Veiðitölur

 

Hrognagröftur sem fiskræktaraðgerð

  

Hrognagröftur er auðveld og ódýr leið til að hjálpa laxi að ná fótfestu aftur á árköflum þar sem hann hefur látið undan síga eða nýta hliðarár og svæði þar sem lax fer ekki sjálfur til hrygningar. Hrognagröftur felst í því að koma fyrir frjóvguðum laxahrognum í ám og lækjum að hausti sem svo klekjast út sem laxaseiði vorið eftir. Hrognagröftur hefur verið reyndur af og til á Íslandi og hefur í mörgum tilvikum tekist vel. Þrátt fyrir það er þessi fiskræktaraðgerð lítið stunduð hérlendis. Þessi aðferð er hins vegar mikið notuð erlendis, sérstaklega í Kanada og Bandaríkjunum þar sem laxastofnar eiga í vök að verjast eða eru í útrýmingarhættu. Hrognagröftur þykir náttúrulegri fiskræktaraðgerð en seiðasleppingar að því leiti að hrogna og seiðastig fer allt fram í ánni sjálfri en ekki að hluta eða mestu leiti í eldisstöð. Þannig ná valkraftar náttúrunnar og aðstæður á hverjum stað að verka á hrogn og seiði nánast frá upphafi.

 

Á hvernig stöðum hrygnir laxinn

Laxinn hrygnir neðst í hyljum og efst í malarbrotum fyrir neðan þá.  Seint á haustin má gjarnan sjá bletti í árbotninum sem laxinn er byrjaður að pússa. Hrygningarstaðir eru því valdir nokkru áður en hrygningin sjálf fer fram. Vegna þess er óæskilegt að mikið rask eða truflun verði í ánni rétt fyrir hrygningu eða á hrygningartíma. Laxinn grefur um 10-30 sm holu með því að beita sporðinum og raufaruggum. Eftir að hrygningu er lokið sópar hann möl yfir frjóvguð hrognin með sama hætti. Hve djúpt er grafið fer nokkuð eftir undirlaginu og stærð laxanna. Stórlax grefur dýpri holur en smálax. Nægjanlega mikið rennsli þarf að vera um hrognin eftir hrygningu en árbotninn þó það stöðugur að hrogn og seiði sem eru að þroskast merjist ekki eða sópist í burtu. Ef straumur er of stríður er einnig erfiðara fyrir laxinn að koma hrognunum fyrir án þess að stór hluti þeirra skolist í burtu. Laxinn á ekki auðvelt með að hrygna á mjög smágrýttum eða stórgrýttum árbotni og ef mölin sem hann hrygnir í er of sendin eða leðjukennd fá hrogn og seiðalirfur ekki nægjanlegt súrefni til að lifa af. Laxinn velur sér hrygningarstaði af kostgæfni og má af því læra þegar staðir til hrognagraftrar eru valdir.

 

Hegðun seiða og búsvæðaval

Þroskatími hrogna og laxalirfa fer eftir tíðarfari og þá í beinu sambandi við vatnshita. Hærri vatnshiti flýtir þroskun. Því getur skeikað upp  í nokkrum vikum að vori hvenær laxaseiðin koma upp úr mölinni. Eftir að laxaseiðin klekjast út nærast þau á kviðpoka um tíma en skömmu áður en hann er uppurinn og sá orkuforði á þrotum, taka seiðin til við að afla sér fæðu sjálf. Það er einmitt síðla á kviðpokastigi sem seiðin leita upp úr mölinni. Fyrst í stað hreyfa seiðin sig lítið frá hrygningarstaðnum en fara svo að dreifa sér á nærliggjandi búsvæði. Þessi seiði nefnast vorgömul seiði uns þau hafa verið annan vetur í ánni. Seiðin velja sér fremur skjólgóða staði fjarri megin vatnsflaumnum og finnast yfirleitt næst landi og á grófum malarbotni. Seiðin leita gegn straumi og nema land upp árnar. Algengt er að þau hafi dreift sér að hausti um 100 m upp fyrir en innan við 50 m niður fyrir hrygningarstaðinn (óbirt gögn). Mikil afföll verða á seiðunum fyrst eftir að þau koma upp úr mölinni og áfram um sumarið og næsta vetur. Því skipta miklu máli framboð og gæði hentugra búsvæða fyrir seiðin. Eftir því sem seiðin verða stærri breytast einnig þarfirnar. Stærri seiðin sækja í meiri straum og grófari botngerð þar sem meira er um smágrýti og skjól fyrir stærri seiði. Allt þetta þarf að taka með í reikninginn þegar staðir til hrognagraftrar eru valdir. Ef hrogn eru grafin skammt neðan hindrunar eins og flúða og fossa sem lítil seiði komast ekki upp fyrir, ná seiðin ekki að dreifa sér nægjanlega vel og afföll verða meiri. Einnig er mikilvægt að staðir þar sem hrogn eru grafin séu í nálægð við búsvæði sem henta einnig eldri seiðum. Þannig er stuðlað að sem mestum lífslíkum seiðanna þann tíma sem þau þurfa að dvelja í ánni áður en þau ganga til sjávar.

