Veiðitölur

Búsvæðagerð

 

 

Búsvæði er það svæði þar sem tegund getur þrifist og tímgast. Á búsvæði er að finna  fæðuframboð, skjól og skilyrði til hrygningar.


Framleiðsla laxaseiða í ám er háð mörgum þáttum.  Í fyrsta lagi er framleiðslan háð flatarmáli framleiðslusvæða. Laxaseiðin mynda

óðöl í ánum sem þau verja fyrir öðrum seiðum.  Laxgeng ársvæði

hafa þannig einhverja hámarks burðargetu sem afmarkast af stærð framleiðslusvæða. 

Í öðru lagi er framleiðslugetan háð gæðum hrygningar
– og uppeldissvæða fyrir lax.  Laxinn velur sér grófan malarbotn

til hrygningar, forðast sandbotn, þar sem of lítið vatnsflæði veldur

því að hrognin kafna. Þeir umhverfisþættir sem mest áhrif hafa á burðargetu straumvatna fyrir laxaseiði, eru gerð árbotnsins,

vatnsdýpi og straumlag.  Kjörskilyrði laxaseiða hvað gerð

árbotnsins varðar er botn, sem er sambland af möl, smágrýti og stórgrýti. Sjá mynd 1 hér að neðan af kjörbúsvæði í Litlu Þverá í Borgarfirði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 1. Litla Þverá

 

Steinarnir veita seiðunum fylgsni, var fyrir straumi og

skapa jafnframt bústað þeim fæðudýrum er seiðin lifa á.  Vatnsstraumurinn skiptir einnig miklu máli, en fæða fyrir seiðin t.d. krabbadýr (svif) og litlar skordýralirfur berst með straumnum. Grýttu brotin í ánum eru því hentugustu búsvæðin. Lygn svæði í ám, þar sem botngerð einkennist af sand - eða leirbotni eru hins vegar mjög rýr til uppeldis. Svipað gildir um klapparbotn, en á slíkum botni er lítið skjól og seiði eiga mjög erfitt með að nýta slíkt botnlag þar sem of mikil orka fer í að berjast við strauminn. 

 

Hér fyrir neðan á mynd 2 er dæmi um lélegt búsvæði

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 2 Norðurá fyrir neðan bæinn Hól.

 

Hér fyrir neðan á mynd 3 er dæmi í sömu á um gott búsvæði sem nýtist fyrir stór seiði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 3 Norðurá fyrir ofan Veiðilæk, Grjótin

 

Laxinn velur sér grófan malarbotn til hrygningar og kjörskilyrði fyrir uppeldi laxaseiða eru á botni sem er sambland af möl, smágrýti og stórgrýti. 

Grýtt brot í ánum eru því hentugustu uppeldissvæðin, en lygn svæði þar sem botngerðin einkennist af sandi eða leirbotni leggja lítið til framleiðslunnar. Sama gildir um klapparbotn þar sem ekkert eða lítið skjól er til staðar.

Lax er aðallega að finna í frjósömum ám þar sem hann gerir fremur miklar kröfur til fæðuframboðs á búsvæðum sínum.


Mynd 4 Grjótin nærmynd

 

Frjósemi ánna má meta á einfaldan hátt með rafleiðnimælingum

og er lax ekki að finna nema í litlum mæli á svæðum þar sem rafleiðni vatnsins er undir 60 µS/cm. 

 

Búsvæðagerð getur verið vænlegur kostur á svæðum þar sem vöntun er á skjóli fyrir stærri seiði. Við veiðistaðagerð og framkvæmdum gegn landbroti, þá hafa skapast í sumum tilfellum kjörskilyrði fyrir stærri seiði og aukið seiðaframleiðslu á afmörkuðum svæðum. Hafa ber í huga að búsvæðagerð getur verið kostnaðarsöm framkvæmd og er mikilvægt að kynna sér aðstæður í samráði við sérfræðinga, áður en hafist er handa.

 

 

 Atriði sem þar að hafa í huga við búsvæðagerð.

 

 

1) Meta þörfina og taka ánna út heilstætt. Gera verk- og kostnaðaráætlun.

 

2 ) Botngerð svæðis. Grófleiki botns segir oft til um straumhraða og álag á svæðinu. Ekki þýðir að setja stórgrýti eða smágrýti ofan á klöpp, það mun aldrei vera til friðs.

 

3) Straumhraði. Lesa þarf í straumhraða til að tryggja rétta staðsetningu. 

 

4) Vatnsmagn. Hafa í huga hve mikið vatn er í ánni svo tryggt sé að búsvæði nýtist í litlu vatni.

 

5) Gott er að skoða fjölbreytt búsvæði, gerð af náttúrunar hendi, þar er ávallt að finna bestu fyrirmyndirnar.

 

6) Æskilegt er að notast við samskonar grjót/efni og er að finna í ánni.

 

7) Reyna eftir fremsta megni að láta nýtt búsvæði falla vel inn í umhverfið

 

8) Leita til sérfræðinga og fá úttekt í búsvæðamati

 

 

Björn Theodórsson