Veiðitölur

Sleppitjarnir fyrir gönguseiði.

 

 

Staðarval

 

Staðarval miðast fyrst og fremst við trygga vatnstöku.

Vatnstakan getur verið hliðarrein úr ánni eða lækur sem rennur í ánna. Ef valinn er lækur sem rennur í ánna þá verður að vera tryggt að hann haldi vatni í þurrk og hitni nægjanlega mikið.

 

Við val á staðsetningu tjarnar, þá verður að hafa það í huga að endurheimtur úr sleppingum (1árs eða 2ára lax) mun mikið leita á sleppislóðir. Það er til dæmis þekkt að laxinn gengur að hluta til upp að sleppitjörnunum og heldur sig þar í grennd. Það er því mikilvægt að staðsetja tjörnina fremur ofarlega og þannig draga laxinn í gegnum sem flesta veiðistaði í ánni og/eða hafa sleppistað nærri góðum veiðistað. Æskilegt er að sátt sé um staðarval meðal allra er hlut eiga að máli.

 

Stærð Tjarnar

Stærð tjarnar tekur mið af mögulegum vatnskiptahraða og lífþyngd ;(fjölda seiða x meðalþyngd = lífþyngd).

Algeng stærðsleppitjarna er um 10-15 metrar að lengd og breidd 4-5 metrar. Dýpi er æskileg um 1,5 meter eða dýpra.

Mjög mismunandi aðstæður eru við árnar okkar og getur verið stundum erfitt að grafa tjörn við hlið ár, þegar mjög gróft efni er á viðkomandi stað. Stundum er erfitt að ná nægjanlega miklu dýpi, þar sem stutt er á klapparbotn eða stórgrýtt. Þá er hægt að bregðast við með því að hafa tjörnina lengri og/eða breiðari. Hinsvegar er ekki æskilegt að fara skemur í dýpi en 80 cm. Einnig er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að hafa tjörnina jafn djúpa, ef það er ekki gert er hætta á að seiðin bunkist á djúpa staðinn og nýti illa tjörnina.

 

Innrennsli og frárennsli

 

Mismunandi er hvaða leið er valin í útfærslu á vatnstökunni

og frárennslinu.

Sumstaðar er komið fyrir ramma, stokk eða röri

1. Útbúinn er rammi/stokkur úr tré eða járni. Stærð rammans/stokks miðast við stærð innrennlis og frárennslis skurðar. Ágætt er að hafa búnaðin ríflegan af stærð, eins og sést á myndum.

2. Fest er net á ramma/stokk úr málm eða nótarefni. Möskastærð tekur mið af stærð seiða og er gegnum gangandi ágætt að miða við möskva loðnunótar, sem er c.a 10 mm x 10 mm. Best er að nota hnútalaust nótarefni, því það skaðar síður seiðin ef þau leita stíft upp í innrennsli eða niður í frárennsli. Ef göt eru of stór þá hafa komið upp tilvik þar sem seiði troða sér inn og kafna.

3. Reknir eru staurar málmur eða viður inn í hliðar á innrennslis/frárennslis skurð.

4. Ramminn er festur á staura.

Hafa ber í huga að seiðin þurfa einungis lítið gat/glufu

til sleppa út, því er mikilvægt að tryggja að rammin

gangi vel niður í botn og hliðar á skurði.

5. Frágangur á stokk er með svipuðum hætti og frágangur á lögnum.

                                          

 

Sumstaðar hefur verið hentugast að leggja lagnir í stað skurðar og ramma/stokks. Lagnir geta þá verið úr PE (svart Reykjalundsrör) eða PVC (applsínugulu rörin). Einna hentugast er að leggja úr PVC sökum þess að ekkert mál er með allan "fittings". Þ.e auðvelt er að tengja saman lagnir og útfæra erftir þörfum. Gott er að taka pakkningar (þéttihringi) innan úr lögnum áður en tengt er saman. Í staðin er hentugt að tryggja samfestingu röra með því að nota gott límband (iðnaðar grátt) utan um samskeiti. Ef menn setja rör með pakkningum, þá getur það verið afar erfitt að ná lögnum sundur ef með þarf. Best er að nota sem stærstan sverleika 150 mm eða stærra. Sverleikinn tekur mið af aðstæðum en gott er að leggja nógu stórt, því að alltaf er hægt að minnka rennsli eftir á, verra er að eiga við hlutina þegar lagt hefur verið of knappt í byrjun (sjá vatnsþörf).