 

Frjóvgun og meðferð hrogna

Eftir að klakfiski hefur verið náð þarf að geyma hann á hentugum stað þangað til laxarnir verða rennandi og kreisting getur farið fram. Hægt er að geyma hann í eldisstöð eða þá í búri/keri í eða við ána. Ef laxinn er veiddur snemma hausts verður að gæta þess að hann sé hafður við náttúrulega birtu og ekki geymdur í of köldu vatni á þeim tíma sem síðasta skeið þroskunar hrogna og svilja fer fram. Slíkt getur tafið fyrir þroskun. Laxahrygning eða kreisting fer aðallega fram um miðjan október. Laxahrygnur eru tilbúnar til kreistingar þegar finna má að kviður er orðinn mjúkur en fylltur viðkomu og hrognin lausari. Gotrauf verður einnig þrútin af þrýstingi hrogna. Hængarnir eru orðnir rennandi þegar þeir gefa af sér svil þegar þrýstingi er beitt á kvið þeirra. Hængarnir eru þó erfiðari í kreistingu en hrygnurnar og eru oftast aflífaðir og skornir upp til að ná úr þeim sviljunum. Hægt er að láta hrygnurnar lifa eftir kreistinguna en samt er hætt við að hnjaskið verði til þess að þær nái sér ekki aftur.

 

Hrygna kreist ©BTh

 

Mikilvægt er að nota eins marga foreldra og kostur er til að viðhalda erfðafræðilegum breytileika innan stofnsins. Algengt er í fiskeldi að nota svil úr fáum hængum til að frjóvga hrogn fleiri hrygna. Vissulega er hægt að nota jafnvel einn hæng til að frjóvga hrogn úr mörgum hrygnum en með því er stuðlað að skyldleikaræktun og tapi á erfðafræðilegum breytileika. Því er mikilvægt að ekki séu notaðir færri hængar en hrygnur. Það eykur á foreldra breytileikann að skipta upp hrognamassa úr einstökum hrygnum og frjóvga hrogn með sviljum úr fleiri en einum hæng. Við frjóvgun hrogna þarf að dreifa svilinu vel um hrognin. Það getur tryggt hærra frjóvgunarhlutfall að hræra varlega í hrognunum til að blöndunin verði betri. Eftir að hrognunum hefur verið komið fyrir í íláti er sett í það hreint kalt vatn svo að fljóti vel yfir hrognin og ekki hreyft frekar við þeim þar til hrognin eru vatnshörðnuð.

 

Eftir að hrogn hafa verið frjóvguð þurfa að líða um 2 klst. á meðan hrognin vatnsharðna og frjóop lokast, áður en hreyfa má frekar við þeim. Þegar hrogn eru vatnshörðnuð þola þau flutninga og nokkurt hnjask næstu 24 tímana, en eftir þann tíma þegar frumuskiptingar í hrognunum eru komnar vel á stað, verða þau viðkvæmari og þola ekki mikið umrót. Þrátt fyrir að menn hafi um sólarhring til að koma hrognunum fyrir er þó betra að láta líða skemmri tíma ef þess er kostur.

