Veiðitölur

Samanburður á villtum lax og eldislax 

 

 

  

Villtur lax  

 

 

 Helstu útlitseinkenni sem hægt er að hafa til viðmiðunar 

 

Villtur lax

 

Almennt:

 

Villtur lax getur verið breytilegur í útliti og það getur verið sjáanlegur útlitsmunur milli mismunandi stofna. Í náttúrulegu umhverfi villta laxsins geta komið upp aðstæður sem hafa áhrif á útlit fisksins. Slíkt getur gerst á seiðastigi í ferskvatni eða við sjávardvöl. Það er því mikilvægt að alhæfa ekki um afgerandi útlitsmun á eldislaxi og villtum laxi á þann hátt að villtur lax sé alheill og öll frávik hljóti að vera eldislax. 

 

A Trjóna og tálknbörð heilleg og laus við slit.

B Bakuggi heill og án slits

C Sporðsýling V-laga og sporður laus við slit

D Raufaruggi heillegur og laus við slit

E Kviðuggar heillegir og lausir við slit

F Eyruggar heillegir og lausir við slit

 

Villtur lax er straumlínulaga og samsvarar sér vel.

 

 

Eldislax

 

 

Helstu útlitseinkenni sem hægt er að hafa til viðmiðunar 

 

Eldislax

 

Almennt:

 

Laxeldi er stundað í sjókvíum og strandeldisstöðvum hérlendis. Norsk laxahrogn voru flutt til landsins árin 1984 til 1987 og er lax sem notaður er í eldi af norskum uppruna. Eldislaxinn hefur verið kynbættur og valið fyrir eiginleikum sem eru hagstæðir við matvælaframleiðslu eins og hröðum vexti og hækkun kynþroskaaldurs.

 

 

A Trjóna getur verið slitinn og tálknbörð slitin og eydd

B Bakuggi slitinn og lítill.

C Sporðsýling lítið V-laga og sporður slitinn

D Raufaruggi getur verið slitinn

E Kviðuggar geta verið slitnir og misstórir

F Eyruggar geta verið slitnir og misstórir

 

Eldislax getur verið minna straumlínulaga en villtur lax, oft er eldislax holdmeiri. Holdastuðull er hærri.

 

 

Ef líkur eru á að lax sé að eldisuppruna er mikilvægt að framkvæma eftirfarandi:

 

1) Skrá veiðistað og dagsetningu

2) Skrá Lengd og þyngd

3) Skrá kyn

4) Taka hreistursýni

5) Ef veiðiugga vantar er lax örmerktur. Skera þarf trjónu af við augu, setja í plastpoka og merkja.

6) Hafa samband við Fiskistofu. Einnig er hægt að leita til starfsmanna Hafrannsóknarstofnunar á sviði ferskvatnslífríkis.

 

 

 

Aðferðir til að greina á milli kvíalaxa og náttúrulega laxa

"Nokkrar aðferðir eru notaðar til að greina á milli eldislaxa og náttúrulegra laxa, t.d. með vaxtarmynstri í hreistri (Lund og Hansen 1991). Dæmigerður náttúrulegur lax hefur glögg skil á milli vaxtar í ferskvatni og sjó auk þess sem greinilegur munur er milli vaxtar sumars og vetrar. Fiskur alinn í kví er auðþekktur á því að ógreinileg skil eru á því, þegar fiskur fer úr fersku vatni í sjó, og lítill munur er á sumar- og vetrarvexti í sjó. Hafbeitarfiskurinn er erfiðari þar sem sjávarvöxtur er eins og hjá náttúrulegum laxi. Vaxtarmynstrið í fersku vatni er þó frábrugðið að því leyti að vöxtur hafbeitarseiða er meiri en hjá villtum laxi (Friðjón M. Viðarsson og Sigurður Guðjónsson 1993).

 

Sjá nánar í fróðleik um hreistursýni

 

Kvíalax, þ.e. eldislax sem alinn er í sjókvíum, er hægt að greina frá

náttúrulegum laxi með þvi að skoða lögun ugga, trýnis, kjálka og lengd tálknloka (Lund o.fl. 1989). Þessi aðferð er nákvæm fyrir fisk sem hefur sloppið úr sjókví skömmu áður en hann leitar upp í laxveiðiá, en nákvæmnin er minni þegar fiskur sleppur úr kví á seiðastigi (Fleming o.fl. 1994). Þegar útlit fisksins og hreisturgreining eru notuð samtímis næst meiri öryggi í að flokka kvíalax frá náttúrulegum laxi (Lund o.fl. 1989). Við notkun beggja þessara aðferða er hlutfall kvíalaxa að öllu jöfnu vanáætlað (Fiske o.fl. 2000). Því til staðfestingar er að þegar metnar eru villur hafbeitarlaxa í laxveiðiám á Íslandi fæst hlutfallslega hærri prósenta þegar stuðst var við merkta laxa en við hreistursgreiningu (Vigfús Jóhannsson o.fl.

1998).

 

Eldislax er bólusettur á seiðastigi en við það myndast samvöxtur á líffærum í kviðarholi. Með því að opna fiskinn og skoða innyflin er hægt að flokka náttúrulegan lax frá kvíalaxi af mikilli nákvæmni (Lund o.fl. 1997). Kvíalaxar og náttúrulegir laxar lifa á mismunandi fæðu, sem m.a. er frábrugðin í innihaldi litarefna. Kvíalax er fóðraður með fóðri sem inniheldur tilbúin litarefni, sem hægt er að aðgreina frá náttúrulegu litarefni. Þegar kvíalax sem sleppur étur fæðudýr með náttúrulegum litarefnum, á sér stað útþynning á tilbúnu litarefni í holdi hans. Nákvæmni þessarar aðferðar minnkar eftir því sem lengri tími líður frá því fiskurinn sleppur úr kví þar til hann skilar sér í laxveiðiá (Webb og Youngson 1992; Lura og Økland 1994).

 

Til að greina á milli náttúrulega laxastofna og kvíalaxa er hægt að mæla erfðafræðilegan mun á milli stofnanna. Sú aðferð sem notuð hefur verið um nokkurn tíma byggist á því að athuga byggingu próteina með rafdrætti. Sé munur á byggingu einhvers próteins má rekja hann til munar á genum. Hin aðferðin byggist á að mæla

erfðabreytileika í DNA (Cross og Challanain 1991; Youngson o.fl. 1991; Knox og Verspoor 1991). Við notkun þessara aðferða er notaður hópur laxa til að greina hlutfall kvíalaxa. Þær eru einnig bæði seinlegar og dýrar og því almennt ekki notaðar við að greina kvíalax frá náttúrulegum laxi *".

 

 

Heimildir:

 

Björn Theodórsson

 

* Hugsanleg áhrif eldislaxa á náttúrulega laxastofna. Valdimar Ingi Gunnarsson 2002. Unnið fyrir Embætti Veiðimálastjóra.

 

Ljósmynd:  Sumarliði Óskarsson