Þegar gengið er frá inntaki og frárennsli,þá verður að gæta þess að rörin séu lokuð innan tjarnar. Það á bæði við innrennslisrör og útrennslisrör. Ef það er ekki gert þá er hætta á að seiðinn syndi inn í rörin og skaði sig á netinu í þrengslum. Ágæt útfærsla sem hefur reynst vel er að leggja 150 mm PVC rör (tvö eða fleiri) sem innrennsli og frárennsli. Gæta verður þess að hafa lagnirnar nægjanlega langar svo auðvelt sé að moka góða breidd yfir langnirnar. Lágmark 3 metrar helst meira. Hné 45° dn 150 er sett upp á lagnir innanvert og síðar er tengt annað rör á hné-ið. Þennan bút (rör) er búið að skera glugga á með skurðarskífu og klæða með loðnunót, sjá myndir.  Einnig er hægt að bora þétt með 8 - 10 mm bor, þannig að rörið verður hálfgert gatasigti í raun. Báðar aðferir gera það að verkum að öruggt er að gott flæði vatns er inn og út úr tjörninni. Einnig gerið þetta mönnum auðvelt fyrir að hreinsa óhreinindi, ef þau berast.

 

Æskilegt er að hafa sleppiaðstöðu lokaða í 5-10 daga, tímalengd ræðst eftir aðstæðum hverju sinni eins og hitastigi og hve seiðin eru komin langt í myndun sjógöngubúnings. Fyrstu dagana kanna seiðin aðstöðuna og munu fara út ef þau finna möguleika. Óhætt er opna eftir þennan tíma (5 -10 daga) og munu seiðin ekki fara út fyrr en þau eru tilbúin. Gönguseiðin eru oft mismunandi að stærð og komin mislangt í myndun sjógöngubúnings. Það er eðlilegt að seiðin gangi ekki öll út á sama tíma. Stundum ganga seiðin í þremur "hollum" og getur þetta verið að gerast á 1-2 vikum.

  

Vatnsþörf

 

Það eru ýmsir samverkandi þættir sem hafa áhrif á súrefnisþörf fiska. Má þar nefna stærð fiska, hitastig, straumhraða og fleira. Hafa ber í huga að þar sem fiskar eru með misheitt blóð , og því er súrefnisþörf mismunandi eftir hitastigi vatns. 

 

Eftirfarandi þarf að gera til að reikna út vatnsþörf;

 

Reikna út lífþyngd, þ.e heildarþyngd seiða sem verður sett í sleppiaðstöðu.

Lífþyngd = fjöldi seiða x meðalþyngd

  

Tafla 1. Áætluð ferskvatnsþörf hjá laxaseiðum í lítrum/kg/mín. við mismunandi hitastig og fiskstærð. Gert er ráð fyrir 95% mettun eldisvatns og að súrefnisstyrkur í frárennsli sé 7,0 mg O2/lítra.

 

Hitastig °C 1 gr 5 gr 10 gr 15 gr 25 gr 50 gr
2 0,6 0,5 0,4 0,3 0,3 0,3
4 0,7 0,6 0,5 0,4 0,4 0,3
6 0,9 0,7 0,6 0,5 0,4 0,4
8 1,1 0,9 0,7 0,6 0,5 0,5
10 1,5 1,1 0,9 0,7 0,6 0,6
12 1,8 1,5 1,1 0,9 0,7 0,7
14 2,4 2,0 1,5 1,1 0,9 0,8

  

Dæmi;

 

Ef sleppa á 10.000 gönguseiðum og meðalþyngd þeirra er 35 grömm, þá er lífþyngd 350 kg. Gefin forsenda er 12 gráðu vatnshiti og þá er vatnsþörf á hvert kíló seiða 0,7 lítrar á mín.

 

Vatnsþörf  er því 0,7 l/kg/fisk/mín * 350 kg =  245 l/mín eða um 4,1 lítrar/sek. 

 

Þessar tölur er einungis til að gera sér grein fyrir hve áætluð vatnsþörf er. Forsendur breytast við mismunandi hitastig og því er ráðlagt að miða við töluvert hærri vatnsþörf og ganga frá innrennsli og útrennsli í samræmi við það.