 

Búnaður til hrognagraftar ©Vmst Norðurlandsdeild

 

Framkvæmd á hrognagreftri

Auðveldast er að flytja hrogn til hrognagraftrar í plastílátum sem hægt er að hella beint úr við hrognagröftinn. Best er að grafa á fyrirfram völdum stöðum sem taldir eru hentugir svo að hrognagröfturinn taki sem skemmstan tíma. Ýmsar aðferðir og tæki hafa verið þróuð til að grafa hrogn þar sem þessi fiskræktaraðgerð er mest stunduð erlendis. Hér á landi hefur einfaldleikinn gefist vel, malarskófla, fata undir möl og plaströrbútur til að hella hrognunum í gegnum. Þegar komið er á staðinn þar sem á að grafa hrognin er grafin um 30 sm djúp hola og mölinni safnað í fötu til að geta lokað holunni síðar. Rörbútur, um 90 mm í þvermál og nægjanlega langur til að standa vel upp úr ánni, er settur í holuna og möl mokað að honum. Hrognunum er svo hellt varlega ofan í hólkinn og látin setjast til botns. Að því búnu er hólkurinn fjarlægður varlega og möl hellt að úr fötu jafnhliða. Eftir að gætt hefur verið að því að holunni hafi verið lokað með möl er verkinu lokið.

 

Eik og Friðrik við hrognagröft ©Vmst Norðurlandsdeild

 

Fjöldi hrogna í hrygnu fer eftir stærð hennar. Algengur hrognafjöldi í smálaxa hrygnu er 5000 hrogn og stórlaxi 7000. Hrognin eru smærri í smálaxahrygnum. Til að ná sem mestum árangri er æskilegt að skipta hrognum úr hverri hrygnu upp á nokkra staði. Það dreifir ekki aðeins áhættunni ef eitthvað fer úrskeiðis á einum eða fleiri stöðum heldur eykur líka lífslíkur seiðanna ef færri verða til þess að keppa um búsvæði þegar seiðalirfurnar klekjast út. Það er einnig takmarkað hvað hægt er að koma af hrognum í eina holu án þess að þau fari að tapast í burtu á meðan á greftri stendur.

 

Atriði sem ráða árangri af hrognagreftri

Árangur af hrognagreftri er ekki óskeikull fremur en af hrygningu hjá laxinum sjálfum. Slæmt árferði, flóð og ruðningar geta valdið spjöllum. Staðirnir sem valdir voru geta reynst lakari en virtist eða hrognin sem notuð voru ekki frjóvguð og lifandi þegar þau voru grafin.  Það sem skiptir þó mestu máli til að ná árangri er að miða framkvæmdina sem mest við hegðun laxins sjálfs og staðarval. Tryggt þarf að vera að rennsli vatns í gegnum mölina og súrefnisskipti séu fullnægjandi. Ekki má grafa það djúpt að vatn leiki ekki um hrognin eða að seiðalirfurnar lendi síðar í vandræðum með að komast upp á yfirborðið. Ef grafið er of grunnt geta hrognin aftur á móti skolast í burtu í vatnavöxtum. Mölin sem grafið er í þarf að vera þokkalega gróf og laus við leir og fínan sand. Einnig má ekki grafa hrogn á það grunnum stöðum í ánni að hætta sé á að staðurinn frjósi eða fari á þurrt yfir veturinn. Að frátöldum þessum atriðum þá eru það gæði búsvæðanna og fæðuframboð sem ráða úrslitum um hvernig seiðunum reiðir af. Ef mikið er af öðrum laxa, urriða  eða bleikjuseiðum á staðnum, þá mun það koma niður á árangri hrognagraftarins og það sama má segja um fjölda afræningja.

  

Lokaorð

Hrognagröftur er ódýr, einföld og árangursrík aðferð til að dreifa hrygningu lax um vatnakerfi þar sem laxinn á undir högg að sækja. Hrognagröftur er einnig vistvænni leið en seiðasleppingar því seiðin þroskast og alast upp allan sinn aldur í náttúrunni en ekki að hluta í eldisstöð. Greinarhöfundur hefur ásamt Eik Elfarsdóttur hjá Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar og Friðriki Steinssyni stöðvarstjóra Hólalax stundað skipulegar rannsóknir á árangri af hrognagreftri og hegðun seiða og búsvæðavali síðastliðin tvö ár í Laxá í Skefilsstaðahreppi og hefur Austurá í Miðfirði einnig bæst inn í það verkefni. Hrognagröftur er einnig stundaður á fleiri stöðum á landinu. Tilraunir með hrognagröft á undanförnum árum hafa skilað góðum árangri og full ástæða til að beita þessari aðferð mun víðar en nú er gert.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bjarni Jónsson fiskifræðingur                    

Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar 

 

Greinin "Hrognagröftur sem fiskræktaraðgerð", birtist í Frey; 1 tb, 100 árg, bls 37-39, Febrúar 2004