Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
18. júní 2020

Veiðitölur 2020

Vel á annan áratug hefur Landssamband veiðifélaga safnað vikulega veiðitölum úr 25 ám. Veiðitölum er safnað hvert miðvikudagskvöld og eru þær  birtar hér á heimasíðu LV, angling.is.

 

Veiðitímabilið fer vel af stað þetta árið og aðstæður til veiða æði frábrugðnar því sem var á sama tíma í fyrra en þá var vatnsbúskapur með verra móti, svo ekki sé meira sagt, sökum þurrka. Því er ólíkt farið nú þegar vatnsbúskapur er góður umhverfis landið og gott betur víða þar sem vatnavextir hafa jafnvel dregið úr veiði um tíma. Veiðitölur hafa borist úr ellefu ám og eru fleiri tölur á leiðinni og verða þær settar inn um leið og þær berast. 

 

Þverá/Kjarará efst á listanum með alls 118 laxa en einungis 10 laxar skilja að Þverá/Kjarará og Norðurá sem er í öðru sæti og fylgir fast á eftir. Þverá/Kjarará var aðeins með 12 laxa á svipuðum tíma (19.06.2020) Veiðin er vel yfir meðalveiði undanfarin áratug.

 

Alls hafa veiðst 108 laxar í Norðurá sem er ágætis byrjun. Í fyrra var veiðin í Norðurá á svipuðum tíma  aðeins 11 laxar en veiðitímabilið í fyrra verður seint minnst sem metárs, nema þá hugsanlega fyrir met í lítilli veiði og úrkomuleysi enda fordæmalausar aðstæður.  Veiðin nú er nánast eins og meðaltal síðust tíu ára á svipuðum tíma.

 

 

Veiðitölur hafa ekki borist úr Urriðafoss í Þjórsá en líklega er það svæði efst á listanum. Á næstu dögum og vikum opna ár hver af annarri og verður áhugavert að fylgjast með. Söfnun veiðitalna verður næst miðvikudaginn 24 júní en þá hafa fleiri ár opnað.

 

Svo virðist sem laxinn sé fremur snemma á ferðinni en kemur reyndar misvel haldinn úr hafi. Það er fullsnemmt að spá fyrir um þróun mála enda fjölmargt sem getur haft áhrif á veiði. Engu að síður gefur góð veiði í þeim ám sem hafa opnað og hve víða hefur sést til laxa tilefni til bjartsýni. Það er við hæfi enda langflestir veiðimenn annálaðir bjartsýnismenn og er það vel. Þegar við höfum fleiri veiðitölur gefst færi á að fara að rýna nánar í tölur og bera saman við veiði á svipuðum tíma undanfarin veiðitímabil.

 

Þess má geta að við höfum átt mjög gott samstarf á liðnum árum við alla þá sem hafa liðsinnt okkur í þessari vikulegu söfnun veiðitalna. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt og viljum við þakka kærlega fyrir þeirra framlag.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398