Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
17. apríl 2020

ESA telur Ísland brotlegt í fiskeldismáli

Eftirlitsstofnun EFTA segir að beitt hafi verið ólögmætum ákvæðum í íslenskum lögum og reglugerð er tvö fiskeldisfyrirtæki fengu að starfa þrátt fyrir að úrskurðarnefnd hefði sagt starfsemina í bága við lög. 

 

Byggt var á lögum sem stangast á við Evróputilskipun um umhverfismat er fiskeldisfyrirtækin Fjarðalax og Artic Sea Farm fengu tímabundið leyfi fyrir starfsemi sína. Þetta er bráðabirgðaniðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, sem sendi kvörtun til ESA segir niðurstöðuna í samræmi við væntingar.

Kvörtunin laut að lagabreytingu sem Alþingi gerði í október 2018 eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindmála hafði úrskurðað starfsleyfi Fjarðalax og Artic Sea Farm frá því árinu áður ógild. Alþingi breytti lögum um fiskeldi þannig að sjávarútvegsráðherra gat veitt fyrirtækjunum undanþágu í tvisvar sinnum tíu mánuði. Í dag eru fyrirtækin komin með hefðbundin leyfi.

 

„Niðurstaðan sýnir enn og aftur mikilvægi þess að Alþingi virði lýðræðislega ferla við ákvarðanatöku en ef lögin hefðu ekki verið sett í þessum flýti sem var gert og eðlileg umræða um málið hefði fengið að eiga sér stað með aðkomu almennings og samtaka eins og Landverndar, er ólíklegt að lög sem brjóta í bága við EES-reglur hefðu verið sett,“ segir Auður. Landvernd hafi biðlað til stjórnvalda um að setja ekki slík ólög en að ekki hafi verið hlustað.


 

Auk ákvæðis í fyrrnefndum lögum um fiskeldi segir ESA sambærileg undanþáguákvæði sem til staðar voru í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og í reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir stangast á við fjögur atriði í Evróputilskipuninni um umhverfismat. Þessum ákvæðum beitti umhverfis- og auðlindaráðherra er hann veitti áðurnefndum fyrirtækjum undanþágur í nóvember 2018.


 

Brotin telur ESA að sögn Auðar felast í að almenningur sé útilokaður frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og í því að gera almenningi ókleift að kæra leyfin. Einnig sé brotið gegn ákvæði um að gilt umhverfismat liggi fyrir áður en veitt eru rekstrar- og starfsleyfi.


 

ESA veitir íslenskum stjórnvöldum frest fram til 14. júní til að skila inn athugasemdum. Magnús Óskarsson, lögmaður Landverndar, kveðst ekki eiga von á breyttri niðurstöðu. „Þó að þetta sé bráðabirgðaákvörðun er ríkið þegar búið að koma sínum sjónarmiðum að,“ segir lögmaðurinn.

 

Þessa frétt er að finna í Fréttablaðinu.