins sé í samræmi við umsókn áður en til greiðslu styrks kemur. Fiskræktarsjóður gerir ráð fyrir eftirfylgni með þeim verkefnum sem hann hefur stutt. Styrkhafar þurfa að gera grein fyrir verkefnum sínum, komi til úttektar sem nær til verkefna þeirra.

 

VII.       ÚTHLUTUN

Veiðimálanefnd fer með stjórn Fiskræktarsjóðs. Ákvarðanir um styrki og lán úr sjóðnum eru háðar samþykki landbúnaðarráðherra, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 505/1992.

Rísi ágreiningur um Fiskræktarsjóð er heimilt að vísa málinu til úrskurðar hjá landbúnaðarráðherra, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Greiðslur úr sjóðnum fara fram í maímánuði og desembermánuði eftir því sem fjármagn er fyrir hendi, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.

 

VIII.   UPPLÝSINGASKYLDA FISKRÆKTARSJÓÐS

Þar sem um opinberan sjóð er að ræða telur Fiskræktarsjóður sér skylt að upplýsa á opinberum vettvangi um þá styrki sem hann veitir. Almennt munu upplýsingarnar þó takmarkaðar við upplýsingar um nafn viðtakenda, fjárhæð, heiti verkefnis og markmið. Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra lögaðila er tengjast verkefnum á vegum Fiskræktarsjóðs verður hins vegar farið með sem trúnaðarmál.