Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. september 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 2. september síðastliðinn. 

 

Ekki líður á löngu þar til fyrstu árnar skila inn lokatölum en veiðin síðustu viku víðast hvar ber þess merki að liðið er fram á haust. Þær ár sem opnuðu fyrst eru þær sem munu loka á næstunni. Þó árnar loki flestar í september þá er engu að síður hægt að komast í laxveiði í nokkrum ám í október.

 

En hvað afmarkar veiðitímann og afhverju eru sumar ár með opið allt fram í október? Svarið við því er að finna í lögum um lax- og silungsveiði frá árinu 2006.

 

Laxveiðar eru heimilar á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert, en þó aðeins í 105 daga innan þess tímabils. Fiskistofu er heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, að lengja veiðitíma í allt að 120 daga og allt til 31. október ár hvert í þeim veiðivötnum þar sem fyrst og fremst er veitt úr stofnum sem viðhaldið er með viðvarandi sleppingu seiða. Þá er Fiskistofu að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar heimilt að lengja um allt að fimmtán daga veiðitímabil skv. 1. málsl. í þeim veiðivötnum þar sem öllum laxi er sleppt.

 

 

Eystri-Rangá er komin í alls 7362 laxa, veiði gengur mjög vel, og skilaði vikuveiðin samtals 571 löxum. Veiðin er nú orðin sú næstmesta frá upphafi en mesta veiði var árið 2007 þegar alls veiddust 7473 laxar. Nú vantar 111 laxa til að jafna það met og ljóst að ekki líður á löngu uns það gerist.

 

Ytri-Rangá er komin í 2080 þar gengur veiðin vel og hefur vikuveiðin rúmlega tvöfaldast miðað við veiðivikuna á undan. Síðasta veiðivika skilaði 260 löxum.

 

Miðfjarðará er efst á lista þeirra vatnakerfa sem byggja veiði ekki alfarið á seiðasleppingum. Samtals hafa veiðst 1407 laxar og skilaði síðasta veiðivika alls 124 löxum.

 

Þó fjölmörg vatnakerfi séu komin með veiði umfram lokatölu í fyrra þá er veiðitímabilið 2019 ekki sérstaklega hentugt viðmið í ljósi þess að veiðin í fyrra gekk víðast hvar með afbrigðum illa sökum þeirra aðstæðna er þá höfðu áhrif.

 

Síðan er spurning hvort veiðin þetta veiðitímabilið sé að gefa rétta mynd af veiðum í ljósi þess að ekki var alltaf góð nýting á stöngum og sumstaðar kom fyrir að meirihluti stanga var ekki nýttur. Ástæður þess eru fjölmargar en Covid ástandið hefur líklega þar mest áhrif enda erfitt að bregðast við þegar heilu hollinn af erlendum veiðimönnum gátu ekki komist til landsins og eflaust einhverjir veiðimenn hér innanlands sem hafa verið í t.d. sóttkví og ekki getað komist til veiða. Það þarf ekki að fjölyrða um hvaða áhrif Covid hefur haft enda flestir velupplýstir um það sem hefur átt sér stað hérlendis og erlendis. 

 

Hér fyrir neðan eru 10 efstu vatnakerfin þar sem heildarveiði og vikuveiði er tilgreind.

 

 

1.   Eystri-Rangá 7362 laxar - vikuveiði 571 laxar.

 

2.   Ytri-Rangá 2080 laxar - vikuveiði 260 laxar.

 

3.   Miðfjarðará 1407 laxar - vikuveiði 124 laxar.

 

4.   Affall í Landeyjum 1192 - Veiðitölur hafa ekki borist.

 

5.   Selá í Vopnafirði 1138 laxar - vikuveiði 116 laxar. 

 

6.   Haffjarðará 973 laxar - vikuveiði 55 laxar.

 

7.   Urriðafoss í Þjórsá 959 laxar - vikuveiði 5 laxar.

 

8.   Þverá og Kjarará 912 laxar - vikuveiði 86.

 

9.   Hofsá í Vopnafirði 895 laxar - vikuveiði 65 laxar.

 

10. Norðurá 862 laxar - vikuveiði 33 laxar.

 

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verðar settar inn þegar þær berast.

 

Hér er hægt að skoða veiðitölur úr 49 vatnakerfum.

 

Næst verður veiðitölum safnað í lok veiði miðvikudags 9. september.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Veiðitölur eru birtar með þeim fyrirvara að við úrvinnslu veiðibóka hjá Hafro getur veiðitala breyst lítilega.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398