 

Fóðurþörf

 

Fóðurþörf ræðst í megin atriðum af lífþyngd og hitastigi. Einfaldast er að miða við að gefa magn fóðurs sem nemur 2 prósentum af lífþyngd seiða. Kornastærð fóðurs fer eftir stærð seiða, en yfirleitt er gefið fóður sem er 1,8 mm eða 2,0 mm að stærð. Æskilegt er að nota sömu fóðurgerð og var notaður við fóðurgjöf í eldisstöð. Ekki er þörf á að fóðra seiðin fyrsta sólarhringinn eftir að þeim hefur verið komið fyrir í aðstöðu. Besti tíminn til fóðurgjafar er að morgni og að kvöldlagi. Gott er að standa aðeins frá sleppiaðstöðu og gefa sér góðan tíma við að kasta fóðri til seiða svo tryggt sé að öll seiðin nái að éta. Uppsetning á einföldu fóðurkerfi er besti kosturinn til að tryggja góðan árangur en vel útfærð handgjöf gerir sama gagn.

 

 

Skjól/yfirbreiðsla

 

Mikilvægt er að setja yfirbreiðslu yfir sleppitjörn

Tilgangur yfirbreiðslu er tvennskonar:

 

a) Veita skjól/skugga, minnka áhrif sterks sólarljós og mikillar birtu. Seiðin er oftar en ekki að koma beint úr seiðaeldisstöðvum og er oft illa birtuvanin. Það er að segja þau eru tekin úr raflýsingu og/eða lítilli dagsbirtu og sett í umhverfi sem er með annað birtustig. Seiði hafa bókstaflega sturlast við að fara illa birtuvaninn út í tjanir. Slíkt lýsir sér í afar miklu stressi og þau hreinlega bora sig inn á minni steina og í allar mögulegar glufur og eiga það á hættu að festa sig, skaðast og jafnvel kafna og drepast. Mikilvægt er að birtuvenja seiðin vel áður en þau eru flutt úr seiðaeldisstöð.

 

b) Veita vörn gegn varg.

Ýmsir fuglar geta gert usla í óvörðum sleppitjörnun og má þá nefna margar mávategundir eins og Svartbak, Sílamáf, Hettumáf og fl. Einnig getur krían valdið ónæði. Verst eru svokallaðar fiskiendur (Toppönd og Gulönd) sem eru mjög duglegar við að veiða og éta seiði. Fleiri

fuglategundir geta valdið afföllum.

 

 

Minkur getur valdið töluverðum skaða ef ekki er að gætt í tíma.

Nær öruggt er að minkur leitar í tjarnirnar og þá er gott að koma fyrir tveimur gildrum vel fyrir neðan og ofan tjörn. Ef gildrur eru of nálægt tjörn þá missir hann áhugann og velur fremur syndandi ferskmetið (seiðin). Ef tjörn er með nót yfir þá er gott að grjótfergja nótarhliðar við jörðu og hindra aðgengi með því móti. Hinsvegar þá er nauðsynlegt að setja stutt rör innundir nót og "bjóða" minknum innfyrir. Setja þarf minkaboga inn í rörið og festa bogann með keðju eða vír. Minkurinn drukknar mjög fljótt ef rétt er að málum staðið. Tryggja þarf að vatnstakan sé það vel frágenginn að minkur geti ekki leitað í hana. Dæmi eru um mikil tjón af völdum vargs sem hefur verið að leita inngangs og að lokum drepist og stíflað fyrir vatnstöku með alvarlegum afleiðingum.

Það getur verið erfitt að setja nót yfir stóra sleppitjörn þegar þær eru mjög stórar, en hinsvegar er lítið mál að koma í veg fyrir aðgang fugla. Það er hægt að gera með því að reka hæla, til dæmis úr steyputeina bútum, á langhliðar. Síðan er auðvelt að strekkja baggaband á milli hæla fram og tilbaka. Fugl forðast það að fara innfyrir slíkt og ætti þetta að vera í ýmsum tilfellum nóg. Hinsvegar veitir nótin skugga og hefur það fram yfir aðra skjólvörn.

 

 

Björn Theodórsson