Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. júlí 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 8. júlí. Nú eru komin rúmlega 40 vatnakerfi umhverfis landið sem við fáum vikulega veiðitölur frá en gera má ráð fyrir að nokkur vatnakerfi bætist við í hópinn fljótlega. Þessa veiðivikuna hafa ekki borist veiðitölur úr öllum ám en þeim verður bætt inn þegar tölur berast.

 

Veðurfar hefur verið einstaklega gott undanfarið og glatt landsmenn umhverfis landið. En langvarandi úrkomuleysi, sólríkir bjartir dagar og mjög hlýtt veður er nú farið að hafa neikvæð áhrif á vatnsbúskap sumra vatnakerfa og bera veiðitölur það þess merki að skilyrði til veiða hafi ekki verið með besta móti. Það á hinsvegar ekki við um öll vatnakerfi, þar sem enn er góður vatnsbúskapur, þökk sé m.a. síðastliðnum vetri sem skildi eftir ágætis birgðir af vatni í föstu formi og síðan er mismunandi hvort um sé að ræða dragá, lindá og svo framvegis.

 

Það ber helst til tíðinda að Eystri-Rangá er komin efst á listann okkar með alls 667 laxa eftir hreint frábæra veiðiviku sem skilaði 504 löxum. Ef veiðin er borin saman við svipaðan tíma í fyrra (10.07.2019) þá var veiðin alls 405 laxar og er því veiðin nú orðin um hundrað löxum meiri en þá. En hafa ber í huga að þarna munar tveimur dögum í samanburði og nær lagi að áætla að veiðin sé komin vel á þriðja hundrað laxa umfram veiðina á sama tíma í fyrra. Þetta er ein mesta veiði sem hefur verið skráð á þessum tíma veiðitímabils síðastliðin 14 ár, einungis árið 2016 hefur veiðst meira á svipuðum tíma. Þegar veiðitölur eru skoðaðar aftur til ársins 2006 þá virðist sem lax sé nú að skila sér fyrr upp í Eystri-Rangá eins og gerðist árið 2016. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun veiði á næstu vikum.

 

Í öðru sæti er Urriðafoss í Þjórsá með alls 589 laxa og skilaði síðasta veiðivika 80 löxum. Urriðafoss hefur verið efst á lista okkar frá opnun og veiði gengið mjög vel. Fjórar stangir eru leyfðar á þessu veiðisvæði og meðalveiði á stöng er mjög góð þessa veiðivikuna eða sem nemur um þremur löxum á dag. 

 

Í þriðja sæti er Norðurá í Borgarfirði en þar er veiðin komin í 404 laxa og skilaði síðasta veiðivika 92 löxum. Veiðin er orðin rúmlega 300 löxum meiri en á svipuðum tíma í fyrra og stutt í að veiðin fari yfir lokatölur síðasta árs.

 

Í fjórða sæti er Ytri-Rangá sem komin er í alls 328 laxa en þar hefur gengið mjög vel síðustu veiðiviku sem skilaði 200 löxum.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna:

 

1. Eystri-Rangá 667 laxar - vikuveiði 504 laxar.

 

2. Urriðafoss í Þjórsá 589 laxar - vikuveiði 80 laxar.

 

3. Norðurá í Borgarfirði 404 laxar - vikuveiði 92 laxar.

 

4. Ytri-Rangá 328 laxar - vikuveiði 200 laxar.

 

5. Þverá og Kjarará 275 laxar - vikuveiði 34 laxar.

 

6. Haffjarðará 217 laxar - vikuveiði 82 laxar.

 

7. Miðfjarðará 177 laxar - vikuveiði 97 laxar.

 

8. Langá 153 laxar - vikuveiði 60 laxar.

 

9. Laxá í Kjós 136 laxar - vikuveiði 47 laxar.

 

10. Laxá á Ásum 131 laxar - vikuveiði 71 lax.

 

Hér er hægt að skoða veiðitölur úr rúmlega fjörutíu vatnakerfum.

 

Þess má geta að við höfum átt mjög gott samstarf á liðnum árum við alla þá sem hafa liðsinnt okkur í þessari vikulegu söfnun veiðitalna. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt og viljum við þakka kærlega fyrir þeirra framlag.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398