Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. apríl 2020

Fréttatilkynning - Fulltrúi LV skilar séráliti um áhættumat Hafrannsóknastofnunar

Nýverið sendi Hafrannsóknastofnun frá sér drög að áhættumati um erfðablöndun vegna laxeldis í sjókvíum. Þetta áhættumat olli miklum vonbrigðum. Áhættumatið er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Samráðsnefnd um fiskeldi hefur tekið málið til umfjöllunar en fulltrúi Landssambands veiðifélaga (hér eftir LV) í nefndinni skilaði séráliti og lagðist gegn því að það yrði lagt óbreytt fyrir ráðherra.

 

Fulltrúi LV gerði ótal athugasemdir við áhættumatið og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Meðal annars gerði hann athugasemd við að þau gögn og upplýsingar sem liggja að baki breytingum á gildandi áhættumat væru ófullnægjandi og að reynslutími á gildandi áhættumati væri alltof stuttur.

 

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar gerir beinlínis ráð fyrir því að erfðablöndun norsks eldisfisks við íslenska villta laxastofna muni eiga sér stað. Það er út af fyrir sig alvarlegt mál. Íslensk náttúra á betra skilið en að stjórnvöld setji upp kerfi sem gerir ráð fyrir erfðablöndun norsks eldislax við hina einstöku villtu íslensku laxastofna.

 

Alvarlegasta athugasemd fulltrúa LV í nefndinni sneri svo að sinnaskiptum Hafrannsóknastofnunar til laxeldis í Ísafjarðardjúpi. Í ekki eldra áhættumati en síðan 2017 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að laxeldi í djúpinu skyldi ekki leyft vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrif á laxastofna þar. Nú hefur þessi sama stofnun komist að þeirri niðurstöðu að framleiða megi 12.000 tonn af norskum frjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi. Þessi stefnubreyting er byggð á afar veikburða gögnum.

 

Þess skal getið í þessu samhengi að á þessu ári hafa átt sér stað fjögur alvarleg atvik í rekstri sjókvía á Vestfjörðum sem ekki er tekið tillit til í áhættumati stofnunarinnar.

 

  • Þann 1. febrúar síðastliðinn var tilkynnt um gat á nótarpoka sjókvíar í Dýrafirði sem innihélt 170.000 stykki af 5 punda norskum eldislöxum. Gatið var 1 metri að stærð og var á 20 metra dýpi.

 

  • Þann 20. mars var tilkynnt um þrjú göt á nótarpoka sjókvíar í Ísafjarðardjúpi sem í voru 26.000 regnbogasilungar. Áður hafði verið athugað með ástand nótarpokans þann 19. október eða 5 mánuðum áður. Það er lögbrot enda á að skoða pokana með neðansjávareftirliti á 90 daga fresti. Götin voru 20 x 30 cm á tveggja metra dýpi.

 

  • Þann 2. apríl var tilkynnt um þrjú göt voru á nótarpoka sjókvíar sem inniheldur frjóan norskan eldislax. Umrædd kví er í Arnarfirði og innihélt tæplega 90 þúsund norska eldislaxa sem eru 8 kg að meðalþyngd. Götin voru allt að 1 metri að stærð á 1,5 metra dýpi.

 

  • Þann 15. apríl var svo tilkynnt um enn eitt slysið. Þá hafði komið gat á nótarpoka sjókvíar í Patreksfirði. Gatið var 100 x 100 cm á 35 metra dýpi. Í kvínni voru 100 þúsund norskir eldislaxar með meðalþyngd upp á 6,8 kg.

Bara á þessu ári hafa orðið fjögur atvik af þessu tagi sem tilkynnt hefur verið um. Rekstraraðilar þessara sjókvía telja auðvitað að enginn fiskur hafi sloppið en það væri með miklum ólíkindum ef það hefur ekki gerst. Slysin munu halda áfram að eiga sér stað þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Það er vitað að þessar sjókvíar halda ekki fiski.

 

Í dag sendi Landssamband veiðifélaga Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra bréf þar sem fram kemur m.a. að Landssambandið geri ráð fyrir því að ráðuneyti hans muni láta sig þessi mál varða og að það muni leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að laxeldi verði leyft í Ísafjarðardjúpi. Umhverfisráðuneytið ber ábyrgð á málefnum sem varða náttúruvernd, þ.á m. mál sem varða líffræðilega fjölbreytni, verndun vistkerfa, búsvæða, tegunda og erfðaefnis. Stjórnvöld öll og þeir sem veita stofnunum og ráðuneytum forstöðu hverju sinni bera ríka ábyrgð þegar þeir leggja íslenska náttúru undir í svona veðmáli. Það kæmi Landssambandinu að minnsta kosti á óvart ef umhverfisráðuneytið lætur þessar fyrirætlanir um stórtækt laxeldi í Ísafjarðardjúpi óátaldar.

 

Það mun hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér að hleypa laxeldi inn í Ísafjarðardjúp.

 

Hér er hægt að sækja fréttatilkynningu í pdf-skjali.

 

Hér er hægt að sækja meðfylgjandi ítarefni í pdf-skjali